Ofsagróði og andlegt ofbeldi

Vilhjálmur Birgisson segir marga sjómenn upplifa samband sitt við útgerðarmenn …
Vilhjálmur Birgisson segir marga sjómenn upplifa samband sitt við útgerðarmenn sem andlegt ofbeldissamband. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Vilhjálmur Birgisson hefur vakið mikla athygli fyrir skelegga framgöngu í störfum sínum fyrir samninganefnd sjómanna. Hann hefur ákveðnar skoðanir á kjarabaráttu sjómanna og sambandi þeirra við útgerðir landsins.

„Rekstrarskilyrði útgerðanna hafa verið með eindæmum góð síðustu ár, og það sést ágætlega á hagnaði þeirra undanfarið. Þegar krónan féll í hruninu gjörbreyttist staðan nánast á einni nóttu því útgerðir eru fyrst og fremst útflutningsfyrirtæki. Síðan þá hafa útgerðir landsins margar hverjar nánast malað gull,“ segir Vilhjálmur.

„Ef við lítum yfir síðastliðin sex ár, sem er sá tími sem sjómenn hafa verið kjarasamningslausir, þá er staðan sú að útgerðin hefur aldrei séð viðlíka tíð. Afkoma þeirra hefur verið ævintýri líkust,“ segir hann.

Sjá frétt: Eignir sjávarútvegs tæpir 590 milljarðar árið 2015

Gremja, hroki og líkist andlegu ofbeldissambandi

En hvernig finnst Vilhjálmi útgerðirnar hafa staðið sig gagnvart sjómönnum þann tíma sem um ræðir?

„Það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur með það að gremja sjómanna núna er tilkomin vegna hroka útgerðanna og þá vanvirðingu sem margir útgerðarmenn hafa sýnt sjómönnum. Það eru mörg dæmi þess að sjómenn sem ætla að sækja sinn rétt á einhverju sviði eða malda eitthvað í móinn fá bara að taka pokann sinn. Það hefur ríkt mikið vantraust og tortryggni milli sjómanna og útgerða,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir marga sjómenn upplifa sitt ráðningarsamband við útgerðarmenn sem andlegt ofbeldissamband. Það sé ein af skýringunum á því að kjarasamningamál sjómanna eru í þeim hnút þessa dagana sem raun beri vitni.

„Staða launamannsins og atvinnurekanda á þessu sviðinu er svo ofboðslega ójöfn að það er engu lagi líkt. Útgerðarmenn hafa algerlega í hendi sér hverja þeir ráða og hverja þeir reka. Þetta er virkilega viðkvæmt,“ bætir Vilhjálmur við.

Sjómenn heyja harða baráttu fyrir nýjum kjarasamningi. Verkfall sjómanna hefur …
Sjómenn heyja harða baráttu fyrir nýjum kjarasamningi. Verkfall sjómanna hefur nú staðið síðan 14. desember síðastliðinn. mbl.is/Hlynur Ágústsson

Bjöguð sýn á líðan starfsfólks

Að sögn Vilhjálms er sýn útgerðarmanna á líðan síns starfsfólks líklega bjöguð að einhverju leyti. Það sé til komið vegna þess að sjómenn veigri sér við því að  standa uppi í hárinu á útgerðarmönnum og því fái útgerðarmenn oftar en ekki bara að heyra já-ið.

„Sá sem segir nei og stendur á sínum rétti er að öllum líkindum búinn að koma sér í þá stöðu að hann á á hættu að missa sitt lífsviðurværi. Þetta þekkja flestir sjómenn. Þess vegna er ekkert skrýtið að menn séu feimnir við að setja sig upp á móti útgerðarmönnum. Það er sorglegt en jafnframt staðreynd að það er heimilt að lögum að gera tímabundna ráðningarsamninga við sjómenn til hverrar veiðiferðar fyrir sig í allt að tvö ár. Sjómenn þurfa því oft að sætta sig við það að hafa lítið sem ekkert atvinnuöryggi og engan uppsagnarfrest eftir allt að tveggja ára starf,“ segir Vilhjálmur.

Forkastanlegt að tala um tvær og hálfa milljón

Talsvert hefur verið rætt um laun sjómanna undanfarið og Vilhjálmur segir mikinn misskilning ríkja um raunveruleg laun þeirra.

„Að menn leyfi sér að ýja að því að því að laun sjómanna séu tvær og hálf milljón á mánuði, og hærri en laun lækna, er algerlega forkastanlegt og einfaldlega rangt. Ég hef aðgang að gögnum okkar félagsmanna og þar er fljótséð hver raunveruleg laun virkilega eru. Ég gerði könnun hjá okkur og okkar niðurstaða var sú að árið 2016 væru meðallaun um kr. 970.000. Það er með orlofi, og þar fyrir utan er kostnaðarhlutdeild sjómanna fyrir það eitt að mæta til vinnu heill hellingur. Menn þurfa að greiða háar fjárhæðir fyrir hlífðarfatnað, fæði og að geta verið í sambandi við umheiminn. Sjómenn þurfa að borga stórar fjárhæðir fyrir það eitt að mæta í vinnu sína,“ segir Vilhjálmur.

Svakalegur og óútskýrður verðmunur á sama afla

Hann blæs á þau rök útgerðanna að laun sjómanna séu með þeim hætti sem þau eru vegna þess að þar séu menn á hlutaskiptum.

„Á hvaða hlutaskiptum eru menn? Í uppsjávargeiranum geta menn ákveðið sjálfir hvaða verð þeir miða sitt uppgjör við,“ segir hann.

Hann nefnir sem dæmi að á nýyfirstaðinni makrílvertíð hafi verið gert upp við sjómenn samkvæmt því að kílóverð á makríl væri 47-50 kr. pr. kíló. Þar hafi verið um að ræða makríl sem veiddur var við Íslandsstrendur og landað á Vopnafirði.

„Síðan kom hér danskt skip sem heitir Ruth og veiddi makríl á sama svæði og á sama tíma. Þetta skip, sem veiddi sams konar makríl á Íslandsmiðum á sama tíma, sigldi til Noregs og landaði þar. Þeir fengu 133 krónur á kílóið fyrir sama makríl og greiddar voru tæpar 50 krónur fyrir kílóið af hér. Þetta er 160% munur!“

Sjá frétt: Met á met ofan hjá Ruth

„Þetta er að gerast í uppsjávargeiranum og hefur verið mjög lengi. Einhverra hluta vegna komast menn upp með svona. Ég vil fá óháða rannsóknarnefnd sem hefur víðtækar heimildir til að kalla eftir öllum gögnum til að komast til botns í því hvernig menn geta réttlætt 160% verðmun af sama afla. Ég held að það sé ekki hægt að réttlæta svona verðmun fyrir sama afla,“ heldur Vilhjálmur áfram.

Hann segir Ruth einnig hafa veitt síld hér við land og fengið 113 krónur á kílóið, á meðan gert væri upp við íslenska sjómenn á 42 krónum fyrir kílóið af síld sem landað væri hér á landi.

„Það þarf varla meðalgreindan apa til að sjá að það að greiða áhöfn 47-50 krónur á kílóið fyrir afla sem landað er á Vopnafirði á meðan verið er að greiða 133 krónur í Noregi fyrir sömu afurð stenst ekki nokkra einustu skoðun,“ bætir Vilhjálmur við.

Hlutaskipti eiga að miðast við raunverulegt verðmæti aflans

Hlutaskiptakerfið segir Vilhjálmur vera orðið talsvert flókið og ekki skrýtið að mörgum reynist erfitt að skilja það til hlítar.

„En það er eitt sem mig langar að benda á. Ef menn eru með hlutaskiptakerfi þá á að miða við útflutningsverðmæti þess afla sem um ræðir. Ekki skipta bara hlut sem útgerðarmenn geta bara ráðið hvernig eigi að ákveða. Það er alveg fáránlegt að segja það einu sinni, að menn geti bara ákveðið verð á aflann sem þeir selja sjálfum sér og gert upp við sjómenn á því verði – og selt aflann svo áfram á fullu verði til útlanda,“ segir Vilhjálmur með miklum þunga.

Um sjómannaafsláttinn segir Vilhjálmur útilokað að ganga frá nýjum kjarasamningi ef ekki verður leiðrétt það ranglæti sem felist í því að sjómenn séu eina starfsstéttin sem ekki fái dagpeninga fyrir að vinna sína vinnu fjarri sínu heimili.

Sjá frétt: Sjómenn eiga að sitja við sama borð og annað launafólk

Vilhjálmur á leið til fundar með samninganefnd sjómanna á dögunum.
Vilhjálmur á leið til fundar með samninganefnd sjómanna á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiga svo mikið fé að þeir verða að koma því fyrir einhvers staðar

Hann tekur þó sérstaklega fram að ekki sé hægt að setja allar útgerðir undir sama hatt.

„Þessar minni útgerðir eru auðvitað misjafnlega staddar og við verðum að taka tillit til þess. En við sjáum það á stærstu útgerðunum, sem eiga mikið af kvóta, að þeir eru fyrir löngu farnir að gerast umsvifamiklir á öðrum sviðum líka, eins og að leggja undir sig heilu fasteignafélögin. Þeir hafa hagnast svo rosalega að þeir eru tilneyddir að koma peningunum sínum einhvers staðar fyrir. Þau félög ættu að geta skrifað undir allar kröfur sjómanna án þess svo mikið sem að blikka auga. En af einhverjum ástæðum berjast þeir hvað harðast fyrir því að gengið verði að stærstu kröfum sjómanna. Það er hreint og beint ótrúlegt,“ segir hann.

„Ætli ég fengi nokkurs staðar aðra vinnu?“

Vilhjálmur segir að starf stéttarfélagsformannsins einskorðist yfirleitt ekki við hefðbundinn skrifstofutíma.

„Það eru fá kvöld hjá mér sem ekki fara í einhvers konar gagnaöflun og aðra vinnu þessu tengt. Ég hef tekið þá stefnu að reyna alltaf að afla mér eins mikilla upplýsinga og ég mögulega get og ef ég er í minnsta vafa um að réttur starfsfólks kunni að vera skertur þá læt ég reyna á það fyrir dómstólum. Ég er búinn að stefna svo mörgum fyrirtækjum og opinberum aðilum fyrir hönd minna félagsmanna að ég nefndi það við konuna mína um daginn hvort ég fengi nokkurs staðar vinnu, ef til þess kæmi að ég hætti sem formaður Verkalýðsfélags Akraness,“ segir Vilhjálmur.

„En mín sýn er einfaldlega sú að um leið og ég hætti að nenna að berjast fyrir fólk, þá fer ég eitthvað annað. Það er bara þannig,“ segir Vilhjálmur Birgisson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,86 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 191,99 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 122,07 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,06 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Austfirðingur SU 205 Línutrekt
Þorskur 7.439 kg
Ýsa 738 kg
Steinbítur 48 kg
Keila 21 kg
Karfi 12 kg
Samtals 8.258 kg
25.4.24 Hólmi NS 56 Grásleppunet
Grásleppa 3.357 kg
Þorskur 383 kg
Ýsa 23 kg
Samtals 3.763 kg
25.4.24 Magnús HU 23 Grásleppunet
Grásleppa 3.836 kg
Samtals 3.836 kg
25.4.24 Rún NS 300 Grásleppunet
Grásleppa 1.853 kg
Þorskur 296 kg
Skarkoli 100 kg
Samtals 2.249 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,86 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 191,99 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 122,07 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,06 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Austfirðingur SU 205 Línutrekt
Þorskur 7.439 kg
Ýsa 738 kg
Steinbítur 48 kg
Keila 21 kg
Karfi 12 kg
Samtals 8.258 kg
25.4.24 Hólmi NS 56 Grásleppunet
Grásleppa 3.357 kg
Þorskur 383 kg
Ýsa 23 kg
Samtals 3.763 kg
25.4.24 Magnús HU 23 Grásleppunet
Grásleppa 3.836 kg
Samtals 3.836 kg
25.4.24 Rún NS 300 Grásleppunet
Grásleppa 1.853 kg
Þorskur 296 kg
Skarkoli 100 kg
Samtals 2.249 kg

Skoða allar landanir »