Lystisnekkja á hjólum

Toyota Land Cruiser 200 er að sönnu hinn veglegasti jeppi …
Toyota Land Cruiser 200 er að sönnu hinn veglegasti jeppi og hrein unun að aka honum, hvort heldur er á auðu malbiki borgarinnar ellegar í ófærð utan alfaraleiðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þeir eru ekki margir jepparnir sem gera jafnríkt tilkall til nafnbótarinnar „Konungur jeppanna“ og Toyota Land Cruiser 200.

Vinsældir Land Cruiser hér á landi renna stoðum undir nafnbótina og nú þegar 200-bíllinn í endurbættri hönnun hefur verið tekinn til kostanna verður sá sem þetta ritar að taka í sama streng. Þessi voldugi jeppi er kafli út af fyrir sig í jeppaflóru landsmanna.

Hátt til lofts, vítt til veggja

2014-gerðin virðist ef til vill ekki mikið breytt við fyrstu sýn en meðal þess sem nýleg andlitslyfting inniheldur er nýtt grill og framstuðari sem ljær bílnum flottan svip, ásamt röð af LED-dagljósum undir aðal-framljósum. Þá eru þokuljósin að framan nokkuð breytt og hliðarspeglar eru með innbyggðum gaumljósum og myndavélum. Krómlistar á hliðum og nýjar 20 tommu álfelgur djassa svo svipinn mátulega upp.

Það fyrsta sem slær mann þegar sest er undir stýri er innanrýmið. Plássið er gríðarlegt, enda jeppinn nokkuð breiður, og það loftar um ökumann eins og hann sé staddur í vel búinni vistarveru í stað þess að sitja í bifreið.

Þá er gaman að því hve hátt er setið í bílnum, og í framhaldinu verður að benda á að útsýni ökumanns er fyrirtak, en óhjákvæmilegur fylgifiskur er sá að innstigið er frekar hátt. Það þarf næstum því að príla upp og í sætið. En það gleymist þegar inn er komið.

Eins og hefðin segir til um er flaggskipsjeppi Toyota ákaflega vel búinn hvers konar græjum og 200-bíllinn svíkur ekki að því leytinu til. Þegar kalt er í veðri koma frábær miðstöð, stýrishitari og hitastýring í sætum til bjargar, og þegar sól tekur að hækka á lofti koma áðurnefnd miðstöð og svo kæling í sætum til bjargar. Efnisval er hið fínasta og aðbúnaður allur til fyrirmyndar. Þá er viðmót og búnaður í snertiskjánum frábær. Allt kemur manni fyrir sjónir sem vandað og rammgert. Meira að segja gaumhljóðið í stefnuljósinu er faglegt á að hlýða, en eins og allir vita er fátt jafnhvimleitt og stefnuljós sem hljómar eins og skoppandi borðtenniskúla. Einnig ber að nefna nákvæmt leiðsögukerfi fyrir Ísland, sem er stór plús.

Ljúfur og öflugur

Það er tekið eftir Land Cruiser 200 á götum úti, enda ekki aðeins fallega hannaður heldur býsna stór bíll. Hann vigtar enda tvö og hálft tonn og það gefur augaleið að talsvert afl þarf til að koma slíku ferlíki af stað. Það er heldur betur tilfellið. Dísilvélin sem prófuð var togar nefnilega 650 Nm milli 1600 og 2800 snúninga og það er hrein unun að botna þennan tilkomumikla dreka. Reyndar hafa hönnuðir Land Cruiser dregið úr vélarhljóðinu en þegar vélin rymur af stað skilar hljóðið sér samt til ökumanns, og það er bara hluti af lúxusnum. Vinnslan í vélinni er afbragð og gerir það að verkum að þegar ökumaður kallar eftir því breytist þessi lystisnekkja í viljugan hraðbát. Einu gildir þótt snjór falli á foldu eins og gerðist í vikunni sem leið. 200-bíllinn er skemmtilega rásfastur og fjöðrunin er hreint framúrskarandi en hann hefur til að bera tveggja spyrnu fjöðrun að framan og fjögurra liða gormafjöðrun að aftan.

Sjálfskiptingin er að sama skapi þýðgeng vonum framar og ákveðið afrek að hún sé jafnþrepalaus í akstri, að kalla, fyrir svo stóran bíl.

Þegar á framangreint er litið kemur það rækilega á óvart að Land Cruiser 200 sé með undir tíu lítra eyðslu á hundraðið en það er tilfellið með díselútgáfuna – 9,5 lítrar.

Geri aðrir betur.

Tilkomumikill verðmiði

Þegar á allt er litið er erfitt að tína til galla á Land Cruiser 200. Hinum hefðbundna launamanni kann þó að þykja upphæð sem dugar til kaupa á tveggja herbergja íbúð helst til ríflegt fyrir bifreið. Tuttugu milljónir eru auðvitað töluverður peningur en, eins og þar stendur, þetta er frábær bíll – ef þú hefur efni á honum. Fyrir þá sem kjósa rúmgóða og vel búna lúxusjeppa eru keppinautar Land Cruiser 200 ekki margir.

jonagnar@mbl.is

Skottið er ekkert slor og rúmar rösklega 1500 lítra. Opnunin …
Skottið er ekkert slor og rúmar rösklega 1500 lítra. Opnunin er um leið frábær og aðgengið til fyrirmyndar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Það vantar ekki olnbogarýmið í framsætunum og útsýnið er sömuleiðis …
Það vantar ekki olnbogarýmið í framsætunum og útsýnið er sömuleiðis fyrirtak. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Flest er við hendina fyrir ökumann, ýmist í stýri eða …
Flest er við hendina fyrir ökumann, ýmist í stýri eða innan seilingar. Aðbúnaðurinn er hinn fínasti. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Toyota Land Cruiser 200 gerir hvað hann getur til að …
Toyota Land Cruiser 200 gerir hvað hann getur til að auka á leti ökumanns með því að gera aksturinn eins þægilegan og hægt er. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina