Hvalir ná sér af ofveiði fyrri tíma

Ferðamenn dást að hrefnu við Íslandsstrendur.
Ferðamenn dást að hrefnu við Íslandsstrendur. mbl.is/Sigurður Ægisson

Breytingar á útbreiðslu hvala og fjölda þeirra eru viðfangsefni vísindamanna sem á nokkurra ára fresti reyna að telja þessi stóru spendýr í hafinu. Talsverðar breytingar hafa orðið á síðustu árum og margir þættir spila þar inn í. Þannig hefur þróunin verið ólík hjá langreyði og steypireyði og matseðill langreyðar er mun fjölbreyttari.

Í heildina eru stofnar stærri hvalategunda að stækka í Norður Atlantshafi og hafa margir þeirra náð sér af ofveiði fyrri tíma. Langreyður er dæmi um stofn sem hefur náð sér vel á strik, en athygli vekur að steypireyðurin hefur ekki náð sér, þó svo að tegundin hafi verið friðuð í um hálfa öld.

Nú er talið að í langreyðarstofninum séu yfir 40 þúsund dýr í Mið-Norður-Atlantshafi, en áætlað hefur verið að um þúsund steypireyðar séu á því svæði. Tegundirnar eru náskyldar, að sögn Gísla Víkingssonar, líffræðings og hvalasérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun, og er steypireyður stærsta dýr jarðarinnar.

Steypireyður á sundi. Mynd úr safni.
Steypireyður á sundi. Mynd úr safni.

Steypireyður heldur sig við átu

Gísli segir að það sama megi segja um flesta steypireyðarstofna í heiminum, þeir hafi ekki náð sér eftir ofveiði á hvölum í kringum aldamótin 1900 þrátt fyrir friðun. Skýringar á þessu liggi ekki fyrir, en þó kunni hluti skýringarinnar að vera sá, að langreyður er meiri tækifærissinni þegar kemur að fæðuvali. Auk átu étur langreyður síld, loðnu og ýmislegt annað, en steypireyður, hvar sem er í heiminum, virðist eingöngu éta átu.

Hnúfubakur var lengi að ná sér á strik eftir ofveiði fyrir um 100 árum, en er búinn að ná fyrri styrk, að sögn Gísla. Hann segir að hrefna hafi aldrei verið veidd niður á sama hátt og hinar stærri tegundir skíðishvala. Fjöldi hennar sveiflist þó innan minni svæða eftir átuskilyrðum, eins og á strandsvæðinu við Ísland.

Margir þættir í lífríkinu spili inn í þessa þróun varðandi fjölgun hvala eins og tilfærsla vegna hlýnunar sjávar og breytingar á fæðuframboði í hafinu. Líklegt sé að líffræðileg aukning standi ekki ein og sér undir svæðisbundinni fjölgun, t.d. langreyðar og hnúfubaks, á aðeins fáum árum.

Frá því reglulegar talningar á hvölum hófust á níunda áratugnum hefur langreyðarstofninn í Norður-Atlantshafi aldrei verið stærri en um þessar mundir. Samkvæmt talningu árið 2015 voru tæplega 41 þúsund langreyðar í Mið-Norður-Atlantshafi, þ.e. frá suðurodda Grænlands um Ísland, Færeyjar og til Jan Mayen í austri. Síðasta stofnstærðarmat þar á undan var gert í kjölfar talninga árið 2007 og samkvæmt því voru þá um 27 þúsund dýr á svæðinu.

Fyrsti hvalurinn kémur í land í Hvalfirði 2013.
Fyrsti hvalurinn kémur í land í Hvalfirði 2013. mbl.is/Árni Sæberg

Veiðiráðgjöf samþykkt fyrir langreyði og hrefnu

Gísli segir að aukningin sé mest annarsvegar á hefðbundnum hvalveiðimiðum á milli Íslands og Grænlands og hins vegar á hafsvæðinu fyrir sunnan og austan Ísland. Á 25 ára afmælisfundi NAMMCO, Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, í Grænlandi nýlega var samþykkt veiðiráðgjöf fyrir langreyði og miðar ráðið við að ekki verði veiddar fleiri en 209 langreyðar á miðunum kringum Ísland. Þar af er sérstök ráðgjöf fyrir Íslands-Færeyja-svæðið upp á 48 dýr og er þetta í fyrsta skipti sem slík veiðiráðgjöf er samþykkt fyrir austursvæðið.

Ráðlagður kvóti fyrir hrefnu í Mið-Norður-Atlantshafi er samtals 360 hrefnur. Inni í þeirri tölu eru veiðar Norðmanna við Jan Mayen og veiðar Grænlendinga við Austur-Grænland. Fyrir íslenska strandsvæðið er ráðgjöfin 217 dýr. Þessi ráðgjöf NAMMCO verður nú tekin til umfjöllunar innan Hafrannsóknastofnunar sem veitir stjórnvöldum endanlega ráðgjöf um nýtingu hvalastofna.

Langreyðar verða ekki veiddar af hálfu Hvals hf. hér við land í ár frekar en í fyrrasumar. Eldri ráðgjöf miðaði hins vegar við veiðar á allt að 146 dýrum. Hrefnuveiðimenn hafa síðustu ár veitt um 50 hrefnur árlega, en ráðgjöfin verið 224 dýr að hámarki.

NAMMCO eru svæðisbundin samtök um verndun og stjórnun nýtingar á hvöldum og eiga Norðmenn, Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar aðild að samtökunum. Þau voru stofnuð fyrir aldarfjórðungi, árið 1992, til að stuðla að auknum rannsóknum og bættri stjórnun sjávarspendýrastofna í Norður-Atlantshafi. Einnig til að veita Alþjóðahvalveiðiráðinu, IWC, aðhald og vera mögulegur valkostur sem lögmæt alþjóðastofnun sem stuðlar að verndun hvala- og selastofna og sjálfbærri stjórnun veiða í Norður-Atlantshafi.

Stökkvandi hnúfubakur. Þeim hefur fjölgað mikið undanfarin ár.
Stökkvandi hnúfubakur. Þeim hefur fjölgað mikið undanfarin ár.

Veður hamlaði talningu

Vegna veðurs gengu talningar á hrefnu á strandsvæðinu við Ísland erfiðlega í stóru hvalatalningunni 2015 og af sömu ástæðu tókst ekki heldur að ljúka flugtalningu á hrefnu. Matið úr henni er enn í vinnslu í vísindanefndum víða og verður tilbúið í sumar.

Í talningu 2009 var hrefnustofninn metinn í kringum tíu þúsund dýr og út frá skipatalningu 2015 var metið að stofninn væri svipaður eða heldur stærri. Að sögn Gísla er ekkert sem bendir til að miklar breytingar hafi orðið á hrefnufjölda á strandsvæði Íslands síðustu ár. Hins vegar var fjöldinn miklu meiri um aldamót og árið 2001 var talið að yfir 40 þúsund hrefnur væru á strandsvæðinu.

Gísli segir að fylgjast þurfi vel með hrefnunni næstu misseri og sérfræðingar séu að skoða hvernig það verði best gert. Hins vegar fari næsta stóra hvalatalning væntanlega ekki fram fyrr en 2022-23 og ný ráðgjöf muni gilda næstu 7-8 árin.

Íhaldssemi við ráðgjöf

Gísli segir að í eðli sínu séu útreikningar og aðferðir við ráðgjöf og kvóta íhaldssamar. Hvað varðar langreyði hafi verið mun meiri aukning í talningu heldur en í ráðgjöf. Bæði sé það vegna þess að talningar á hvölum geti í sjálfu sér ekki verið 100% nákvæmar og einn þáttur við útreikning kvóta samkvæmt tölvulíkani Alþjóðahvalveiðiráðsins sé að takmarka sveiflur í ráðgjöf og varúðarsjónarmiða sé gætt til hins ýtrasta.

NAMMCO hefur ekki veitt veiðiráðgjöf fyrir fleiri tegundir stórhvela við Ísland og hefur ekki frumkvæði að slíku. Grænlendingar hafa hins vegar beðið um úttekt á stofnstærð og ráðgjöf um veiðar á stofni hnúfubaks. Það mat bíður fundar vísindanefndar NAMMCO næsta haust, en hnúfubak hefur verið að fjölga við Grænland. Hvalveiðar sínar byggja Grænlendingar á reglum um frumbyggjaveiðar.

Földi grindhvala í vöðu.
Földi grindhvala í vöðu. Ljósmynd/Elding

Grænlendingar hafa aukið veiðar á stórhvölum

Grænlendingar hafa síðustu ár aukið veiðar á stórhvelum, meðal annars vegna athugasemda frá NAMMCO um að þeir gengju of hart fram í veiðum á litlum og meðalstórum hvölum.

Í A-Grænlandi er lítil byggð og þar hafa heimamenn heimild til að veiða tólf hrefnur. Við Vestur-Grænland eru kvótarnir hærri, en veiðin breytileg milli ára. Þar er heimilt að veiða tvo Grænlandssléttbaka árlega, 19 langreyðar, tíu hnúfubaka og 164 hrefnur. Auk þessa veiða Grænlendingar minni hvali eins og náhval og mjaldur, sem heyra ekki undir Alþjóða hvalveiðiráðið.

Veiðar Grænlendinga eru strandlægar, þannig að hvalirnir eru skutlaðir af bátum fyrir utan ströndina, en hvalstöðvar eru ekki starfræktar í Grænlandi. Síðan eru dýrin dregin á land þar sem kjötið er skorið af beinunum og dreift á meðal íbúa. Síðustu áratugi eru veiðimenn farnir að nota sprengiskutla, sem styttir dauðatíma dýranna. Samkvæmt reglum um frumbyggjaveiðar má ekki selja kjöt í verslunum þó einhver brögð muni hafa verið að því.

Norðmenn hafa ekki fullnýtt hrefnukvóta sinn, sem hefur verið um og yfir þúsund dýr á ári, og veitt um 600 dýr undanfarin ár. Á síðustu árum hafa þeir reynt að brjóta upp hindranir í Japan og opna þar markaði upp á nýtt, en áratuga hefð er fyrir sölu á hrefnukjöti frá Noregi til Japans.

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.
Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.

Hundruð þúsunda grindhvala í Atlantshafinu

Færeyjar nýta göngur grindhvala, en þær heyra undir NAMMCO, sem þó hefur ekki lagalega stöðu til að ákveða eða banna veiðar. Nú er hins vegar unnið að úttekt á grindhvalastofninum og verður veitt ráðgjöf um nýtingu í kjölfarið.

Gísli segir að slík úttekt hafi verið gerð fyrir mörgum árum og þá var niðurstaðan að grindhvalaveiðar Færeyinga hefðu ekki teljandi áhrif á stofninn. Gömul talning hefði metið að um 800 þúsund grindhvalir væru í Atlantshafinu og þó nýrri talningar eitthvað hefðu sýnt eitthvað færri dýr væri ljóst að hundruð þúsunda grindhvala væru í Atlantshafinu.

Af hvalveiðum á norðurslóðum má nefna að Kanadamenn, sem eru utan við Alþjóða hvalveiðiráðið, mega veiða tvo Grænlandssléttbaka. Bandaríkjamenn veiða hvali í Kyrrahafinu við Alaska, og er þar um frumbyggjaveiðar að ræða. Loks má nefna að St. Vincent og Grenadines hafa samkvæmt gamalli hefð heimild til að veiða tvo hnúfubaka í Karíbahafi. Á veturna fara hnúfubakar, meðal annars frá Íslandi, af norðurslóðum suður á bóginn á æxlunarstöðvar.

Greinin birtist fyrst í sjávarútvegsblaði 200 mílna og Morgunblaðsins 21. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 436,69 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 566,23 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 213,60 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 168,00 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 228,36 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 6,89 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Ver AK 38 Grásleppunet
Grásleppa 934 kg
Samtals 934 kg
24.4.24 Öðlingur SU 19 Línutrekt
Þorskur 12.806 kg
Ýsa 1.274 kg
Steinbítur 114 kg
Ufsi 47 kg
Keila 13 kg
Karfi 2 kg
Samtals 14.256 kg
24.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 1.701 kg
Ýsa 13 kg
Keila 3 kg
Samtals 1.717 kg
24.4.24 Straumey EA 50 Línutrekt
Þorskur 2.661 kg
Karfi 15 kg
Steinbítur 5 kg
Samtals 2.681 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 436,69 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 566,23 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 213,60 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 168,00 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 228,36 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 6,89 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Ver AK 38 Grásleppunet
Grásleppa 934 kg
Samtals 934 kg
24.4.24 Öðlingur SU 19 Línutrekt
Þorskur 12.806 kg
Ýsa 1.274 kg
Steinbítur 114 kg
Ufsi 47 kg
Keila 13 kg
Karfi 2 kg
Samtals 14.256 kg
24.4.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 1.701 kg
Ýsa 13 kg
Keila 3 kg
Samtals 1.717 kg
24.4.24 Straumey EA 50 Línutrekt
Þorskur 2.661 kg
Karfi 15 kg
Steinbítur 5 kg
Samtals 2.681 kg

Skoða allar landanir »