Rós í hnappagat Lexus

Lexus NX 300h F-Sport er sannarlega sportlegur ´í útliti og …
Lexus NX 300h F-Sport er sannarlega sportlegur ´í útliti og spilar þar grillið viðamikið hlutverk. Aksturseiginleikar F-Sport eru skemmtilegir og ekkert er til sparað í tæknibúnaði bílsins. mbl.is/Malín Brand

Síðastliðinn laugardag var Lexus NX 300h kynntur hér á landi. Um er að ræða spánnýja línu frá framleiðandanum sem er sett á markað með það fyrir augum að aná til yngri hóps kaupenda en RX bíllinn gerir.

RX kom á markað árið 1998 og hefur selst ljómandi vel og er NX ekki ætlað að leysa hann af hólmi enda gjörólíkur bíll.

Blaðamaður var þeirrar ánægju aðnjótandi að fara til Vínarborgar í Austurríki á dögunum og reynsluaka þessum áhugaverða bíl. Ekki nóg með það heldur gafst tækifæri til að hlýða á verkfræðing úr hönnunarteymi Lexus NX 300h og það er nú ekki ónýtt!

Eftir hverju sækist ungt fólk?

Það ætti undirrituð nú að vita þrátt fyrir að eiga sjálf gamla bíla. Það segir ekki alla söguna. Ungt fólk sem er á ferð og flugi vill nefnilega eiga bíl sem nýtist bæði til daglegra nota og í sportið. Tilheyri maður þeim hópi er nauðsynlegt að vera á bíl með dráttarkróki, sem er töff, rúmgóður og lipur. Þá er hægt að taka kajakinn með, vélsleðann og allt það sem gaman er að taka með í frítímanum. Það er hægt á þessum bíl. Hann er með dráttargetu upp að 1500 kílóum og flennistórt farangursrými (1600 lítrar að stærð felli maður aftursætin niður. Annars er það 555 lítrar).

Annað sem vert er að taka fram að fólk af iPod kynslóðinni er yfirleitt ekki mikið fyrir segulbandstæki í bílum. Það vill geta notað öll tækin og tólin sem það hefur eignast. Í bílnum sínum. Snjallsímana, tónhlöðurnar og jafnvel alnetið. Nú kunna einhverjir að spyrja hvað þessi ósköp eigi að fyrirstilla - bíll sé til þess að komast á milli A og B! Jú, það er vissulega sjónarmið sem ber að virða en Lexus NX var ekki hannaður eingöngu til að komast á milli A og B. Hann er í raun snjallbíll handa snjallkynslóðinni. Í honum er þráðlaus hleðsla fyrir snjalltækin sem og möguleiki á þráðlausu neti fyrir alla þá sem með bílnum ferðast. Þannig má til dæmis fræðast, fylgjast með gangi heimsmála eða hlýða á hvaða tónlist sem er á leiðinni á milli A og B.

Í bílnum er að sjálfsögðu 6,2" upplýsingaskjár þar sem fylgjast má með allri vinnslu bílsins og líka því sem hinn almenni bílstjóri veltir sjaldnast fyrir sér, þar til kannski núna? Hér er verið að vísa til sérstaks G-krafts mælis.

Ungt fólk virðist upp til hópa meðvitað um að framtíð jarðar sé á einhvern hátt í okkar höndum. Þess vegna gera evrópskir bílakaupendur í auknum mæli kröfur um að mengunargildi nýrra bíla sé lágt og að eyðslutölurnara séu lágar. Þar skorar NX sennilega í mark því mengunargildið er í kringum 117 g CO2/km og eyðslan í blönduðum akstri er í kringum 5 lítrar á hundraðið. Og það er hægt að aka drjúgan spöl innanbæjar á rafmagninu eingöngu. Það er sannarlega vel.

Akstur og upplifun

Í upphafi áhugaverðrar bílferðar um Vínarborg og nágrenni í góðum félagsskap prófaði blaðamaður svokallaða „stau“. Í Austurríki er þetta notað yfir umferðaröngþveiti, sem er mun óþjálla og lengra orð. Það tók rosalega langan tíma að komast úr „stau“ en það var fjarri því óþolandi því ég var ekki að flýta mér og svo gafst einstakt tækifæri til að líða hljóðlaust og hreinlega um miðborgina í Vín á fallegu ökutæki. Hann gekk nefnilega á rafmagninu nánast allan tímann í öngþveitinu. Innan um reykjandi vörubíla sat maður inni í bílnum með tandurhreina samvisku.

Þegar út á hraðbraut var komið var ljómandi skemmtilegt að finna snerpuna í bílnum og um leið horfa á eyðslutölurnar sem voru í engu samræmi við þyngdina á bensínfætinum. Þ.e. tölurnar voru réttar en óvenjulegar miðað við hressilega aksturslagið.

Þægilegur er hann, það má hann eiga. Allur sá munaður sem manni dettur í hug er til staðar og líka ýmiss konar munaður sem manni datt einfaldlega ekki í hug. F-Sport útfærsla bílsins er mjög áhugaverð og skemmtileg. Fjöðrunin er mun stífari (til dæmis í Sport+ stillingunni). Skiptingin er í takt við sportið og bíllinn skiptir sér á hærri snúningi.

Akstur var í alla staði ánægjulegur en mikill vill meira segir einhvers staðar, ekki satt? Ég vildi aflmeiri bíl. Eins og 197 hö séu ekki nóg. Það er því gaman að geta greint frá því að á næsta ári er Turbo útgáfa væntanleg af NX bílnum. Eftir því sem kunnugir segja er það eitthvað sem auðveldlega má hlakka til.

Eitt er það sem sífellt getur farið í mínar fínustu taugar. Það er svokallað „Active Sound Control“ en það er nokkuð öflugt vélarhljóð sem fylgir snúningi véla í sport stillingu en er samt ekki í raun og veru frá vélinni sjálfri. Ég hef hitt marga bílablaðamenn sem eru mjög hrifnir af þessari tækninýjung sem gefur bílstjóra og farþegum þá tilfinningu að þeir séu í bíl með sex lítra V12 vél. Kannski á ég eftir að læra að meta þetta en núna truflar þetta mig. Svona er einmitt í F-Sport bílnum þegar hann er í sport + stillingu. Auðvitað er þetta flott, alveg þar til hugurinn minnir mann á að þetta sé ekki alvöru.

Öryggi og samkeppni

NX er búinn allskyns öryggisbúnaði og má þar nefna veglínulesara sem kemur í veg fyrir að ökumaður húrri yfir á öfugan vegarhelming eða fari út af. Bíllinn tekur stjórnina ef í voða stefnir. Annað er „blind spot monitor“ sem lætur ökumann vita með blikki í hliðarspeglum ef ökutæki er í blinda svæði ökumanns. Þeir bílar sem fáanlegir eru hér á landi og segja mætti að væru í beinni samkeppni við NX eru BMW X3 og jafnvel BMW X4 og Audi Q5. Til að einfalda málin og gæta sanngirni er best að halda sig við einn af hvorri tegund og hafa því X3 og Q5 til viðmiðunar. Ódýrastur fæst NX á 8.590.000 kr. og dýrastur (Luxury úrfærslan) á 12.480.000 kr. Þar á milli eru þrjár útfærslur.

Q5 er í ódýrustu útfærslu á 9.040.000 kr. og í þeirri dýrustu á 13.490.000 kr.

X3 fæst í tveimur útfærslum og kostar sú ódýrari 6.990.000 kr. og sú dýrari 9.560.000 kr.

Eyðslutölur NX og X3 eru sambærilegar en CO2 gildið í NX er lægst af þessum þremur, enda eini tvinnbíllinn af þessum þremur.

NX er áhugaverður kostur í þessum flokki jepplinga og verðið er sanngjarnt í hinu stóra samhengi.

malin@mbl.is

Stjórnstöðin í Lexus NX 300h kann að virðast flókin í …
Stjórnstöðin í Lexus NX 300h kann að virðast flókin í fyrstu en í raun er hún einfald í notkun, einkum og sér í lagi hjá snjallkynslóðinni. mbl.is/Malín Brand
Grillið er fagurt og ögrandi í senn. Það tilheyrir F-Sport …
Grillið er fagurt og ögrandi í senn. Það tilheyrir F-Sport útfærslunni. mbl.is/Malín Brand
Framljósin gefa bílnum mjög sérstakt og fagurt yfirbragð.
Framljósin gefa bílnum mjög sérstakt og fagurt yfirbragð. mbl.is/Malín Brand
Blaðamaður f´ékk að prófa 360° myndavélarnar í ýmsum þrautum og …
Blaðamaður f´ékk að prófa 360° myndavélarnar í ýmsum þrautum og þá var bannað að horfa á annað en skjáinn í bílnum. Þetta gekk ljómandi vel og ekki annað hægt að segja en að tæknin sé ótrúlega nákvæm í alla staði.
Afturhluti NX 300h er fyllilega í samræmi við aðra hönnun …
Afturhluti NX 300h er fyllilega í samræmi við aðra hönnun bílsins sem stingur í stúf við aðra bíla á götunni. Hún er framúrstefnuleg og töff. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: