Einu sinni smakkað - þú getur ekki hætt

Ford Fiesta er fjör á fjórum hjólum. Hann er snöggur …
Ford Fiesta er fjör á fjórum hjólum. Hann er snöggur upp og til hliðar og steinliggur gegnum beygjurnar. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Það er gaman að sjá hversu margir „hot hatch“ bílar eru fluttir til landsins núna. Slíkir bílar eru öflugar útgáfur minni bíla með breyttri fjöðrun og öflugum vélum og oft mjög skemmtilegir akstursbílar. Þeim svipar oft til bíla sem keppa í heimsmeistarakeppninni í ralli og öðrum álíka greinum.

Einn af þessum bílum er Ford Fiesta ST sem nýlega kom til landsins og við fegnum að prófa fyrst af öllum. Bíllinn hefur vakið mikla athygli í Evrópu enda státar hann af titlinum „Bíll ársins 2013“ hjá Top Gear. Bíllinn hefur fengið frábæra dóma víða og eitt er víst að engum bílaáhugamanni ætti að leiðast að aka þessum snaggaralega bíl, allavega var undirritaður fljótur að komast á bragðið og vildi helst ekki skila honum þegar að kveðjustundinni kom.

Merktur í bak og fyrir

Ford Fiesta ST í keppnisrauðum lit er falleg sjón, það dylst engum. Það sem aðgreinir hann frá venjulegri Fiestu eru stærri loftinntök, verklegri vindskeiðar, stór vindskeið fyrir ofan afturglugga og 17 tommu felgur. Að auki er Fiesta ST með diskabremsum að aftan. Innandyra er útlitið ekki síður sportlegt með álpedulum, leðurklæddu ST-merktu stýri sem og ST-merktum mottum og sportsæti. Bíllinn er aðeins fáanlegur tveggja dyra í Evrópu þótt fjögurra dyra sé væntanlegur í Bandaríkjunum. Fyrir vikið er þröngt að komast aftur í bílinn og öryggisbelti og festingar fyrir þau vilja flækjast fyrir. Sætin eru bara nokkuð þægileg fyrir Recaro-sportsæti en þau eru auðvitað í harðari kantinum. Annars er mælaborðið nánast eins og í öðrum Fiestum. Mestu af stjórnbúnaði er fyrirkomið í miðjustokki og allur samskipta- og afþreyingarbúnaður er rétt fyrir neðan upplýsingaskjáinn. Frekar leiðinlegt er að nota takkaborðið og þá sérstaklega símbúnaðinn og kjánalegt að hringja í símanúmer með sömu tökkum og notaðir eru fyrir stöðvaval.

Skemmtilegur akstursbíll

Vélin í Fiesta ST er 1,6 lítra bensínvél með forþjöppu og skilar 182 hestöflum gegnum sex gíra kassa til framhjólanna. Sándið í vélinni minnir mann helst á alvöru rallbíl þótt það sé aðeins dempaðra. Hlutföllin í stýrinu eru lækkuð úr 14,6:1 í 13,6:1 og hann er snöggur að hreyfa sig þegar komið er við stýrið. Þótt það votti fyrir togstýringu er það ekki eins og búast mætti við enda státar bíllinn af nýjasta átaksdeilibúnaði Ford sem sendir aflið til þess framdekks sem mest hefur gripið. Fjöðrunin er lækkuð um 15 mm frá hefðbundinni Fiestu og er þar að auki mun stífari og það finnst vel í akstri. Þetta er ekki bíll til að skutla ömmu í búðina, svo mikið er víst en maður fyrirgefur honum hvað hann er hastur því að hann er bara svo skemmtilegur í akstri. Að vísu mætti gripið vera betra þegar tekið er á honum en hann er fljótur í spól og losar jafnvel afturhjólin í kröppustu beygjunum. Þar sem bensíngjöfin er mjög viðbragðsfljót er maður enga stund að leiðrétta hann með mátulegri gjöf svo þessir óknyttir gera hann bara skemmtilegri fyrir vikið.

Sérlega gott verð

Samkeppnisaðilar Ford Fiesta ST eru nokkrir en án efa er Renault Clio RS þeirra helstur. Annar mögulegur samkeppnisaðili er Peugeot 208 GTi en hann hefur enn ekki verið fluttur til landsins. Það hefur Clio RS hins vegar verið og kostar hann í BL 4.990.000 kr. Ford Fiesta ST er hins vegar á aðeins 4.090.000 sem er sérlega gott verð fyrir jafn mikinn og skemmtilegan bíl og hann er. Það er líka óvenjulegt að sjá tvo bíla í þessum flokki undir fimm milljónum sem verður að teljast gott á þessum tímum.

njall@mbl.is

Mælaborðið er sportlegt með leðurklæddu ST-merktu stýrishjólinu og blöndu af …
Mælaborðið er sportlegt með leðurklæddu ST-merktu stýrishjólinu og blöndu af svörtu glossi og áláferð. Sportlegt og í takt við annað. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Gripið í framdekkjunum mætti stundum vera betra en þar sem …
Gripið í framdekkjunum mætti stundum vera betra en þar sem bensíngjöfin gefur góða tilfinningu er auðvelt að hafa stjórn á því. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Vélin gefur gott tog strax á lágum snúningi og hljómar …
Vélin gefur gott tog strax á lágum snúningi og hljómar eins og sportari á að gera, með smálátum þegar hún er komin á snúning. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Honum veitir ekkert af meira lofti til kælingar því að …
Honum veitir ekkert af meira lofti til kælingar því að þessari vél leiðist ekkert að snúast og er fljót að því.
Öflugar diskabremsur skila sínu svo ekki er um að villast …
Öflugar diskabremsur skila sínu svo ekki er um að villast og Fiesta ST er fyrsta Fiestan til að hafa diskabremsur að aftan. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Gripið í framdekkjunum mætti stundum vera betra.
Gripið í framdekkjunum mætti stundum vera betra. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Stór vindskeið er fyrir ofan afturglugga Ford Fiesta ST.
Stór vindskeið er fyrir ofan afturglugga Ford Fiesta ST. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Sportleg sæti í sportlegum Ford Fiesta ST.
Sportleg sæti í sportlegum Ford Fiesta ST. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Ford Fiesta ST í keppnisrauðum lit er falleg sjón.
Ford Fiesta ST í keppnisrauðum lit er falleg sjón. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: