Unga fólkið sækir frekar í fiskréttina

Hólmgeir (t.h.) og Ísak Stefánsson verslunarstjóri í búðinni.
Hólmgeir (t.h.) og Ísak Stefánsson verslunarstjóri í búðinni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Vinnudagarnir eru langir en reksturinn gengur vel hjá Hólmgeiri Einarssyni. Sumarið 2009 opnaði hann Fiskbúð Hólmgeirs í Mjódd og hefur salan aukist með hverju árinu. Þetta árið reiknar Hólmgeir með að kaupa meira en 100 tonn af fiski á mörkuðum og er þá bleikja og lax ekki meðtalin. Nemur aukningin um 10% milli ára.

Hólmgeir er enginn nýgræðingur þegar kemur að því að flaka fisk. Hann lærði við Fiskvinnsluskólann og vann lengi sem verkstjóri í fiskvinnslum. Hann gerðist síðar fisksali hjá Fiskisögu en sú fiskbúðakeðja var lýst gjaldþrota árið 2010.

„Ég sá hvert stefndi og far farinn að hugsa mér til hreyfings þegar ég kemst að því að þetta góða verslunarrými í Mjódd væri að losna. Ég spyr konuna hvort við eigum ekki að taka þetta stóra stökk, og sammæltumst við um að opna saman búð sem við eigum í dag til helminga,“ segir Hólmgeir og bætir við að hann sé einstaklega lánsamur að eiga konu sem stendur svona vel við bakið á honum.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun og þurftum við að veðsetja húsið okkar til að fá bankalán, en í dag er bankinn löngu búinn að fá allt sitt til baka.“

Margar ferðir í Borgartún

Að opna nýja fiskbúð er hægara sagt en gert. Er verslun Hólmgeirs til húsa þar sem áður var ljósmyndavöruverslun og þurfti að gera ýmsar breytingar á húsnæðinu.

„Það var meiriháttar mál að breyta versluninni og jafnvel bara minni háttar lagfæringar á rafmagni kölluðu á að teikna allt kerfið upp á nýtt og fá samþykkt. Fólkið sem ég þurfti að tala við í þessu ferli var allt af vilja gert, en að opna búðina kallaði á svakalega margar ferðir niður í Borgartún.“

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Verslunarreksturinn hefur gengið vel allt frá byrjun. Hólmgeir dreifði miðum í húsin í kring til að láta nágrannana vita af sér, og naut líka góðs af því að hafa verið virkur í handboltastarfi íþróttafélagsins ÍR á árum áður og því vinamargur í hverfinu.

„Staðsetningin skemmir ekki fyrir og töluverð umferð af fólki hér í gegn. Bæði koma þau að gera matarinnkaup í Nettó hér við hliðina, og einnig áætlað að um fjórar milljónir strætisvagnafarþega fari í gegnum biðstöðina í Mjódd. Margir sem eru á leið með vagni út fyrir borgarmörkin nota tækifærið til að skjótast til okkar eftir fiski til að hafa í kvöldmatinn.“

Það er áhugavert að litlu fiskbúðirnar skuli ekki hafa orðið undir í slagnum við stóru matvöruverslanirnar og má í dag finna góða fiskbúð í flestum hverfum höfuðborgarsvæðisins. Hólmgeir segir að skýringin sé einkum að fiskur sé viðkvæmt hráefni og vakúmpakkaðir fiskbitar geti seint keppt við ferskan og nýflakaðan fisk úr kæliborði.

„Sá fiskur sem seldur er í neytendapakkningum í stórmörkuðum er kannski búinn að vera þar í nokkra daga, en í fiskbúðinni getur fólk stólað á að það fær nýja vöru, fiskurinn nýkominn af markaði og verið flakaður um morguninn,“ segir hann. „Fiskur er líka miklu viðkvæmari fyrir hvers kyns skemmdum en kjötið, og t.d. alveg óhætt þó að kjöt fái á sig smá hita í stutta stund. En ef þú missir kuldann einu sinni úr fiskinum, þá er hann einfaldlega orðinn ónýtur.“

Segir Hólmgeir að neytendur kunni líka að meta að geta keypt fisk í smærri einingum. „Það á t.d. við um eldra fólkið sem býr hér í kring, að þeim finnst gott að koma hingað í búðina og fá sín 300 eða 400 gr. af ýsu eða lúðu, frekar en að þurfa að kaupa 1-2 kg pakkningu í stórmarkaði.“

Hólmgeir skrifar velgengni sinnar verslunar á að leggja ríka áherslu á gæðin, en vera ekki endilega að keppast við að bjóða allra lægsta verðið hverju sinni. „Það er ekkert mál að selja fólki fisk einu sinni, en að gera það tvisvar eða oftar er meiri áskorun. Verslanir hér í kring og úti um allan bæ hafa auglýst miklu lægri verð en við, en fórna þá gjarnan gæðunum. Ég og mitt fólk viljum engu breyta, höldum okkar striki, og aukum gæðin og þjónustuna ef eitthvað er.“

Unga fólkið vill fiskréttina

Greina má smávægilegar breytingar á fiskneyslu borgarbúa og segir Hólmgeir að munur sé á því hvað unga og gamla fólkið kaupir í búðinni að þorskurinn sæki á á kostnað ýsunnar. „Unga fólkið sækir mikið í lax, bleikju, fiskrétti, plokkfisk og bollur á meðan eldri viðskiptavinirnir kunna t.d. að meta að ég bjóði upp á heila ýsu og gellur. Ég seldi þónokkuð af kinnum, en núna er eins og þær fáist hvergi.“

Hólmgeir kveðst láta það vera að bæta öðrum vörum en fiski við úrvalið í búðinni. Hann selur rúgbrauð, smjör og kartöflur, og lætur þar við sitja. „Í fyrstu prufaði ég að bjóða upp á salöt, sósur og annað fínerí, en skoðaði svo hvað var til hjá Nettó og sá að þar voru sömu vörur í boði, og jafnvel á lægra verði en ég var að fá í heildsölu. Ég bendi viðskiptavinunum því einfaldlega á að fara þangað ef þá vantar meira með fiskinum.“

Heyra má á Hólmgeiri að hann hefur gaman af starfinu, og lætur það ekki á sig fá þó vinnudagurinn sé langur og hefjist eldsnemma. Hann segist ekki hafa áhuga á að stækka reksturinn og bæta við fleiri verslunum, þó að það gæti þýtt meiri hagkvæmni. „Um leið og fyrirtækið stækkar þá eykst utanumhaldið. Það er fínt að vera með rekstrareiningu af þessari stærð, sem auðvelt er fyrir einn mann að halda utan um og vakta að viðskiptavinurinn fái alltaf gæðavöru.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 436,74 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 566,23 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 211,79 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 168,62 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 232,79 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Bobby 4 ÍS 364 Sjóstöng
Þorskur 182 kg
Samtals 182 kg
25.4.24 Bobby 13 ÍS 373 Sjóstöng
Þorskur 137 kg
Samtals 137 kg
25.4.24 Bobby 3 ÍS 363 Sjóstöng
Þorskur 60 kg
Samtals 60 kg
25.4.24 Bylgja VE 75 Botnvarpa
Þorskur 50.964 kg
Ýsa 14.544 kg
Samtals 65.508 kg
25.4.24 Bobby 9 ÍS 369 Sjóstöng
Þorskur 209 kg
Samtals 209 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 436,74 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 566,23 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 211,79 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 168,62 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 232,79 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Bobby 4 ÍS 364 Sjóstöng
Þorskur 182 kg
Samtals 182 kg
25.4.24 Bobby 13 ÍS 373 Sjóstöng
Þorskur 137 kg
Samtals 137 kg
25.4.24 Bobby 3 ÍS 363 Sjóstöng
Þorskur 60 kg
Samtals 60 kg
25.4.24 Bylgja VE 75 Botnvarpa
Þorskur 50.964 kg
Ýsa 14.544 kg
Samtals 65.508 kg
25.4.24 Bobby 9 ÍS 369 Sjóstöng
Þorskur 209 kg
Samtals 209 kg

Skoða allar landanir »