Framför eða skref aftur til fortíðar?

Strandveiðar í mynni Eyjafjarðar.
Strandveiðar í mynni Eyjafjarðar. mbl.is/Sigurður Ægisson

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssamband smábáteigenda eru ósammála um ágæti nýs frumvarps atvinnunefndar um breytingar strandveiða. Frumvarpið gæti hlotið samþykki Alþingis í dag.

Í nýju frumvarpi atvinnunefndar Alþingis, til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða, er gert ráð fyrir að veiðidagar til strandveiða árið 2018 verði 48, skipt jafnt á strandveiðimánuðina maí, júní, júlí, ágúst. Þá er skipting afla til strandveiða á fjögur svæði eftir landshlutum afnumin, en hún hefur verið frá því strandveiðarnar hófu göngu sína árið 2009.

Samþykkt var á Alþingi síðdegis í gær að ljúka 2. umræðu um frumvarpið og má búast við að þriðja umræða hefjist í dag, sem endað gæti með því að frumvarpið verði samþykkt.

Vanhugsaðar breytingar

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja alvarlega annmarka á þeirri ráðstöfun við stjórn fiskveiða sem frumvarpið feli í sér, einkum þar sem ákvörðun um að stöðva „skuli“ veiðar, eins og núverandi reglur geri ráð fyrir, sé breytt á þann veg að ráðherra „geti“ stöðvað veiðarnar. Breytingarnar séu vanhugsaðar og með þeim sé boðið upp á lausatök við stjórn fiskveiða, en af þeim hafi Íslendingar einmitt mikla og slæma reynslu.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir í samtali við 200 mílur að samtökin geri aðallega athugasemdir við tvö grundvallaratriði frumvarpsins.

„Annars vegar að valkvætt verði að stöðva veiðar, eftir að leyfilegum heildarafla hefur verið náð. Þarna er verið að bjóða upp á þessi lausatök, sem við nefnum, sérstaklega þar sem gera verður ráð fyrir að mikill þrýstingur verði á ráðherra að auka við aflaheimildir þegar líður á veiðarnar,“ segir Heiðrún.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. mbl.is/Árni Sæberg

Hættan mest í andvaraleysi

„Þrátt fyrir að atvinnunefnd Alþingis segi að þessi breyting sé valin með tilliti til þess að óveruleg hætta sé á að nýtingarstefna í þorskveiðum gangi ekki eftir, þá er það einmitt í svona hugsanagangi og andvaraleysi sem hættan er mest á að grafið sé undan nýtingarstefnunni og aflareglu. Allar ráðstafanir sem geta aukið líkur á afla umfram ráðgjöf; í þeim felst afturför.“

Yfirlýst markmið með heimild til strandveiða, þegar þær voru upphaflega settar á, hafi verið áhersla á nýtingu sjávarauðlindarinnar með sjálfbærni að leiðarljósi og á ábyrgan hátt. Þá hafi verið gert ráð fyrir að strandveiðar myndu einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað væri sérstaklega til veiðanna.

„Við erum alltaf með þetta grundvallarsjónarmið um sjálfbæra nýtingu, ekki bara út frá því að við höfum þróað hér gott fiskveiðistjórnunarkerfi, heldur líka út frá kröfum erlendra kaupenda og vottunaraðila. Um leið og við byrjum að hugsa á þann veg sem frumvarpið lýsir, þá erum við að stíga skref aftur á bak,“ segir Heiðrún.

Horfið frá grundvallarhugsun

„Hins vegar gerum við athugasemd við þá ákvörðun að afnema svæðaskiptingu strandveiða með þessu frumvarpi. Skiptingin hefur verið trygging fyrir því að hver landshluti fái að minnsta kosti lágmarksafla. Þetta er því grundvallarbreyting, einkum ef við lítum til þess að frumvarp til breytinga á strandveiðum, sem sett var fram árið 2016, var samþykkt með það að markmiði að jafna veiðidagana og auka jöfnuð á meðalveiði báta. En þegar svæðaskiptingin er afnumin þá er um leið verið að hverfa frá þessari grundvallarhugsun sem ríkt hefur í strandveiðum til þessa.“

Þá gefur hún lítið fyrir þau rök að strandveiðar svari spurn eftir fiski, til dæmis á sumrin, þegar framboð minnki hjá stærri útgerðum.

„Ef maður skoðar afla á fiskmörkuðum yfir allt síðasta ár, þá er enginn sérstakur samdráttur yfir sumarið. Þannig að strandveiðarnar halda ekki uppi því að hér sé vinnsla allt árið um kring. Magnið er einfaldlega ekki af því tagi.“

Heiðrún segir að breytingar af þessu tagi séu hluti af flóknu samhengi í öllu fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Við teljum erfitt að sjá fyrir mögulegar afleiðingar þessa frumvarps. Allar svona breytingar þarf því að skoða gaumgæfilega og vinna í sátt við alla hagsmunaaðila, sem eru auðvitað ekki bara smábátasjómenn heldur sjávarútvegur í heild sinni, sveitarfélög um land allt sem og þjónustuaðilar.“

Frumvarpið jákvætt

Landssamband smábátaeigenda segir frumvarpið jákvætt fyrir strandveiðar, og vísar einkum til þess að sjómenn geti í framhaldinu valið hvaða daga mánaðarins þeir haldi til veiða.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir það eðlilegt að SFS geri athugasemdir við að valkvætt verði fyrir ráðherra hvort veiðarnar skuli stöðvaðar.

„En það verður að vera þannig og við höfum sótt það mjög stíft. Við erum enda ekki ánægðir með það að það sé ekki algjörlega tryggt í frumvarpinu að veiðarnar verði ekki stöðvaðar. Það er það sem að var stefnt með þessari tilraun, að það væri enginn þrýstingur á menn varðandi það að veiðarnar gætu verið stöðvaðar á tilteknum tíma. Með þessari breytingu hefur ráðherra tóm til að velta þessu fyrir sér, sem ég tel að sé algjörlega nauðsynlegt.“

Örn Pálsson, formaður Landssambands smábátaeigenda.
Örn Pálsson, formaður Landssambands smábátaeigenda. mbl.is/Eggert

Niðurnjörvað í aflaregluna

Frumvarpið beri engan vott um þau lausatök sem SFS nefnir. „Kerfið er búið að vera niðurnjörvað í þessa aflareglu og Landssambandið hefur barist fyrir því að fá sveigjanleika í aflaregluna. Það hefur ekki fengist, sem orðið hefur til þess að við höfum verið með veiðar undir því marki sem aflareglan hefur kveðið á um á undanförnum árum. Enginn hefur kvartað undan lausatökum í því sambandi.“

Örn segir að vilyrði hafi fengist fyrir aflaaukningu og því búist hann ekki við að afli strandveiðanna nái því marki sem gert sé ráð fyrir. Bendir hann á að með frumvarpinu sé reynt að færa veiðarnar til betri vegar. Komið verði í veg fyrir það óæskilega kapp sem myndist óhjákvæmilega, þegar fyrirsjáanlegt þykir að veiðarnar verði stöðvaðar þegar mánuður er nýhafinn.

Öryggisatriði fyrir sjómenn

„Það eru vissulega enn til staðar miklar takmarkanir í strandveiðunum. Það er hámark á afla hvers dags og þú mátt ekki vera lengur en fjórtán tíma í róðrinum, aðeins er heimilt að róa fjóra daga í viku og við þetta bætist veður og fiskgengd, svo ég nefni dæmi. En taki frumvarpið gildi geta menn að minnsta kosti valið þá daga sem haldið er til veiða,“ segir hann og bætir við að um mikið öryggisatriði sé að ræða. Enginn hvati sé þá til staðar fyrir sjómenn til að fara út á sjó í slæmu og hættulegu veðri.

Spurður um þá gagnrýni sem SFS hefur sett fram, að hætta sé á að orðspor íslensks sjávarútvegs kunni að bíða hnekki verði frumvarpið samþykkt, segir Örn að strandveiðar hafi aðeins orðið til að bæta það orðspor undanfarin ár.

Litið upp til Íslendinga

„Kerfið var miklum mun meira gagnrýnt, áður en strandveiðunum var komið á,“ segir Örn. „Sérstaklega sú staðreynd að menn gætu ekki keypt sér bát og farið að róa, öðruvísi en með því að kaupa sér kvóta frá þeim sem höfðu hlutdeildina; stóru útgerðunum. En með strandveiðunum hljóðnaði þessi umræða, sem orðin var mjög hávær í þjóðfélaginu,“ bætir hann við og vísar í því sambandi til Frjálslynda flokksins sáluga, sem hafði strandveiðar á stefnuskrá sinni.

„Ég held að það sé nú frekar litið upp til okkar Íslendinga, að við séum með svona kerfi til hliðar við aflamarkskerfið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 27.3.24 401,29 kr/kg
Þorskur, slægður 27.3.24 443,15 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.3.24 182,08 kr/kg
Ýsa, slægð 27.3.24 136,03 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.3.24 107,02 kr/kg
Ufsi, slægður 27.3.24 189,28 kr/kg
Gullkarfi 27.3.24 143,21 kr/kg
Litli karfi 27.3.24 8,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg
Blálanga, slægð 27.3.24 120,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 2.961 kg
Þorskur 217 kg
Samtals 3.178 kg
28.3.24 Helga Sæm ÞH 70 Grásleppunet
Grásleppa 4.013 kg
Samtals 4.013 kg
28.3.24 Hafdís Helga EA 51 Grásleppunet
Grásleppa 898 kg
Þorskur 92 kg
Skarkoli 13 kg
Samtals 1.003 kg
28.3.24 Fengur EA 207 Grásleppunet
Grásleppa 1.217 kg
Þorskur 104 kg
Skarkoli 14 kg
Rauðmagi 4 kg
Samtals 1.339 kg

Skoða allar landanir »