Fantafínn fyrir stærri fjölskyldur

V-Class má nota á margvíslegan hátt. Sé hann notaður sem …
V-Class má nota á margvíslegan hátt. Sé hann notaður sem fjölskyldubíll má velja um 6, 7 eða 8 sæta útfærslu. Í þessum A250 AVANTGARDE voru 6 sæti og rýmið prýðilegt fyrir alla farþega og farangur að auki. V250 er sparneytinn og kom skemmtilega á óvart í akstri. mbl.is/Malín Brand

Mercedes-Benz V-Class er fjölnotabíll í afar víðri merkingu. Hann má nota sem leigubíl, lúxus-skutlu, fjölskyldubíl fyrir allt að átta manns og eflaust í fjölmörg önnur hlutverk.

Útfærslan sem prófuð var í þetta skiptið er sex manna, ákaflega rúmgóð og búin aukabúnaði sem hækka þægindakvarðann. Til dæmis voru leðursæti og borð í farþegarýminu, sjálfvirkar rennihurðir á báðum hliðum, Burmester hljóðkerfi, leiðsögukerfi með prýðilegu Íslandskorti og olíumiðstöð, svo eitthvað sé nefnt. Búinn þessum þægindum varð bíllinn eins og huggulegasta skrifstofa á hjólum. Jafnvel dálítið eins og farþegarými í einkaþotu!

Möguleikarnir óþrjótandi

Þrjár gerðir véla standa kaupendum til boða og eru þær allar fjögurra strokka dísilvélar. Til að fara ekki of djúpt í tæknilegar hliðar vélanna er best að horfa bara á hestaflatöluna og benda tæknilega sinnuðum á vefsíðuna www.benz.is þar sem lesa má eitt og annað um samrásarinnsprautun, þvermál strokka og fleira spennandi. Vélarnar eru 136 hö, 163 hö og 190 hö. Sú síðastnefnda er í V 250 BlueTEC og V 250 AVANTGARDE sem var prófaður og er togið í henni hreint út sagt dásamlegt. 440 Nm hámarkstog segir sitt.

Auk þess að geta valið á milli þriggja véla í V-Class er hægt að velja um 6, 7 og 8 sæta útfærslu og hvort rennihurð er á báðum hliðum og svo framvegis. Hvert sæti í 6 sæta útfærslunni er eins og hægindastóll með sætisörmum og sætunum aftur í bílnum má snúa á alla vegu, leggja niður eða færa eins og maður vill. Allt eftir því í hvað á að nota bílinn.

Aðgengi sem hentar mörgum

Í fyrirsögninni hér að ofan skrifa ég að þetta sé prýðilegur bíll fyrir stærri fjölskyldur vegna þess að sjálf er ég betur inni í því en til dæmis leigubílabransanum. Það má vel ímynda sér að bíllinn geti hentað fjölskyldum af ýmsum stærðum og gerðum. Hann getur hentað þeim vel sem þurfa að ferðast með hjólastól því til dæmis er hægt að fjarlægja eitt sætanna og koma hjólastól þar fyrir og aðgengið er einstaklega gott, bæði fyrir bílstjóra sem stígur nokkuð beint inn í bílinn af götunni og líka fyrir þá sem fara aftur í. Þó að bíllinn sé stór er hann alls ekki það hár að stíga þurfi „upp“ í hann heldur er farið beint inn í hann.

Það má líka ganga út frá því að stærri fjölskyldur sem fara þurfa á milli staða með barnavagna í bílnum geti séð það sem kost að geta einfaldlega rúllað vagninum inn án þess að leggja sig í þolraunir í miður heppilegum stellingum.

Rýmið er bjart og gott, enda gluggarnir stórir og loftið ljóst. Þegar skyggja tekur má velja um mismunandi umhverfislýsingu sem er í innréttingum og á þrepinu þar sem stigið er inn í bílinn. Býsna góð miðstöð er í bílnum, líka aftur í, þannig að öllum ætti að geta liðið vel hvar sem þeir sitja í bílnum.

Ótakmörkuð þægindi

Ef V-Class væri notaður í akstur með viðskiptavini, gesti fyrirtækja eða jafnvel í einhvers konar VIP-skutl er hægt að velja um þægindi sem aukabúnað. Sumir vilja náttúrulega hafa ýmis þægindi í fjölskyldubíl og það er líka hægt en ég tek þetta bara sem dæmi. Til dæmis mætti bæta við Garmin® MAP PILOT leiðsögukerfi, 640 W Burmester® hljóð- og hátalarakerfi með bassaboxi og 15 hátölurum, CENTRAL MEDIA DISPLAY sem er 17,8 sm skjár með 800 x 480 pixla upplausn, sjónvarpsmóttakara og DVD spilara. Þetta er brot af því sem hlaða má í bílinn sé maður á þeim buxunum.

Akstur og hljóðeinangrun

Sem fyrr segir var blaðamaður afskaplega ánægður með hversu vel þessi stóri bíll togar. Hann er með 190 hestafla vél sem vinnur fantavel og er þýð og hljóðlát. Eyðslan er sögð vera í kringum 6,0 lítrar/100 km í blönduðum akstri. Í prófuninni var hún í kringum 8,0 lítrar í blönduðum akstri og er það vel miðað við stærð bílsins.

Það er gaman að aka þessum bíl af því að bæði er hann lipur og svo er gaman að því hversu auðvelt er að leggja honum í ótrúlega lítil bílastæði. Kannski er ég bara svona flink en það getur líka verið að speglarnir sem eru stórir hafi sitt að segja auk þess sem bíllinn var búinn myndavélum sem sýna hann í 360° þannig að það er eiginlega ekki hægt að klúðra þessu.

Eitthvað hefur framleiðandinn gert sniðugt til að hljóðeinangra bílinn eins og æfingahúsnæði. Veg- og vélarhljóð er furðulega lágt sem er ólíkt því sem maður er vanur úr bílum af þessari stærð með mikla lofthæð.

Samanburður og verð

Nú kunna lesendur að spyrja hvort þetta sé endalaus lofræða um V-250 og hvort ganga megi út frá því að hann sé nánast fullkominn. Nei, það er hann ekki frekar en aðrir bílar en flottur er hann og ótalmargt við hann sem er bæði heillandi og ánægjulegt í senn. Þó að íslenskir vegfarendur hafi sjaldan tækifæri til að renna niður rúðu og gægjast út um glugga þá er að margra mati nauðsynlegt að geta opnað glugga. Það er ekki hægt aftur í, enda rúðurnar þannig gerðar og í laginu að sá möguleiki er einfaldlega ekki fyrir hendi. Loftræstingin er líka með eindæmum góð og blæs vel og vandlega á þá sem kæra sig um.

Það sem er ekki nógu ánægjulegt við V-Class er verðið. Hann er nefnilega dýr af því að hann er mjög flottur. Samt eru lægri tollar á honum en ella af því að mengunargildið er lágt.

Ódýrastur er 136 hestafla bíllinn, V 200, en hann kostar frá 7.190.000 kr. V 250 BlueTEC kostar tæpri milljón meira, eða 8.180.000 kr. Fínasta útgáfan, V 250 AVANTGARDE eins og er á meðfylgjanadi myndum kostar 9.360.000 kr og með öllum þeim aukabúnaði sem var í reynsluakstursbílnum er verðmiðinn orðinn stór og digur, eða 13.390.000 kr.

Nú vil ég ekki bera V 250 saman við sendibíla af því að fæstir myndu nota hann í slíkt. En ef aðrir stórir fjölskyldubílar eru teknir til skoðunar er V 250 ofarlega í verði. Ódýrasti 7-manna bíllinn sem seldur er hér á landi er Chevrolet Orlando. Hann kostar frá 3.890.000 kr. en hann er ekki nándar nærri eins rúmgóður og V 250. Þeir bílar sem komast í námunda við þennan hvað rými varðar eru allir jeppar sem hægt er að fá í 7-manna útfærslum en það eru Land Cruiser 200,

Land Rover Discovery, Audi Q7 og Mercedes-Benz GL-Class. Þeir kosta allir vel yfir þrettán milljónir króna og allt upp í tuttugu en erfitt er að bera V 250 saman við þá og í raun ósanngjarnt. Sérstaða V Class hlýtur að vera töluverð fyrst erfitt er að finna bíla til samanburðar.

malin@mbl.is

Bíllinn er rennilegur og gefa LED-ljósin V-Class skarpt yfirbragð.
Bíllinn er rennilegur og gefa LED-ljósin V-Class skarpt yfirbragð. mbl.is/Malín Brand
AVANTGARDE bíllinn er á 17
AVANTGARDE bíllinn er á 17" álfelgum í stað 16" stálfelga. mbl.is/Malín Brand
Stjórnstöðin er áberandi og það er hér sem hlutirnir gerast …
Stjórnstöðin er áberandi og það er hér sem hlutirnir gerast í þessum bíl. mbl.is/Malín Brand
360° myndavél er aukabúnaður sem komið getur að góðum notum.
360° myndavél er aukabúnaður sem komið getur að góðum notum. mbl.is/Malín Brand
Tvískiptur afturhleri er valkostur í V-Class en staðalbúnaður í V250 …
Tvískiptur afturhleri er valkostur í V-Class en staðalbúnaður í V250 AVANTGARDE útgáfunni og eru hirslur í skilrúminu á milli hlera. mbl.is/Malín Brand
Samanbrjótanlegar körfur eru vel skorðaðar í skilrúminu og má setja …
Samanbrjótanlegar körfur eru vel skorðaðar í skilrúminu og má setja matvörur í þær til að allt haldist á sínum stað í ökuferðinni. mbl.is/Malín Brand
Afturrýmið í V-Class er með besta móti og í færanlegum …
Afturrýmið í V-Class er með besta móti og í færanlegum miðjustokknum eru borð fyrir hvern og einn. Borðin eru aukabúnaður sem kemur t.d. að góðum notum ef bílinn á að nota í viðskiptatengdri þjónustu. mbl.is/Malín Brand
Bílstjóra- og farþegasæti eru með rafstýrðum mjóbaksstuðningi (aukabúnaður) en öll …
Bílstjóra- og farþegasæti eru með rafstýrðum mjóbaksstuðningi (aukabúnaður) en öll sæti bílsins eru þægileg og hægt að stilla á ýmsa vegu. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: