Mikil umskipti orðið í sjávarútvegi

Ásgeir Jónsson hagfræðingur bendir á að þrátt fyrir að ekki …
Ásgeir Jónsson hagfræðingur bendir á að þrátt fyrir að ekki hafi aukið við heildaraflann um árabil sé verið að skapa margfalt meiri verðmæti úr sjávarfangi. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er gaman fyrir unga menn að fara á sjó. Ég held það sé fátt betra fyrir þá en að vaka og vinna og vaka og vinna,“ segir Ásgeir Jónsson hagfræðingur um sína reynslu af sjómennsku. Hann segir mikinn viðsnúning hafa orðið á sjávarútvegi síðstu þrjá áratugi þar sem gjaldþrota grein sé orðin verulega arðbær.

Þetta kom fram í viðtali Ásgeirs við mbl.is, en umfjöllunin er einnig að hluta byggð á því sem Ásgeir tók saman og birti í nýútkomnu fréttabréfi Virðingar hf.

Hætti í líffræðinámi og réði sig á togara

Ásgeir hætti í líffræðinámi við Háskóla Íslands um tvítugsaldurinn og ákvað að snúa á heimaslóðir og halda til sjós. Hann var háseti á skuttogaranum Skagfirðingi, sem var elsti togari flotans þegar hann steig um borð, gerður út af Fiskiðjunni á Sauðárkróki.

„Þetta var frábær tími,“ segir hann. „Það er freistandi í þessu sambandi að vitna í söngtexta Bjartmars Guðlaugssonar úr laginu Vottorð í leikfimi; „að lífsspekin liggur í saltinu, rokinu og kláminu“. En það er önnur saga.“ Hann segir skipið hafa verið fínasta sjóskip en að aðbúnaður áhafnarinnar um borð þætti seint boðlegur nú til dags.

Ásgeir hefur skoðað stöðu sjávarútvegsins fyrir tíma kvótakerfisins og hefur lagt orð í belg um þá heitu kartöflu sem sjávarútvegsmálin eru á opinberum vettvangi allnokkrum sinnum. Hann segir óumdeilt að þegar kvótakerfið hafi komið fram í sinni fyrstu mynd árið 1984 hafi rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hérlendis verið herfilegur.

Offjárfesting og gjaldþrota grein

„Í fyrsta lagi var gríðarleg offjárfesting í greininni enda hafði skuttogurum verið dreift um landið sem eins konar byggðastefnu. Þeir áttu að skila stöðugu magni af fiski sem aftur átti að skila stöðugri atvinnu í frystihúsinu sem að lokum átti að treysta byggð um landið. Þess vegna var þessum togurum dreift út um allt land og því fylgdi tímabundin fjölgun fólks á landsbyggðinni,“ segir Ásgeir.

Fljótlega hafi þó farið að bera á ofveiði úr einstökum stofnum og þá hafi verið sett á sóknarmarkskerfi, s.k. skrapdagakerfi, sem gekk ekki alveg sem skyldi fremur en önnur sóknarmarkskerfi. Um árið 1981 hafi þorskveiðar farið að minnka, og árið 1982 hafi verið 40% taprekstur af útgerð hérlendis. „Útgerðirnar horfðust þá í augu við minni afla, hærri sóknarkostnað og jákvæða raunvexti eftir að verðtryggingu var komið á með Ólafslögum árið 1979. Þegar við þetta bættist óstöðugleiki í hagkerfinu og staðan var eiginlega sú að sjávarútvegurinn var kominn í algert öngstræti þegar kvótakerfinu var komið á árið 1984,“ segir hann.

„Fiskmarkaðir þekktust ekki heldur var fiskverð ákveðið af opinberu verðlagsráði og millifærslukerfi. Vegakerfi landsins var byggt upp af malarvegum sem voru vanbúnir fyrir þungaflutninga. Verðbólga mældist í tugum prósenta. Greininni hafði um langan tíma verið haldið uppi með lánum á neikvæðum raunvöxtum en eftir að verðtryggingu var komið á árið 1979 fór að þrengja að mörgum skuldsettum fyrirtækjum. Hrun þorskstofnsins árið 1989 var síðan gríðarlegt áfall – útgerðin var á leiðinni á hausinn og við lá að hún myndi draga bankakerfið með sér. Níundi áratugurinn endaði því á stóru „beiláti“ fyrir sjávarútveginn sem var með öðrum þræði „beilát“ fyrir bankakerfið sjálft,“ heldur Ásgeir áfram.

Framsal aflaheimilda mikilvægt

Ásgeir segir að fiskmarkaðarnir hafi skipt sköpum. „Þetta skapaði nýjar forsendur fyrir fiskvinnslu og síðan komu malbikaðir vegir sem þýddi það að menn gátu farið að keyra með fisk á milli staða. Þetta var mikil bylting; að geta landað fiski á einum stað og keyrt hann eitthvað annað til að vinna hann,“ bætir hann við. Fiskmarkaðirnir hafa gefið útgerðunum færi á að sérhæfa sig. Þær velja þær fisktegundur úr aflanum sem þær vilja vinna og selja annað frá sér.  Eins geta menn byggt sérhæfðar vinnslur sem vinna bara ákveðnar tegundir af fiski eða ákveðna stærð eða hvað sem er.

En þá jafnframt varð sú mikilvæga breyting gerð að aflaheimildir urðu framseljanlegar árið 1990 sem skapaði grunn fyrir hagræðingu í greininni – að hin hagvæmari fyrirtæki keyptu út þau lakari. Samhliða hafa sjávarútvegsfyrirtækin stækkað en jafnframt hefur stoðum verið skotið undir gríðarmörg lítil og sérhæfð fyrirtæki. Ásgeir segir miklar breytingar hafa orðið á sjávarútvegi á síðastliðnum árum – og greinin sé áfram í hraðri þróun. Ekki sé langt síðan menn töluðu um það einum rómi að frystitogarar væru aðalmálið, en nú sé staðan sú að útgerðir séu í auknum mæli að færa sig aftur á ísfiskveiðarnar.

„Ég man nú þá tíð að menn voru sífellt að tala um hvað sjávarútvegur væri óstöðug grein. Það þurfti alltaf sérstakar efnahagsráðstafanir til að hjálpa sjávarútveginum í gegnum alls konar vesen með reglulegum hætti. Allt slíkt tal er löngu þagnað. Það bara þekkist ekki lengur,“ segir Ásgeir. Máli sínu til stuðnings vísar hann til frétta um að mögulega verði engin loðna á næsta ári, og segir ekki langt síðan slíkt hefði verið gríðarlegt högg fyrir útveginn í landinu. „Þau sjávarútvegsfyrirtæki sem veiða loðnu geta hagrætt og eru með fleiri tegundir sem þau geta unnið í staðinn. Það þarf engar æfingar til að bregðast við yfirvofandi loðnubresti,“ segir Ásgeir.

Loðnan finnst hvergi en greinin heldur sjó samt sem áður.
Loðnan finnst hvergi en greinin heldur sjó samt sem áður. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sjávarútvegur orðinn stöðugri

Að mati Ásgeirs er sjávarútvegur orðin tiltölulega stöðug grein, sem sé mikill viðsnúningur frá því sem var fyrir nokkrum árum. Aflinn hafi staðið nokkuð í stað í tonnum en umtalsvert meiri verðmæti séu unnin úr honum.

„Það er enn algengt að vísað sé til sjávarútvegs sem eins konar námuvinnslu þar sem hagnaðurinn skapist aðeins með því henda vörpu í sjó. Það er rangt í grundvallaratriðum. Ef annað veiðikerfi væri við lýði myndi það leiða til þess að veiðarnar væru hagnaðarlausar – líkt og var hérlendis fyrir daga kvótakerfisins og þekkist enn í mörgum vestrænum löndum. Hagnaðurinn skapast með því að byggja upp virðiskeðjur sem einnig mynda bakbein fyrir hátækniiðnað af ýmsum toga.

Útgerðarmenn hafa í rúm þrjátíu ár farið eftir þeim leikreglum sem þeim voru settar af stjórnvöldum. Þeir eru því ekki þjófar eða lögbrjótar – heldur hafa þeir þrátt fyrir allt gengið vel um þá auðlind sem þeim hefur verið treyst fyrir. Og þeir hafa ekki fengið aflaheimildarnar ókeypis – heldur yfirleitt keypt þær af öðrum útgerðum. Það er þó ekki þar með sagt að þeir geti haldið allri auðlindarentu Íslandsmiða eftir hjá sjálfum sér og áhöfnum skipanna til framtíðar,“ segir Ásgeir Jónsson að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 320,07 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 566,23 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 211,79 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 168,62 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 232,79 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Kaja ÞH 66 Grásleppunet
Grásleppa 1.269 kg
Þorskur 51 kg
Skarkoli 10 kg
Samtals 1.330 kg
25.4.24 Bobby 4 ÍS 364 Sjóstöng
Þorskur 182 kg
Samtals 182 kg
25.4.24 Bobby 13 ÍS 373 Sjóstöng
Þorskur 137 kg
Samtals 137 kg
25.4.24 Bobby 3 ÍS 363 Sjóstöng
Þorskur 60 kg
Samtals 60 kg
25.4.24 Bylgja VE 75 Botnvarpa
Þorskur 50.964 kg
Ýsa 14.544 kg
Samtals 65.508 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 320,07 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 566,23 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 211,79 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 168,62 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 232,79 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Kaja ÞH 66 Grásleppunet
Grásleppa 1.269 kg
Þorskur 51 kg
Skarkoli 10 kg
Samtals 1.330 kg
25.4.24 Bobby 4 ÍS 364 Sjóstöng
Þorskur 182 kg
Samtals 182 kg
25.4.24 Bobby 13 ÍS 373 Sjóstöng
Þorskur 137 kg
Samtals 137 kg
25.4.24 Bobby 3 ÍS 363 Sjóstöng
Þorskur 60 kg
Samtals 60 kg
25.4.24 Bylgja VE 75 Botnvarpa
Þorskur 50.964 kg
Ýsa 14.544 kg
Samtals 65.508 kg

Skoða allar landanir »