Afmælisútlit í tilefni af 40 ára framleiðslu á VW Golf

Það er margt í R-Line útlitspakkanum sem gerir Golf að …
Það er margt í R-Line útlitspakkanum sem gerir Golf að sportlegum kagga. mbl.is/Malín Brand

Árið 2014 er afmælisár hjá Volkswagen því fyrir fjörutíu árum vék VW-Bjallan fyrir því nýjasta: VW Golf sem var kynntur sem smár, framhjóladrifinn fjölskyldubíll með vatnskældri vél.

Þó svo að Bjallan hafi verið afskaplega vinsæl þá tókst að færa vinsældirnar yfir á Golf sem seldist í 29 milljónum eintaka frá 1974 til 2012. Hann hefur ekki einungis notið vinsælda hjá hinum almenna kaupanda heldur hafa bílablaðamenn dásamað Golf í gegnum tíðina. Árið 2009 var hann valinn heimsbíll ársins, þ.e. World Car of the Year, og í tvígang hefur hann verið valinn bíll ársins í Evrópu. Það var árin 1992 og 2013. Ein tegund til viðbótar hefur orðið svo fræg að hampa titlinum í tvígang og það er Renault Clio.

Sjö kynslóðir á 40 árum

Fyrsta kynslóðin af Golf var framleidd í níu ár eða frá 1974 til 1983. GTI-útgáfan var kynnt árið 1976 og þykir mikill fengur í því að eiga slíkt eintak í dag. Auk þess sem hefðbundna útgáfan þykir einkar fögur með sínum kostum og göllum. Sjálf ók ég einum slíkum töluvert þegar ég var 17 ára gömul og ef til vill má segja að það hafi verið eldskírnin, enda fátt snjallara en að láta unga ökumenn spreyta sig á gömlum bílum áður en þeir nýju fara að auðvelda þeim lífið og stundum hugsa fyrir þá.

Önnur kynslóð af Golf var framleidd í níu ár eins og sú fyrsta, eða frá 1983 til 1992. Þar var fjórhjóladrifna útgáfan kynnt til leiks árið 1985 og á meginlandinu var Golf fáanlegur með ABS-kerfi sem þá var óalgengt í bílum.

Þriðja kynslóð var framleidd á árunum 1993 til 2001 og með þeirri kynslóð kom ótrúlega margt sniðugt. Má þar nefna TDI-vélina sem og 2,8 l VR6-vél sem náði hundraðinu á 7,1 sekúndu.

Fjórða kynslóð kom árið 1997 og var framleidd til 2004. VR6 kom þá með 3,2 l vél og R32 var kynntur til leiks. Ógjörningur er að kafa dýpra í nýjungar hverrar kynslóðar hér, þó það sé freistandi.

Fimmta kynslóð var framleidd frá 2004 til 2008 og ekki hægt að minnast á hana án þess að nefna Golf GTI W12 sem er í rauninni ofurbíll á sinn hátt með 6,0 lítra vél sem skaut honum frá 0 upp í 100 kílómetra hraða á 3,7 sekúndum. Það var nú eitthvað!

Sjötta kynslóð var framleidd frá 2008 til 2013 og síðast en ekki síst kom sjöunda kynslóðin á markað á síðasta ári. Sú kynslóð mun hafa margt fram að færa til að draga úr mengun. Rafmagnsútgáfan e-Golf er væntanleg innan fáeinna mánaða og sömuleiðis GTE sem er plug-in hybrid.

Afmælisútgáfan

Sá bíll sem hér er til umfjöllunar er úr svokallaðri R-línu eða R-Line og er breyttur bæði hvað útlit varðar og búnað. Bíllinn er með hefðbundinni 1,4 TSI-vél sem vinnur ljómandi vel og skiptingin er sjö þrepa DSG-sjálfskipting. Sportfjöðrunin er skemmtilegur hluti af R-línunni.

R-Line var kynnt um leið og sjöunda kynslóðin og gefur hún bílnum mjög sportlegt yfirbragð.

Í tilefni 40 ára afmælis Golf býður umboðið, Hekla, bæði Golf og Tiguan í R-Line-útgáfu á tilboðsverði. Almennt verð fyrir Golf Comfortline 1,4 TSI sjálfskiptan er 3.850.000 kr. R-Line-pakkinn kostar alla jafna tæpa milljón en býðst nú kaupendum á 270.000 kr. og kostar bíllinn þá 4.120.000 kr.

Það sem felst í þessum pakka er, sem fyrr segir, eingöngu útlitsleg og þægindatengd viðbót, að undanskilinni sportfjöðruninni sem kunnugir ættu að greina glöggt og bíllinn er þar af leiðandi 15 mm lægri

Góður kostur?

Ef bíllinn er sá sami og „kemur manni frá A til B“ eins og ég heyri suma segja, er það þá þess virði að bæta þessum krónum við til að fá bílinn í R-Line-útfærslu?

Því fylgir mikil ábyrgð að fullyrða hvort það er þess virði eða ekki. Það fer alveg eftir gildismati fólks. Þeir sem kaupa bíl til að komast frá A til B gætu sleppt þessu og gert eitthvað annað við þessar 270.000 kr. Þeir sem gera kröfur um töff útlit og góðan aukabúnað í nýjum bíl myndu án efa segja að þessum aukapeningi væri vel varið. R-line-útgáfan gerir mikið fyrir útlit bílsins og í raun gjörbreytir honum. Áklæðin á sportsætunum eru skemmtileg og minna á þau sem eru og hafa alla tíð verið í GTI-útgáfunni. Skyggðar rúðurnar gera hann stællegan og sömuleiðis álfelgurnar. Panoramic-sóllúgan setur svip sinn á bílinn, eins og Xenon-ljósin með LED-dagljósum.

Sitt sýnist hverjum og mannfólkið er eins misjafnt og það er margt og er ágætt að ljúka umfjölluninni á heildarniðurstöðunni: R-Line er skemmtileg viðbót við fjölbreytileikann í Golf-fjölskyldunni og tilboðið gott miðað við almennt verð á hverjum aukabúnaði fyrir sig.

malin@mbl.is

leiðrétting:

Þau mistök urðu í tæknilýsingu á teikningu sem fylgir frásögninni í Bílablaði Morgunblaðsins í dag, að þar segir að bíllinn losi  123 g/km af koltvíildi í akstri. Hið rétta er að losunin nemur 116gr/km.

Rýmið aftur í bílnum er nokkuð gott. Miðjusætið er líka …
Rýmið aftur í bílnum er nokkuð gott. Miðjusætið er líka skíðalúga. mbl.is/Malín Brand
Sjöunda kynslóð VW Golf með sportútliti.
Sjöunda kynslóð VW Golf með sportútliti. mbl.is/Malín Brand
Kraftalegt púst og sportfjöðrun gerir hann 15 mm lægri en …
Kraftalegt púst og sportfjöðrun gerir hann 15 mm lægri en þann hefðbundna. mbl.is/Malín Brand
Bíllinn kemur á 17
Bíllinn kemur á 17" álfelgum. mbl.is/Malín Brand
Farangursrýmið er 380 lítra.
Farangursrýmið er 380 lítra. mbl.is/Malín Brand
Fyrsta kynslóðin af Golf kom árið 1974 eða fyrir fjörutíu …
Fyrsta kynslóðin af Golf kom árið 1974 eða fyrir fjörutíu árum. Hann þótti nýstárlegur og leysti Bjölluna af hólmi.
Aðgerðastýrið í bílnum er vandað.
Aðgerðastýrið í bílnum er vandað. mbl.is/Malín Brand
Golf fjölskyldan hefur vaxið og dafnað á 40 árum. Kynslóðirnar …
Golf fjölskyldan hefur vaxið og dafnað á 40 árum. Kynslóðirnar eru nú orðnar sjö talsins.
Sætisáklæðin minna á þau áklæði sem einkennt hafa GTI-útgáfuna.
Sætisáklæðin minna á þau áklæði sem einkennt hafa GTI-útgáfuna. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: