Bílafloti landsins fríkkar og fjölbreytni eykst

Quattroporte tók sig óneitanlega vel út á Arnarstapa á Snæfellsnesi …
Quattroporte tók sig óneitanlega vel út á Arnarstapa á Snæfellsnesi í blíðviðri haustsins. mbl.is/Malín Brand

Það gleður sannarlega glöggt auga bílaunnandans að sjá ítalska eðal-vagna á borð við Ferrari og Maserati í umferðinni hér á landi.

Nýverið hafa báðar þessar tegundir verið fluttar inn og var fjallað um Ferrari 599GTB í bílablaði Morgunblaðsins 23. september og nú er komið að næsta ítalska fáknum en það er spánnýr Maserati Quattroporte í áhugaverðri dísilútfærslu. Dísilbíllinn er umhverfisvænni en allar aðrar útfærslur Quattroporte sem ætti að gleðja móður Jörð.

Sjötta kynslóð Quattroporte, hönnuð af Lorenzo Ramaciotti, var kynnt á bílasýningunni í Detroit í janúar á síðasta ári en fyrsta kynslóð bílsins kom á markað fyrir góðum fimmtíu árum, árið 1963. Fyrir þá sem ekki hafa lagt ítölskuna fyrir sig þá stendur Quattroporte í rauninni fyrir fjórar dyr.

Sport í dísilútgáfunni

Margur kann að spyrja hvort sporteiginleikar bílsins hverfi í dísilútfærslunni og hvort svona bíll eigi yfirhöfuð að vera fáanlegur í slíkri útfærslu. Svörin við þessu eru nei og já. Þ.e. nei, sporteiginleikarnir halda sér prýðilega og vinnslan er með eindæmum góð, og já, dísilútgáfa er góð hugmynd hjá framleiðandanum. Af hverju? Jú, þar er kominn lúxusbíll þar sem ekkert er til sparað í búnaði, hann er að vísu 1,3 sekúndum lengur úr kyrrstöðu í 100 km hraða en Quattroporte S (sem er með 3 l. V6-bensínvél) en mengar mun minna og eyðslutölurnar eru gjörólíkar. Verðið á bílunum tveimur er þó mjög svipað. Það er best að halda hinum 510 hestafla Quattroporte GTS fyrir utan þennan samanburð þar sem það tæki er töluvert frábrugðið þessum tveimur. Ánægjulegt er að geta sagt að framleiðandinn gætir þess að hafa bílana alla hrikalega vel útbúna og allar útgáfur því fágaðar og „elegant“. Framleiðandinn áætlar að dísilbíllinn verði fyrir valinu hjá um 10% kaupenda og kemur þar til móts við þá sem ferðast langar vegalengdir og vilja ekki verja öllum peningunum í eldsneyti.

Það er ótrúlega ljúft að aka þessum bíl og í sport-stillingunni kemur annað hljóð í strokkinn, fjöðrunin verður dásamlega stíf, þó ekki svo mjög að maður þurfi að brúka heita bakstra að akstri loknum. Ítalirnir vita alveg hvað þeir eru að gera.

Bíllinn er búinn því sem nefnist „Active Sound“ og er rafall við enda pústsins sem framleiðir fantafínt V8-hljóð sem berst í farþegarýmið. Mér þótti þetta skemmtilegt og hljóðið fallegt en fann samt að ég var aðeins að leika á sjálfa mig þar sem ég veit að vélin sjálf gefur ekki hljóðið frá sér eins og hún myndi gera í hinum V8 Gran Turismo eða svipuðum fjölskyldumeðlim. En hvað sem öðru líður kemur hljóðið bílstjóranum alla vega í gott skap!

Einstök hönnun

Quattroporte stendur ekki bara fyrir fernra dyra ökutæki heldur rétt eins og aðrir Maserati fyrir gæði og „karakter“ bíls sem hefur til að bera einstaka aksturseiginleika. Áður en farið verður nánar í aksturseiginleikana er rétt að rýna í hönnunina. Þó svo að hönnunarhlið bílaframleiðslu sé ekki mín sterkasta hlið get ég vissulega vitnað um það sem ég sá í þessum bíl og ber fyrst að nefna afskaplega fágaðan stíl sem truflar augað ekki neitt með milljón smáatriðum, eins og stundum gerist þegar lúxusökutæki eru annars vegar. Hönnuðurinn Lorenzo Ramaciotti hefur séð til þess að upplifunin af að sitja í Quattroporte er eins og að setjast inn í verulega fína og vel skipulagða stofu. Mann langar meira að segja að fara úr skónum áður en inn er stigið!

Leðrið er undurmjúkt á þægilegum sætunum og viðurinn í mælaborðinu er vel pússaður og maður freistast til að klappa honum aðeins. Miðjustokkurinn er sömuleiðis úr við og er ljómandi fínn snertiskjár á sínum stað og þar fer nú allt það helsta fram.

Það sem kom einna helst á óvart við hönnunina var hversu rúmgóður Quattroporte er. Hann er flennistór og eru aftursætin engu síðri en framsætin hvað þægindi varðar. Ætli ég geti ekki sagt með góðri samvisku að þetta sé einn af fáum bílum sem ég get hugsað mér að vera farþegi aftur í. Þar má án nokkurra vandræða koma þremur stæðilegum fullorðnum manneskjum fyrir og þær ættu líka að komast út aftur hjálparlaust. Farangursrýmið er flennistórt og ætti hiklaust að geta gleypt nokkur golfsett.

Síðast en ekki síst er bíllinn mikið fyrir augað hvort heldur sem er að utan, innan, framan eða aftan. Svona bíll verður aldrei ljótur. Það getur bara ekki verið!

Afköst og vinnsla

Stiklað var á stóru hér að framan um hvernig er að aka bílnum. Rétt er að geta þess að framleiðandinn er einkar stoltur af afkastamikilli dísilvélinni og hann má sannarlega vera það. Einu skiptin sem maður man eftir að þetta er dísilbíll er að morgni kalds dags þegar vélin er ræst. Hann er fljótur að klára dísilhljóðið, kannski mínútu í mesta lagi í kuldanum. Síðan malar hann ljúflega eins og kettlingur. Snöggur er hann. 6,4 sekúndur í hundraðið er prýðilegt fyrir stóran dísilbíl og þarf rétt að snerta gjöfina til að finna snögg viðbrögð vélarinnar. Togið er með eindæmum gott eða 600Nm við um 2300 snúninga. Hann er þýður og lipur í stýri og veghljóðið er afskaplega lágt, sem er eins gott því græjurnar eru svo góðar að maður vill njóta þeirra til fulls.

Samkeppni á markaði

Þó svo að einungis einn Quattroporte sé til hér á landi og hann eigi sér ekkert sérstakan umboðsaðila er rétt að skoða hvaða bíla hann keppir við á evrópskum bílamarkaði. Þar ber fyrst að nefna Mercedes-Benz S-Class. Nú hefur undirrituð aldrei prófað þann bíl og þá er best að segja sem fæst. Þó virðist erlendum bílablaðamönnum bera saman um að hann sé vel í stakk búinn til að keppa við Quattroporte dísil. Sömu sögu er að segja af Jagúar XJ sem þykir verðugur keppinautur af sportlegu gerðinni. Gaman væri að sjá þann keppinaut bætast við úrval fallegra evrópskra bíla sem aka eftir götum landsins, ökumönnum til ánægju og yndisauka.

malin@mbl.is

Maserati Quattroporte er rennilegur að sjá og ekki spillir hversu …
Maserati Quattroporte er rennilegur að sjá og ekki spillir hversu ánægjulegt er að aka honum. Eyðslutölurnar komu skemmtilega á óvart.
Maserati stingur skemmtilega í stúf í íslensku landslagi.
Maserati stingur skemmtilega í stúf í íslensku landslagi. mbl.is/Malín Brand
Maserati leggur mikið upp úr að gæðin séu eins og …
Maserati leggur mikið upp úr að gæðin séu eins og best verður á kosið í öllum útfærslum bílanna. mbl.is/Malín Brand
Aftursætin í Maserati Quattroporte.
Aftursætin í Maserati Quattroporte.
Yfirbragðið er fágað og engu ofaukið í innréttingunni.
Yfirbragðið er fágað og engu ofaukið í innréttingunni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina