Taldi skipstjórann hafa kveikt í bátnum

Smábátar að veiðum. Mynd úr safni.
Smábátar að veiðum. Mynd úr safni. mbl.is/Alfons

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tryggingafélagið Vörð til að greiða bætur til eiganda fiskibáts, en mannbjörg varð þegar báturinn brann og sökk norðvestur af Garðskaga í júlí árið 2013. Tryggingafélagið hafði hafnað bótaábyrgð og byggði mál sitt á því að eigandi bátsins og skipstjóri hefði vísvitandi lagt eld að bátnum.

Áður en málið var höfðað hafði tryggingafélagið borið ágreining aðilanna undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Með úrskurði sínum í janúar árið 2016 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að tryggingafélaginu bæri að bæta eigandanum tjón hans úr vátryggingunni. Í úrskurðinum sagði að sönnunarbyrði hvíldi á tryggingafélaginu fyrir því að það gæti undanskilið sig ábyrgð. Rannsóknarskýrsla lögreglu hefði verið á þann veg að ekki væri með óyggjandi hætti hægt að fullyrða að eigandinn hefði lagt eld að bátnum.

Eiganda bátsins, þ.e. stefnanda í málinu, og tryggingafélagið greindi ekki á um að báturinn, frambyggður trefjaplastbátur smíðaður árið 1979, hefði brunnið og sokkið 9. júlí 2013 er hann var við veiðar á miðunum norðvestur af Garðskaga.

„Helst til heitur“ til vinnu í júlí

Tryggingafélagið bar það hins vegar fyrir sig að á örfáum mínútum, eftir að eigandinn hefði tilkynnt um eldinn, hefði báturinn logað stafna á milli samkvæmt vitnisburði skipverja á tveimur öðrum bátum. Einnig var bent á að vakið hefði athygli lögreglu að eigandinn, sem var einn um borð í bátnum, hafi verið klæddur í flotgalla við vinnu sína um borð. „Slíkur klæðnaður muni vera helst til heitur til að vera í við vinnu í júlí,“ segir í reifun dómsins á málsástæðum tryggingafélagsins.

Enn fremur benti félagið á að eigandinn hefði virst hafa haft sáralítil not fyrir bátinn. Einungis hefði verið farið í fjórar veiðiferðir frá því að hann hafi verið keyptur til félagsins 10. nóvember 2011, tvær með viku millibili sumarið 2012 og tvær með viku millibili í maí 2013. Tekjur félagsins frá stofnun þar til báturinn hafi brunnið hefðu þá samtals numið 168.313 krónum.

Miðað við byggingu bátsins hafi þá verið vandséð hvernig eldur geti læst sig af slíkum hraða í skut bátsins að þar standi allt í ljósum logum þegar að sé komið örskömmu síðar, einkum þegar horft sé til þess að afturþilfar bátsins hafi verið klætt með áli. Báturinn hafi verið smíðaður úr trefjaglerefni, sem sé ekki eldfimt.

Sönnunarbyrðin hvíli á tryggingafélaginu

Lögmaður eigandans sagði málflutning tryggingafélagsins einkennast af „getgátum og útúrsnúningum, sem ekki hafi neitt sönnunargildi og uppfylli engan veginn þær sönnunarkröfur sem gerðar séu til stefnda samkvæmt meginreglum vátrygginga- og skaðabótaréttar“.

Allt hafi bent til að eldurinn hafi kviknað vegna bilunar í rafmagni eða öðrum búnaði skipsins. Í framburði Sandgerðishafnar og í rannsóknarskýrslu Aðstoðar & öryggis komi fram að nokkuð hafi verið um bilanir í bátnum um vorið. Framburður eigandans um eldsupptök og þróun eldsins sé studdur af framburði annars skipstjóra, sem bjargaði eigandanum um borð í sinn bát.

Eldurinn hafi þannig fyrst verið í brúnni en síðan blossað upp að aftan. Aftarlega í bátnum hafi verið geymsluhólf þar sem geymdur hafi verið rafgeymir, olía og glussi. Útskýri það bruna í afturhluta bátsins.

Bent var á að tryggingafélagið bæri sönnunarbyrðina fyrir því að brunanum hefði verið valdið af ásetningi, og að meta bæri allan vafa eiganda bátsins í hag, ekki síst þar sem tryggingafélagið hefði samið skilmála vátryggingarsamningsins.

Engin frekari rannsókn

Dómkvaddir voru sem matsmenn verkfræðingur og skipatæknifræðingur, til að fá úr því skorið hvort mögulegt væri að báturinn hefði brunnið án þess að eldur hefði verið lagður að honum.

Komust þeir að því að ekki væri hægt að útiloka að gasleki og/eða gaslogi hafi átt þátt í atburðarásinni, þótt það kæmi ekki að öllu leyti heim og saman við þá atburðarás sem lýst væri í gögnum málsins. Sýnt hafi þá verið fram á að fullþróaður eldur í brúnni gæti kveikt í fiskikari aftan til á bátnum með hitageislun og að það gæti gerst á þeim tíma sem atburðarásin lýsi, án þess að eldhvetjandi efni séu notuð.

Fyrir dómnum lá einnig bréf lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettt 11. febrúar 2018, þar sem staðfest var að ekki yrði um að ræða frekari rannsókn á meintum fjársvikum eigandans vegna bruna bátsins, þar sem ákæruvaldið teldi málið hvorki nægjanlegt né líklegt til sakfellis.

Í dómnum segir að ekkert þeirra atriða, sem tryggingafélagið bar fyrir sig, jafnvel þótt þau séu virt heildstætt, nægi til að sönnunarbyrði um upptök eldsvoðans verði snúið við þannig að eigandanum verði gert að sanna að hann hafi ekki lagt eld að bátnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 499,72 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 368,33 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 198,06 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 173,26 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.4.24 Jón Hildiberg RE 60 Grásleppunet
Grásleppa 835 kg
Þorskur 33 kg
Steinbítur 6 kg
Rauðmagi 5 kg
Sandkoli 2 kg
Samtals 881 kg
18.4.24 Vala HF 5 Rauðmaganet
Grásleppa 86 kg
Rauðmagi 60 kg
Þorskur 11 kg
Steinbítur 11 kg
Samtals 168 kg
18.4.24 Sigrún GK 97 Grásleppunet
Grásleppa 1.008 kg
Samtals 1.008 kg
18.4.24 Gunnþór ÞH 75 Grásleppunet
Grásleppa 1.907 kg
Þorskur 129 kg
Skarkoli 19 kg
Samtals 2.055 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 499,72 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 368,33 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 198,06 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 173,26 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.4.24 Jón Hildiberg RE 60 Grásleppunet
Grásleppa 835 kg
Þorskur 33 kg
Steinbítur 6 kg
Rauðmagi 5 kg
Sandkoli 2 kg
Samtals 881 kg
18.4.24 Vala HF 5 Rauðmaganet
Grásleppa 86 kg
Rauðmagi 60 kg
Þorskur 11 kg
Steinbítur 11 kg
Samtals 168 kg
18.4.24 Sigrún GK 97 Grásleppunet
Grásleppa 1.008 kg
Samtals 1.008 kg
18.4.24 Gunnþór ÞH 75 Grásleppunet
Grásleppa 1.907 kg
Þorskur 129 kg
Skarkoli 19 kg
Samtals 2.055 kg

Skoða allar landanir »