Passlegur fyrir hávaxna

VW Golf Sportsvan er hentugur fjölskyldubíll með nóg rými fyrir …
VW Golf Sportsvan er hentugur fjölskyldubíll með nóg rými fyrir fólk og fylgihluti. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

VW Golf Sportsvan er byggður á hinum hefðbundna Golf en er töluvert stærri. Bæði er hann lengri og lofthæðin er með eindæmum góð þannig að allir farþegar sitja hátt, hvar sem þeir sitja í bílnum.

Bíllinn fæst með nokkrum mismunandi vélum og er ódýrasta útfærsla hans með 110 hestafla 1.2 TSI bensínvél. Hann kostar 3.620.000 kr. sem verður að segjast gott verð fyrir svo stóran og rúmgóðan fjölskyldubíl. Sá bíll sem prófaður var kostar í grunninn 4.650.000 kr. og er hann með 1.6 TDI vél sem skilar 110 hestöflum. Dýrasta útfærslan er 150 hestafla 1.4 l. bensínbíll á 4.990.000.

Notagildi og körfuboltamenn

Bíllinn tilheyrir flokki MPV-bíla eða fjölnotabíla. Farangursrýmið er rúmlega 500 lítra og með því að fella niður aftursætin verður það 1500 lítra. Ekki má gleyma að nefna að aftursætin eru á brautum þannig að renna má þeim fram og aftur eftir þörfum. Í þeim útfærslum Sportsvan sem eru með niðurfellanlegt framsæti má flytja hluti sem eru allt að 2,48 metrar að lengd , svo langur er hann. Einn helsti kostur bílsins að mati undirritaðrar er hversu rúmgóður hann er og fjöldi geymsluhólfa er án efa eitt af því sem fjölskyldufólk kann að meta. Annar góður kostur er sá sem nefndur var í upphafi: hve feikihátt er til lofts. Kollegi minn sagði mér að við reynsluakstur hefði körfuboltamaður fengið með honum far í Sportsvan. Maðurinn er rúmir tveir metrar á hæð og settist aftur í bílinn. Það segir allt sem segja þarf um lofthæðina að vel fór um hann og nokkuð langt frá því að hann rækist uppundir.

Akstur og eyðsla

Að aka bílnum var tiltölulega „venjulegt“ ef svo má segja. Það var fátt sem kom beinlínis á óvart, sem er ágætt fyrir hinn hefðbundna bílstjóra sem kærir sig kannski ekkert um óvæntar uppákomur. Sportsvan er lipur innanbæjar, auðvelt að leggja honum í hin og þessi stæði og aðgengið prýðilegt fyrir unga sem aldna. Í akstri á milli Reykjavíkur og Selfoss var hann þýður og góður með ósköp venjulega fjöðrun sem hvorki minnir á svampköku né sportbíl. Bíllinn var ekki prófaður á malarvegi svo ekkert er hægt að segja um útkomuna á slíkum vegi. Sætin eru fantafín, úr slitsterku áklæði og í framsætum eru sætisarmar. Eyðslutölurnar voru vel ásættanlegar eða 4,8 l. /100 km í utanbæjarakstri. Og öruggur er hann því í árekstrarprófunum EuroNCAP fyrr á árinu fékk Golf Sportsvan fullt hús stiga, eða fimm stjörnur af fimm mögulegum.

Gott útsýnið er mikill kostur fyrir fjölskyldufólk og í einhverjum útfærslum eru borð í sætisbökum framsæta. Veghljóð er lágt í þessum ágætlega einangraða bíl þannig að það er margt sem gerir hann ákjósanlegan fyrir fjölskyldur. Svo ekki sé talað um fjölskyldur með skankalanga unglinga!

malin@mbl.is

Allir sitja hátt í bílnum hvort heldur sem er aftur …
Allir sitja hátt í bílnum hvort heldur sem er aftur í eða fram í. Sætin eru þægileg og góð með slitsterku áklæði. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Farangursrýmið er býsna gott eða rúmlega 500 lítra. Með því …
Farangursrýmið er býsna gott eða rúmlega 500 lítra. Með því að fella aftursætin niður má stækka það í 1500 lítra og nýta bílinn til margs. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Niðurfellanlegt borð er í sumum útfærslum Sportsvan. Aftursætin eru á …
Niðurfellanlegt borð er í sumum útfærslum Sportsvan. Aftursætin eru á brautum svo hægt sé að koma sér vel fyrir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
VW Sportsvan.
VW Sportsvan. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Eyðslutölurnar eru lágar miðað við stærð bílsins og hann tiltölulega …
Eyðslutölurnar eru lágar miðað við stærð bílsins og hann tiltölulega vel búinn helstu þægindum í öllum útfærslum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Volkswagen Sportsvan.
Volkswagen Sportsvan. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: