Gætu skapað nýja möguleika í fiskflutningum

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Hafnarstjóri Faxaflóahafna vill að betur sé hugað að tengingum Íslands við umheiminn í samgönguáætlun. Það kynni að vera skynsamlegt að byggja upp útflutningshöfn í hverjum landshluta og opna þannig m.a. nýjar flutningsleiðir fyrir íslenskt sjávarfang á markaði í Bandaríkjunum, Evrópu og jafnvel alla leið til Asíu.

Gísli Gíslason segir samgönguáætlun Íslands hafa einblínt á samgöngur innanlands, en minna verið hugað að tengingum landsins við umheiminn. Það hafi verið að stærstum hluta án opinberrar aðkomu að merkileg þróun hefur orðið í samgöngum til og frá landinu, og með vaxandi flutningum skipafélaganna og fjölgun áfangastaða hjá flugfélögunum hafi orðið til ný viðskiptatækifæri.

Þessi tækifæri hafa ekki síst nýst sjávarútveginum sem hefur verið duglegur að flytja fisk með flugi og skipum á markaði nær og fjær.

„Íslendingar hafa í rauninni eignast, án þess að einhver sérstök stefnumótun væri til staðar, öflugt alþjóðlegt flutningsnet í lofti og á sjó. Í öllum þessum tengipunktum sem við höfum núna við umheiminn felast gríðarleg verðmæti.“

Frá ráðstefnunni Flutningalandið Ísland, þar sem Gísli flutti erindi í ...
Frá ráðstefnunni Flutningalandið Ísland, þar sem Gísli flutti erindi í síðustu viku. mbl.is/Styrmir Kári

Samspil samgönguþátta

Gísli er hafnarstjóri Faxaflóahafna og var á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni Flutningalandið Ísland sem haldin var í Hörpu í síðustu viku. Hann segir góðar samgöngur innanlands og við umheiminn skipta sjávarútveginn verulega miklu máli enda þarf fiskurinn oft að ferðast á milli landshluta, og síðan komast hratt og vel til kaupenda úti í heimi.

„Það eru ekki nema rétt tæp tíu ár síðan sett voru lög um samgöngustefnu og var það mjög þarft skref. Það sem hefur þó vantað er að ganga enn lengra og reyna að skoða betur hvernig þrír meginþættir samgangna á Íslandi: samgöngur á landi, sjó og í lofti, geta spilað saman.

Það hafa margar aðrar þjóðir gert, með það fyrir augum að hafa áhrif á hvaða flutningamátar verða fyrir valinu hjá fyrirtækjum, og t.d. víða í Evrópu hefur mikil áhersla verið lögð á að færa flutninga í auknum mæli yfir í skip og lestar í staðinn fyrir að fjölga æ meira vöruflutningabílunum á vegunum.“

Víða um land er mikið álag á vegakerfinu og segir Gísli það vera sjónarmið hafnaryfirvalda að skynsamlegt væri ef hærra hlutfall vöruflutninga færi fram á sjó. Verður þó að telja ósennilegt að það geti hentað sjávarútveginum að senda fisk á milli hafna innanlands með flutningaskipum.

„Ýmis dagvara og ferskvara eins og fiskur þarf að komast hratt á áfangastað en það gæti verið skynsamlegt að meira af „þolinmóðum“ flutningi færi fram á sjó. Það gæti bæði borgað sig fjárhagslega og líka umhverfislega og öryggislega með því að draga úr umferð á vegunum.“

Ítarlegra viðtal við Gísla má finna í ViðskiptaMogganum sem fylgdi Morgunblaðinu 30. nóvember.

Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 6.12.17 706,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 11.12.17 242,78 kr/kg
Þorskur, slægður 11.12.17 258,42 kr/kg
Ýsa, óslægð 11.12.17 247,27 kr/kg
Ýsa, slægð 11.12.17 230,61 kr/kg
Ufsi, óslægður 11.12.17 67,82 kr/kg
Ufsi, slægður 11.12.17 93,07 kr/kg
Djúpkarfi 7.12.17 79,00 kr/kg
Gullkarfi 11.12.17 149,96 kr/kg
Litli karfi 6.12.17 11,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

13.12.17 Indriði Kristins BA-751 Lína
Þorskur 10.102 kg
Ýsa 371 kg
Steinbítur 5 kg
Keila 3 kg
Samtals 10.481 kg
13.12.17 Manni ÞH-088 Plógur
Kúfiskur / Kúskel 301 kg
Samtals 301 kg
13.12.17 Blíða SH-277 Plógur
Ígulker 1.356 kg
Samtals 1.356 kg
13.12.17 Særún EA-251 Lína
Ýsa 3.396 kg
Þorskur 861 kg
Samtals 4.257 kg
13.12.17 Hafborg EA-152 Dragnót
Þorskur 6.963 kg
Skarkoli 39 kg
Steinbítur 32 kg
Ýsa 25 kg
Þykkvalúra / Sólkoli 8 kg
Samtals 7.067 kg

Skoða allar landanir »