Hitafundur um sjávarútvegsmál

Fundargestir á sjávarútvegsfundi hlýddu á framsögumenn víða að segja sína …
Fundargestir á sjávarútvegsfundi hlýddu á framsögumenn víða að segja sína skoðun á hugmyndum um kerfisbreytingar í sjávarútvegi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Píratar beita sér ötullega fyrir umfangsmiklum kerfisbreytingum í íslenskum sjávarútvegi og buðu í aðdraganda kosninganna til sín nokkrum kunnáttumönnum til að taka samtalið um þessar hugmyndir undir yfirskriftinni „Kerfisbreytingar í sjávarútvegi – tökum samtalið“. Fundurinn var haldinn í gær í Norræna húsinu.

Fyrstur steig á sviðið Ólafur Arnarson, talsmaður stjórnar Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ). Hann sagði það fagnaðarefni að efnt væri til viðlíka fundar, enda væri  skotgrafahernaður í umræðu um sjávarútveg engum til framdráttar og allra síst þjóðarhag.

„Það er rangt gefið“

Ólafur sagði sig og sína félagsmenn í SFÚ telja rangt gefið. „Það er okkur öllum til hagsbóta þegar til lengri tíma er litið að nýta markaðslausnir á öllum sviðum sjávarútvegs. Ég sem hagfræðingur get til dæmis ekki skilið röksemdafærsluna á bak við fyrirbærið Verðlagsstofuverð,“ sagði hann.

Hann taldi verð á erlendum mörkuðum skila sér seint og illa inn í hið svonefndna Verðlagsstofuverð, og staðreyndina vera þá að hæsta verðið fengist alltaf á markaði. „Það er ekki markmið okkar að öll félög eigi fýsískt að flytja allan fisk sem landað er á næsta fiskmarkað. Markmiðið er það að miðað verði við markaðsverð á þeim fiski sem landað er,“ bætti Ólafur við.

Annar í pontu var Heiðar Hrafn Eiríksson, löggiltur endurskoðandi hjá Þorbirni hf. í Grindavík. Í máli hans kom fram að eftir að veiðar voru takmarkaðar hefðu útgerðir landsins þurft að auka verðmæti á hvert kíló sem veitt var. Það hefði orðið til þess að íslenskur sjávarútvegur hefði hætt að einblína á magn og farið að hlusta eftir óskum markaðarins.

Virðiskeðjan skiptir öllu

Heiðar lagði ríka áherslu á að mikilvægt væri að virðiskeðjan sem lægi frá veiðum á disk neytenda erlendis héldist óslitin. Slíkt sagði hann tryggja best gæðin til kröfuharðra erlendra markaða, og bein frávikavandamál sem upp kæmu í keðjunni mætti tækla og lagfæra í samvinnu við kaupendur.

Þá vísaði Heiðar til þess að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hefðu fjárfest gríðarlega í greininni undanfarin ár og með því tekist að breyta því sem áður var uppbótarvinna á afgangshráefni í hátæknilega matvælavinnslu sem stæðist allan alþjóðlegan samanburð. Ný tækni hefði verið þróuð til að nýta allt sem til félli við vinnslu á aflanum og afraksturinn væri virðisauki við nýtingu afganga upp að 700%, eins og sjá mætti á nýtingu þorskroðs í kollagenvörur.

Í lok framsögu sinnar lagði Heiðar mikla áherslu á að ekki mætti slíta virðiskeðjuna í sundur með kröfunni um allan fisk á markað. „Að ætla að eyðileggja besta sjávarútveg í heimi „af því bara“ er ábyrgðarhlutur, og tryggir alls ekki besta framlag hans til íslensks efnahagslífs,“ sagði Heiðar Hrafn.

Álfheiður Eymarsdóttir talaði fyrir umfangsmiklum kerfisbreytingum í sjávarútvegi.
Álfheiður Eymarsdóttir talaði fyrir umfangsmiklum kerfisbreytingum í sjávarútvegi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Næst tók til máls Álfheiður Eymarsdóttir, frambjóðandi Pírata í Suðurkjördæmi. Hóf hún mál sitt á því að útlista þá ágalla sem hún taldi á núverandi fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunarkerfisins. „Það er eignarhaldið á auðlindinni, það er gjaldtakan fyrir afnot, samþjöppun, atvinnufrelsi, tilflutningur á kvóta, möguleikar á útflutningi hagnaðar, mjög óeðlilegir viðskiptahættir og furðuleg verðmyndun á aflanum,“ sagði Álfheiður. Sagði hún þetta stóra galla, sem lagfæra mætti á einfaldan hátt. Þetta vildu Píratar laga með því að setja allan afla á markað, uppboði á aflaheimildum og frjálsum handfæraveiðum. „Með þessu fæst jafnræði, sanngjörn skipting auðlindarentunnar, eðlileg nýliðun í greininni, öryggi og fyrirsjáanleiki. Aðstöðumunur er jafnaður og byggðirnar jafnt sem frumkvöðlar fá tækifæri til að blómstra,“ sagði hún.

Stjórnarskrárbreyting lykilatriði

Álfheiður gagnrýndi að auðlindum þjóðarinnar hefði verið úthlutað með þessum hætti „endurgjaldslaust og varanlega“. Að hennar mati hefði enginn rétt til að ráðstafa auðlind þjóðar til frambúðar endurgjaldslaust, en þetta hefði engu að síður orðið að raunveruleikanum sem við byggjum við í dag. „Til að breyta þessu er grundvallaratriði,“ hélt Álfheiður áfram, „að eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni verði fest í stjórnarskrá og allar breytingar í þessa veruna eru gagnslausar nema þetta ákvæði fari inn í stjórnarskrá. Okkur finnst það óeðlilegt og óréttlátt að  misvitur stjórnvöld hafi í raun og veru frelsi til að afhenda auðlindir til frambúðar.“

Steig þá í pontu Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Heiðrún hóf mál sitt á að spyrja hvert væri markmiðið með fiskveiðistjórnunarkerfinu, þ.e. nýtingu auðlindarinnar. Að hennar mati væri umrætt markmið þríþætt.

„Í fyrsta lagi eru það þessi umhverfismarkmið eða sjálfbærnismarkmið,“ sagði Heiðrún. „Við höfum kvótasett fiskistofna, við viljum að það sé veitt í samræmi við ráðgjöf og að það sé sjálfbær nýting af þessum stofnum. Þetta er það sem hefur skilað okkur á þann stað sem við erum í dag. Það er ekki ofveiði í kerfinu og það er búið að samtvinna hagsmuni þjóðarinnar af nýtingu stofnanna og hagsmuni greinarinnar og þeirra sem eru í útgerð.“

„Við þurfum fyrirsjáanleika og stöðugt kerfi“

Í öðru lagi vísaði Heiðrún til hagkvæmnissjónarmiða: „Við viljum auðvitað stuðla að því að kerfið sé hagkvæmt; að það skili arðsemi fyrir þá sem stunda veiðarnar og arðsemi fyrir samfélagið í heild sinni. Þess vegna þurfum við að hafa fyrirsjáanleika og stöðugt kerfi. Kerfið í dag skilar arðsemi til þjóðarbúsins, sem er nokkuð sem aðrar þjóðir geta ekki státað af,“ sagði Heiðrún Lind.

Loks væri markmiðið samfélagslegt. Að mati Heiðrúnar væri samfélagslegur ávinningur þjóðarinnar af greininni tryggður með sköttum og gjöldum, viðvarandi störfum og starfsöryggi og að auki skerðingu á aflaheimildum um 5%, sem næmi í krónum talið um 10-15 milljörðum til ríkisins.

Heiðrún Lind framkvæmdastjóri SFS telur lóðrétta samþættingu lykilatriði í alþjóðlegri …
Heiðrún Lind framkvæmdastjóri SFS telur lóðrétta samþættingu lykilatriði í alþjóðlegri samkeppni sjávarútvegsfyrirtækja. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Heiðrún lagði ríka áherslu á að þegar settar væru fram tillögur um breytingar á kerfinu þyrfti að huga að afleiðingunum. Núverandi kerfi væri að virka vel og sagðist hún sannfærð um að jafnvægi fyrrnefndra þriggja markmiðsþátta sjávarútvegsgreinarinnar yrði raskað ef róttækar breytingar yrðu gerðar á kerfinu. Þá vísaði Heiðrún til reynslu annarra þjóða sem reynt hefðu fyrir sér með uppboð á aflaheimildum og sagði reynslu þeirra af slíkum tilraunum slæma.

Loks benti Heiðrún á tilmæli Samkeppniseftirlitsins í sambandi við kröfuna um allan afla á markað og vísaði til orðalags álits Samkeppniseftirlitsins um þetta: „Þess vegna er ekki skynsamlegt að gera kröfu um að allur fiskur sé fluttur á fiskmarkað áður en hann fer til frekari vinnslu.“ Taldi Heiðrún umræðuna um lóðrétta samþættingu útgerða villandi og sagðist ekki skilja hvaðan menn fengju eiginlega þá niðurstöðu að rétt væri að aðskilja veiðar og vinnslu.

„Hvað verður um auðlindarentuna?“

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttatímans, hóf því næst upp raust sína. Hann tók fram í upphafi að hann tengdist sjávarútveginum engum hagsmunaböndum og væri því þangað kominn sem „fulltrúi hins venjulega manns“.

„Málið er nefnilega að á fiskimiðunum okkar skapast auðlindarenta. Hún er í því fólgin að í almenningnum í kringum landið er ókeypis hráefni sem menn geta sótt og unnið.“ Rakti Gunnar Smári síðan sögulega þróun fiskveiða í landinu og hina íslensku iðnbyltingu. Óhugnanlegur auður hefði myndast hér á Íslandi á stríðsárunum þegar landinn sat einn að fiskimiðunum. Sá auður hefði dreifst víða um landið en einnig safnast í miklu magni á hendur þeim sem ráku útgerðirnar.

Fram kom í máli hans að í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar hefði auðlindarentan glutrast niður sökum ofveiði og offjárfestingar. Kvótakerfið hefði fyrst og fremst verið sett á til verndar fiskistofnunum, sem voru í slælegu ástandi eftir árin á undan og hefði nýst vel til að skammta aðgengi að auðlindinni.

„Þá situr eftir: Hvað verður eiginlega um auðlindarentuna sem var drifkrafturinn í íslenskri iðnbyltingu og byggði upp sjávarbyggðir hringinn í kringum landið?“, spurði Gunnar Smári. „Það sem gerðist milli 1990 og 1995 var að aflahlutdeild tíu stærstu kvótaeigendanna fór upp í 50%,“ hélt Gunnar Smári áfram. Þessi samþjöppun hefði vissulega haft sína kosti enda hefði þetta aukið hagræði, byggt upp öflug fyrirtæki og getu til byggja upp samkeppnishæfan matvælaiðnað. „En málið er að við eigum mörg fleiri fyrirtæki sem hafa byggt upp hátækniverksmiðjur og keppa á alþjóðlegum mörkuðum án þess að fá til þess ókeypis hráefni. Það er ekki gundvallarforsenda fyrir vel rekinni matvælavinnslu að eigandinn megi fara og sækja hráefnið sitt ókeypis,“ bætti hann við.

„Er sanngjarnt að þessi stóru fyrirtæki fái áfram auðlindarentuna til að kaupa upp útgerðir í Þýskalandi, Marokkó, Kanada, Síle, Noregi og Færeyjum? Er það markmiðið að við sópum inn auðlindarentunni og látum eigendurna hafa hana?“ spurði Gunnar Smári. Taldi hann svo ekki vera og sgði sína skoðun vera þá að auðlindarentunni væri betur borgið í sameiginlegum sjóðum.

„Hér var allt á hausnum og greinin hálfgjaldþrota“

Síðastur á mælendaskrá var Guðmundur Kristjánsson, eigandi Brims hf. Rakti Guðmundur forsögu þess að kvótakerfið var lögfest árið 1984. Fiskstofnar við landið hefðu verið alvarlega ofveiddir og „í raun allt á hausnum og greinin hálfgjaldþrota“. Offjárfesting í greininni á þessum tíma hefði í raun skert lífskjör allra Íslendinga.

Hann vísaði til Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og undirstrikaði að kvótakerfið okkar byggði á þeim grunni sem lagður hefði verið með lögfestingu hans. „Ég held að kvótakerfið hafi verið valið vegna þess að þetta var skynsamlegasta leiðin af mörgum sem til greina komu á þessum tíma,“ sagði Guðmundur.

„Það verður að hafa í huga þegar rætt er um fiskveiðistjórnunarkerfið að við eigum svo mikið undir þessu komið. Fiskveiðar eru ekki jafnmikilvægar Norðmönnum því þeir hafa olíuna. Færeyingar hafa alltaf haft stuðning frá Dönum, Grænlendingarnir sömuleiðis og Kanadamenn höfðu Ottawa. En við höfum ekkert nema okkur sjálf,“ sagði Guðmundur.

Hann benti á að umræðan snerist oftar en ekki um að láta sjávarútveginn borga til samfélagsins. „Við getum borgað. Að sjálfsögðu eigum við að borga. En það fylgir auknum kröfum um gjaldtöku úr sjávarútvegi að hann verður þá að vera rekinn eins vel og mögulegt er. Sjáið ástandið hjá öðrum þjóðum. Danmörk, Þýskaland og Svíþjóð eru öll með öðruvísi kerfi en við og það er verið að greiða útgerðum þar styrki, í staðinn fyrir að útgerðirnar greiði skatta og gjöld í sameiginlega sjóði. Þetta er bara ekki sambærilegt,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði rangfærslur einkenna umræðu um sjávarútveg og vísaði til efnahagsyfirlits sjávarútvegsins frá Hagstofu Íslands máli sínu til stuðnings. Að auki nefndi hann að útgerðir borguðu gríðarleg laun í samanburði við aðrar greinar. Enn fremur væri gengi krónunnar búið að styrkjast mikið undanfarið svo ljóst mætti telja að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2016 yrði öllu lakari en árin á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,91 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 192,14 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 120,61 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,35 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Tryllir GK 600 Grásleppunet
Grásleppa 1.264 kg
Þorskur 164 kg
Skarkoli 115 kg
Rauðmagi 20 kg
Samtals 1.563 kg
25.4.24 Loftur HU 717 Handfæri
Þorskur 408 kg
Karfi 74 kg
Ufsi 35 kg
Samtals 517 kg
25.4.24 Von HU 170 Grásleppunet
Grásleppa 1.092 kg
Skarkoli 590 kg
Þorskur 502 kg
Ýsa 97 kg
Steinbítur 6 kg
Sandkoli 3 kg
Samtals 2.290 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,91 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 192,14 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 120,61 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,35 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Tryllir GK 600 Grásleppunet
Grásleppa 1.264 kg
Þorskur 164 kg
Skarkoli 115 kg
Rauðmagi 20 kg
Samtals 1.563 kg
25.4.24 Loftur HU 717 Handfæri
Þorskur 408 kg
Karfi 74 kg
Ufsi 35 kg
Samtals 517 kg
25.4.24 Von HU 170 Grásleppunet
Grásleppa 1.092 kg
Skarkoli 590 kg
Þorskur 502 kg
Ýsa 97 kg
Steinbítur 6 kg
Sandkoli 3 kg
Samtals 2.290 kg

Skoða allar landanir »