Ódýrastur og býsna góður

Ford Ka stóð sig einkar vel í vetrarfærðinni og var …
Ford Ka stóð sig einkar vel í vetrarfærðinni og var ljúfur og liðugur við hinar ýmsu aðstæður. Hann er tæp 900 kíló og 69 hestöfl og beinlínis flaug í gegnum skaflana í nágrenni Selfoss. mbl.is/Malín Brand

Þegar Ford Ka kom fyrst á markað árið 1996 þótti mörgum hann æði framúrstefnulegur í útliti. Í það minnsta vakti hann athygli sem ódýrasta trompið frá Ford og seldist vel.

Aksturseiginleikarnir komu á óvart því hann var bæði einstaklega lipur, með góða fjöðrun og steinlá á veginum. Önnur kynslóð smábílsins kom árið 2009 og bíllinn sem hér er til umfjöllunar tilheyrir þeirri kynslóð. Sú þriðja er væntanleg á evrópska markaðinn á næsta eða þarnæsta ári.

Sá ódýrasti á markaðnum

Ford Ka er ekki eins óvenjulegur í útliti og hann var í upphafi. Eftir sem áður heldur hann sérkennum sínum og er það persónulegt mat undirritaðrar að vel hafi tekist til hvað fagurfræði snertir. Það er þó ekki það merkilegasta við bílinn hversu vel hönnuðum tókst til heldur liggur sérstaða þessa bíls á nokkrum sviðum sem hér verður nánar vikið að. Fyrir það fyrsta er bíllinn sá ódýrasti á markaðnum og það er ekki ónýtt að skipa það eftirsóknarverða sæti á íslenskum bílamarkaði. Hann kostar 1.670.000 kr. og er enn töluvert fyrir neðan þann sem næstur kemur en Chevrolet Spark kostar frá 1.769.000 kr. og er þar með sá næstódýrasti.

Það er auðvitað ekkert merkilegt ef ódýrasti bíllinn á markaðnum er brakandi baunadós sem ekkert kemst. Sem betur fer á það ekki við um Ford Ka. Hann er nefnilega skemmtilegur í akstri! Af þeim níu bílum sem kosta innan við tvær milljónir króna og undirrituð hefur prófað er óhætt að segja að Ford Ka hafi þar nokkra yfirburði. Til að mynda er veghljóðið einstaklega lágt og gefur auga leið að meira hefur verið lagt í einangrun þar en víða annars staðar. Því næst ber að nefna hversu gaman er að aka bílnum. Um það mun ég hafa nokkur orð.

Aksturseiginleikar

Það kemur eflaust engum á óvart að bíllinn hafi verið prófaður í tiltölulega slæmu færi. Það kæmi meira á óvart ef tekist hefði að finna gott færi einhvers staðar á landinu í þessum áhugaverða mánuði. Sem betur fer var færðin ekki góð því fátt jafnast á við að aka venjulegum bílum (ekki sportbílum) í færi sem reynir dálítið á bílinn. Hér reyndi því á ýmislegt og niðurstöður prófana voru að bíllinn hefur býsna gott grip – líka þegar erfitt er að finna nokkurt grip á veginum. Hann drífur ljómandi vel. Það er nokkuð hátt undir hann af smábíl að vera og hann er einstaklega léttur án þess þó að vera sérlega „rokgjarn“ í þeim skilningi að hann láti sig fjúka auðveldlega í hliðarvindi. Í nokkuð öflugum hviðum undir Ingólfsfjalli varð bílstjóri þeirra lítt var ef ekki hefði verið fyrir upplýsingaskiltið sem varaði við hviðunum. Ford Ka kom verulega á óvart í hressilegum snjóakstri í nágrenni Selfoss. Í kröppum beygjum á hvínandi ferð lét hann mig ekki slá sig út af laginu og hélst stöðugur á veginum, ótrúlega lipur og einkar fínn á fjöðruninni. Þess ber að geta að menn hafa notað Ford Ka í ralli erlendis og það er ekki svo galið, eins og áhugasamir geta lesið nánar um á veraldarvefnum.

Eyðslutölurnar voru að sama skapi mjög ásættanlegar eða um 5,8 l á hundraðið í innanbæjarakstri og 4,9 l í blönduðum akstri.

Innanrými

Bíllinn er þrennra dyra og sannast sagna myndi ég ekki bjóða mig fram til þess að sitja aftur í bílnum. Þá þarf að klöngrast á milli framsætis og afturrýmis og með skanka á borð við mína er aftursætið ekki kostur. Hins vegar mætti með góðu móti koma tveimur krökkum þar fyrir. Þar eru líka tvær ISOFIX festingar fyrir barnastóla og höfuðpúðar fyrir þau stærri. Nóg um aftursætin. Bílstjóri og farþegi hans geta látið fara vel um sig. Hægt er að stilla sæti og stýri á nokkuð fjölbreyttan hátt auk þess sem hátt er til lofts, hávöxnum til ánægju. Innréttingin er töff og endist eflaust vel og lengi.

Hljómtækin eru þannig úr garði gerð að aðgengið er slæmt en hljómburðurinn góður. Hátalararnir eru sex talsins og hægt að leika tónlist af geisladiskum og gegnum MP3-tengi eða AUX-tengi. Bluetooth er ekki stutt í þessum bíl. Það sem er slæmt er hversu smáir takkarnir eru í tækinu sjálfu þannig að þeir sem eru með mikla hramma geta ýtt á mjög marga takka í einu engum til skemmtunar. Ekki er hægt að hækka, lækka, fletta, skipta eða breyta með takka í stýri því það eru engir takkar í stýri.

Á heildina litið er margt gott við þennan bíl. Mun fleira gott en slæmt. Samanburðurinn við aðra bíla hefur komið fram á nokkrum stöðum hér að ofan en þeir bílar sem hafðir voru í huga eru Chevrolet Spark, Toyota Aygo, Peugeot 108, Hyundai i10, Kia Picanto og VW Up! Allir fást þeir á innan við tvær milljónir króna og eru þeir sannarlega misskemmtilegir þó að verðið sé svipað en Ford Ka er einn þeirra skemmtilegustu auk þess sem hann er ódýrastur.

malin@mbl.is

Afturhlutinn minnir nokkuð á fyrstu kynslóð þessa sniðuga bíls.
Afturhlutinn minnir nokkuð á fyrstu kynslóð þessa sniðuga bíls. mbl.is/Malín Brand
Línur bílsins eru skemmtilegar og má segja að hönnuðum hafi …
Línur bílsins eru skemmtilegar og má segja að hönnuðum hafi tekist vel upp með hann. mbl.is/Malín Brand
Að framan er hann látlaus og falleg umgjörð ljósanna gefur …
Að framan er hann látlaus og falleg umgjörð ljósanna gefur honum huggulegan svip. mbl.is/Malín Brand
Aftursætin eru einn heill bekkur sem auðveldlega má fella niður.
Aftursætin eru einn heill bekkur sem auðveldlega má fella niður. mbl.is/Malín Brand
Innréttingin er töff og eldist áreiðanlega vel þó hún sé …
Innréttingin er töff og eldist áreiðanlega vel þó hún sé nýstárleg. mbl.is/Malín Brand
Afturljósin eru fallega mótuð rétt eins og framljósin og kallast …
Afturljósin eru fallega mótuð rétt eins og framljósin og kallast þau á. mbl.is/Malín Brand
Innréttingin er töff og eldist áreiðanlega vel þó hún sé …
Innréttingin er töff og eldist áreiðanlega vel þó hún sé nýstárleg. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: