Skömm fyrir siglingaþjóð

Joyce og Kristinn á góðri stund.
Joyce og Kristinn á góðri stund.

Kristni Stein­gríms­syni var um helgina veitt norskt heiðurs­merki fyr­ir frammistöðu hans í síðari heims­styrj­öld­inni. Ítarlegt viðtal var við Kristinn í Morgunblaðinu í sumar þar sem hann rifjaði upp líf sjómannsins á stríðstímum og er það birt hér að neðan í tilefni af tímamótunum.

Þór Whitehead, sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Stríð fyrir ströndum, segir að Íslendingar hafi aldrei veitt sjómönnum sínum á stríðstímum viðurkenningu og slíkt sé skömm fyrir siglingaþjóð eins og Ísland. „Þetta er alveg ótrúlegt en það er ekki hægt að segja að þeir hafi verið sérstaklega heiðraðir. Það er með miklum ólíkindum að íslenska siglingaþjóðin hefur ekki heiðrað sínar stríðshetjur. Það er náttúrlega til vanvirðu,“ sagði Þór í viðtali við Morgunblaðið í júní.

Kristinn Einar Steingrímsson fæddist í Reykjavík 1922, en er nú búsettur á Nýja-Sjálandi. Kristinn hefur á lífsleiðinni siglt um öll helstu úthöf heimsins en á yngri árum sigldi hann með Sverri EA 20 í kaupsiglingum til Bretlandseyja á tímum seinni heimsstyrjaraldarinnar. Þegar stríðinu lauk vann hann á fiskibátnum Helgu RE en síðar leiddi ævintýraþrá og leit að hlýrra loftslagi hann til Nýja-Sjálands.

Kristinn Einar Steingrímsson
Kristinn Einar Steingrímsson

Barnabarn Kristins, Emma Devlin, hefur nú á síðustu árum verið í samskiptum við ýmsar íslenskar stjórnsýslustofnanir til að safna gögnum um siglingar hans á stríðsárunum í von um að hann fá viðurkenningu fyrir störf sín en Bretar hafa meðal annars veitt kaupsiglingamönnum sínum medalíur fyrir aðstoð sína á stríðstímum.

 Sigldu einskipa til Bretlands

Kristinn segist í samtali við Morgunblaðið muna vel eftir stríðinu og siglingum sínum yfir Norður-Atlantshafið. Kristinn var 19 ára gamall þegar hann gekk fyrst um borð í Sverri árið 1942. „Ég man eftir stríðinu, í einni ferðinni okkar til Bretlandseyja, þá komum við að stórum landgöngupramma sem flaut á hvolfi mitt á milli Íslands og Bretlands. Við vorum svona hálfnaðir á leið okkar og sigldum nær til athuga hvort það væru skipverjar í sjónum. Við sáum engan en vegna þess að veðurskilyrði voru góð ákváðum við að draga landgönguprammann til Bretlands. Bátnum hefði augljóslega verið sökkt en þetta var bandarískur landgönguprammi,“ segir Kristinn en Sverrir EA 20 fékk undanþágu 5. júlí 1944 frá undanþágunefnd um samflot fiskiskipa, til að sigla einskipa til Bretlands. Sigldi hann því einn síns liðs til Bretlands.

„Við gátum stigið yfir á prammann og fest okkur við hann. Þegar við sigldum nær Bretlandi fengum við fygld breskra skipa að landi. Þeir veltu auðvitað fyrir sér hvaða skip þetta væri, sem var að draga landgöngupramma að ströndum sínum,“ segir Kristinn og hlær. „Bretarnir voru mjög þakklátir og greiddi herinn skipstjóranum fyrir og hann deildi því með áhöfninni,“ segir hann en Arnbjörn Gunnarsson var skipstjóri Sverris EA á þessum tíma.

 Minningabók sjómanns

Kristinn ritaði minningabók á efri árum, sem gefin var út í nokkur hundruð eintökum fyrir fjölskyldu og vini. Þar rifjar hann upp stríðsárin og minnist þess hversu lánsamur hann var í raun að sleppa ómeiddur úr siglingum sínum á stríðsárunum. „Í gegnum stríðsárin var Norður-Atlantshafið hættulegur staður því þýskir kafbátar voru á fullu að stöðva vopnaflutninga frá Bandaríkjunum og matarsendingar frá öðrum löndum til Bretlands. Við á Íslandi vorum auðvitað hlutlaus, áttum engan her og sigldum með íslenskan fána á báðum endum skipsins til að sýna hvaðan við værum. Ég veit ekki hvort Þjóðverjarnir hafa tekið eftir því. Ég held að smæð bátsins okkar hafi átt stærstan hlut í að bjarga okkar,“ ritar Kristinn í bókina en alls létust 130 Íslendingar vegna árása kafbáta og flugvéla á skip í stríðinu.

Lífsháski á Helgu RE

Það var við lestur minningabókar Kristins sem barnabarn hans, Emma, ákvað að safna saman siglinga- og skipaskrám frá Íslandi í von um að hann fengi viðurkenningu fyrir störf sín í stríðinu.

Emma og Kristinn en hún er barnabarn hans.
Emma og Kristinn en hún er barnabarn hans.

Þegar heimsstyrjöldinni lauk og friður var tilkynntur í Evrópu hóf Kristinn störf á fiskiskipinu Helgu RE. „Ég var stýrimaður á Helgu frá Reykjavík í þrjú ár eftir stríð og áður en ég kom til Nýja-Sjálands,“ segir Kristinn en hann minnist þess er hann féll útbyrðis á Helgu og var nær dauða en lífi. Kristinn sá stóra öldu rísa bakborðsmegin yfir skipið og reyndi hann eftir bestu getu að halda skipinu stöðugu svo aldan myndi ekki skella skipinu flötu. Aldan sló hins vegar Kristin í rot og rankaði hann við sér í sjónum.

Um þetta ritar Kristinn í bókina:

„Þegar ég ranka við mér átta ég mig á því að ég er í sjónum. Ég áttaði mig fljótt á því að ég var að renna undir bátinn og náði að spyrna mér með fótunum frá skipinu svo ég myndi ekki lenda í skrúfunni.“

Segist hann hafa verið það ringlaður eftir höfuðhöggið að hann vissi ekki hvað sneri upp né niður. Hann segir að skelfingin hafi gripið sig þegar hann náði loks upp á yfirborðið til þess að ná andanum og sá bátinn sigla áfram. „Ég áttaði mig á því ég þyrfti að synda til að halda mér á floti og vonaði að skipið myndi snúa við,“ segir Kristinn.

Honum til happs höfðu skipverjar á Helgu tekið eftir því að hann hefði skolast af bátnum. Sneru þeir við og eftir tvær kasttilraunir með björgunarhring náðu þeir að draga hann um borð á ný. Segir Kristinn margar hendur hafa þurft til að nudda blóðflæðið á honum í gang á ný.

 Leitin að hlýrra loftslagi

Eftir þriggja ára dvöl á Helgu ákvað Kristinn ásamt vini sínum að sigla frá Íslandi í von um að komast í hlýrra loftslag. „Þetta var nú tilviljun. Ég og vinur minn, Gísli Ólafsson frá Austfjörðum, vorum að tala saman um að við hefðum gegnum árin siglt á þremur mismunandi skipum. Við ræddum um að komast í heitara loftslag og breyta um umhverfi. Við höfðum verið á norðurhveli jarðar alla ævi. Þannig að við ákváðum að reyna að koma okkur á flutningaskip sem færi langt. En það var ekki auðvelt,“ segir Kristinn og bætir við að þeir félagar stefndu á annaðhvort Ástralíu eða Nýja-Sjáland. Þeir enduðu á Nýja-Sjálandi en Gísli bjó þar einungis í nokkur ár. Kristinn hins vegar ílengdist þar, kynntist Joyce, eiginkonu sinni til 65 ára, og hafa þau alla tíð búið á Nýja-Sjálandi og stofnuðu þar fjölskyldu.

 Ást á tímum sjómannaverkfalls

„Það var nú tilviljun líka,“ segir Kristinn og hlær, aðspurður hvernig hann kynntist Joyce. „Ég hafði komið mér á skip hér á Nýja-Sjálandi en það var allsherjar sjómannaverkfall á árunum 1951 til 1952,“ segir hann. „Skipinu hafði verið lagt í höfn vegna verkfallsins. Þetta var lengsti tíminn sem ég hafði verið í landi í langan tíma svo ég skellti mér á dansleik og kynntist þessari stelpu. Er enn giftur henni 65 árum síðar,“ segir Kristinn og hlær aftur.

 Um heimsins höf og aftur heim

Kristinn kom síðast til Íslands árið 1957 og kom þá hingað með Joyce með sér. Þau hjónin lögðu af stað í langt ferðalag og sigldu um öll heimsins höf áður en komið var til Íslands. „Við fórum í smá heimsferð. Við byrjuðum í Sydney í Ástralíu, sigldum síðan til Perth og fórum þaðan yfir Indlandshafið og til Afríku. Við stoppuðum í Cape Town, og sigldum svo norður með Afríku til Kanaríeyja. Þaðan var siglt til Southampton og frá Southampton til Leeds og síðan ferjaði Gullfoss okkur til Reykjavíkur,“ segir Kristinn en ferðalag þeirra hjóna til Íslands tók um sex vikur á þessum tíma.

 Leitar viðurkenningar

Emma Devlin, barnabarn Kristins, hefur leitað eftir því bæði hér á Íslandi og í Bretlandi að Kristinn fái viðurkenningu fyrir siglingar sínar á stríðstímanum. „Það er synd að þeir skipverjar sem létu stríðið ekki á sig fá og sigldu áfram með vörur til Bretlands hafa ekki fengið neina viðurkenningu fyrir störf sín. Bretland upplifði mikinn fæðuskort á þessum tíma og þeir voru nauðsynlegir fyrir stríðsrekstur Breta,“ segir Emma í samtali við Morgunblaðið. Bretar hafa veitt eftirlifandi breskum kaupsiglingamönnum viðurkenningu fyrir aðstoð sína við stríðsrekstur Breta. Emma sendi ítarlega umsókn fyrir hönd Kristins til breska sjóflotans en henni var hafnað þar sem Kristinn væri íslenskur.

Kristinn Einar Steingrímsson.
Kristinn Einar Steingrímsson.

„Ég athugaði hvort innanríkisráðuneytið eða utanríkisráðuneytið á Íslandi hefði á einhvern tíma veitt þessum íslensku sjómönnum viðurkenningu með einhverjum hætti en svo var ekki,“ segir Emma en hún vill jafnframt þakka þjóðskjalaverði og Þjóðskjalasafni fyrir aðstoð við gagnaöflun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,86 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 191,99 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 122,07 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,06 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Tryllir GK 600 Grásleppunet
Grásleppa 1.264 kg
Þorskur 164 kg
Skarkoli 115 kg
Rauðmagi 20 kg
Samtals 1.563 kg
25.4.24 Loftur HU 717 Handfæri
Þorskur 408 kg
Karfi 74 kg
Ufsi 35 kg
Samtals 517 kg
25.4.24 Von HU 170 Grásleppunet
Grásleppa 1.092 kg
Skarkoli 590 kg
Þorskur 502 kg
Ýsa 97 kg
Steinbítur 6 kg
Sandkoli 3 kg
Samtals 2.290 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.4.24 425,86 kr/kg
Þorskur, slægður 25.4.24 527,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.4.24 191,99 kr/kg
Ýsa, slægð 25.4.24 150,72 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.4.24 122,07 kr/kg
Ufsi, slægður 25.4.24 172,26 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 25.4.24 162,06 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.4.24 Tryllir GK 600 Grásleppunet
Grásleppa 1.264 kg
Þorskur 164 kg
Skarkoli 115 kg
Rauðmagi 20 kg
Samtals 1.563 kg
25.4.24 Loftur HU 717 Handfæri
Þorskur 408 kg
Karfi 74 kg
Ufsi 35 kg
Samtals 517 kg
25.4.24 Von HU 170 Grásleppunet
Grásleppa 1.092 kg
Skarkoli 590 kg
Þorskur 502 kg
Ýsa 97 kg
Steinbítur 6 kg
Sandkoli 3 kg
Samtals 2.290 kg

Skoða allar landanir »