Lítil en öflug vél í hagkvæmum bíl

Bíllinn stóð sig með eindæmum vel í snjónum á Suðurlandi …
Bíllinn stóð sig með eindæmum vel í snjónum á Suðurlandi og var gaman að leika sér í vetrarfærðinni. Drifið er gott og nokkuð hátt undir bílinn án þess að hann líti þó út fyrir út fyrir að vera á stultum. mbl.is/Malín Brand

Vinsældir Ford Focus hafa stigmagnast frá því hann kom fyrst á markað árið 1998. Meira að segja tókst honum að slá hinn vinsæla Toyota Corolla út á fyrrihluta árs 2012 og það var áður en í ljós kom að Frans páfi ætti Ford Focus og væri honum tryggur og trúr.

Ekki það að bílar í eigu páfa séu líklegri til vinsælda en aðrir. Engu að síður var skemmtilegt þegar þær fregnir bárust í lok árs 2012 að páfi kynni best við sinn bláa Ford Focus sem er einkar alþýðlegur bíll, rétt eins og páfinn hefur sjálfur komið fyrir sem alþýðlegur maður.

Sportleg andlitslyfting

Nú hefur þriðja kynslóð Ford Focus fengið ljómandi góða andlitslyftingu auk þess sem úrval véla er fjölbreyttara en áður og eru þær í samræmi við Euro 6. Andlitslyfting er ekki fullnægjandi orð yfir þau stakkaskipti sem bíllinn hefur tekið því hann er mikið breyttur, bæði að innan og utan. Hann má fá með hinni frábæru og margverðlaunuðu EcoBoost-vél, sem er 1,0L bensínvél eins og hér var prófuð en nýjar vélar sem standa kaupendum til boða eru 1,5L EcoBoost-bensínvél með sjálfskiptingu og 1,5TDCi-vél með beinskiptingu. Þetta er ekki búið því ekki má gleyma að geta þess að undirvagninn í bílnum hefur verið endurbættur töluvert og má glögglega finna það í akstri. Það er því býsna margt sem gerir Ford Focus 2015 að „nýjum“ bíl þó svo hann tilheyri þriðju kynslóðinni sem kom á markað árið 2010.

Upplifun við akstur

Stundum er orðið „upplifun“ notað yfir ótrúlegustu athafnir daglegs lífs og persónulega er mér oft nóg boðið. Upplifun hlýtur að velta dálítið á áhugasviði hvers og eins. Það verður því að segjast eins og er að hver einasti bíll sem ég ek er ný upplifun fyrir mig. Þess vegna er best að nota orðið upplifun í dag til að undirstrika það að maður leyfir öllu að koma sér á óvart. Oftast skemmtilega á óvart. Til dæmis kom það mér skemmtilega á óvart hversu spræk þessi eins lítra EcoBoost vél-er í þetta stórum bíl. Hann er 1280 kíló, sex gíra og 125 hestöfl. Miðað við vinnsluna þá er þetta býsna góð samsetning. Fjöðrunin er stífari en áður og það er hið besta mál að mati undirritaðrar. Bíltölvan hefur mikinn áhuga á aksturslagi bílstjóra og skiptir sér af því hvenær og hvernig maður hagar gírskiptingunni. Það er gott því á svona vél þarf að læra til að fá það besta út úr henni, þ.e. afl, sparneytni og lágt útblástursgildi. Hér gengur ekki að notast við gamla hugmyndafræði um að það þurfi aldeilis að snúa þessum litlu vélum. Nei, onei. Það er eins gott að hlýða ábendingum tölvunnar og þá fer allt vel.

Hann er spengilegur ásýndar en að sama skapi sportlegur. Að innan er hann svalur. Þar spilar inn í túrkís-bláir nálarendar á öllum mælum og lýsing í stíl. Þetta er flott og minnir mann á ísbláan litinn á ísklumpunum sem mara í kafi í Jökulsárlóni. Skáldlegt? Þetta er alla vega upplifun.

Þægindi og rými

Bíllinn er ágætlega rúmgóður og fór afar vel um ökumann í sínu sæti. Ungur maður sem sat á sessunni sinni aftur í var hæstánægður með hversu vel hann sá út og ekki er nú verra að þau geti horft almennilega út, blessuð börnin. Farangursrýmið er nokkuð gott eða 363 L og það verður að teljast vel ásættanlegt fyrir bíl í þessum flokki. Útfærslan sem prófuð var nefnist Titanium og þar eru sætisáklæðin afskaplega fín og í honum eru sportsæti. Ætli aðalatriðið með svona áklæði sé ekki að þau haldi sér saman næstu tíu árin og maður þurfi ekki að fá bólstrara til að hjálpa sér. Mér sýndist þetta slitsterkt áklæði, án þess þó að geta spáð fyrir um endinguna.

Í grunnútfærslu Ford Focus (Trend) er staðalbúnaðurinn nokkuð góður og má þar nefna leðurklætt stýrishjól og gírstöng, aksturstölvu, hita í sætum og speglum, hljómflutningstæki með 6 hátölurum, SYNC-samskiptakerfi með neyðarhringingu (verið er að undirbúa jarðveginn hér á landi fyrir þann búnað), þokuljós í stuðara, bak- og hálshnykksvörn og margt fleira í útfærslunni. Grunnbíllinn er á góðu verði, 3.290.000 kr. Í samanburði við aðra bíla í sama flokki er verðlagningin sanngjörn og verður nánar vikið að samanburðinum síðar.

Fyrir 3.650.000 kr fæst Titanium-útfærslan og í henni er eitt og annað í búnaði umfram Trend, t.d. Titanium áferð í innréttingu, LED-innilýsing, 16“ álfelgur, starthnappur, hiti í framrúðu og krómaðir kastarar að framan. Aukabúnaðurinn gerir bílinn sportlegri og það tekst ágætlega. Flestir ættu þó að geta verið ánægðir með grunnbílinn sem er hinn prýðilegasti.

Samkeppni á markaði

Í síðustu viku var Nissan Pulsar á miðopnu bílablaðsins en hann er einn þeirra bíla sem eru í beinni samkeppni við Ford Focus. Það er því í raun hægt að bera saman verð á sömu bílum og þá en það eru VW Golf, Mazda 3, KIA Ceed, Nissan Pulsar, Peugeot 308 og Toyota Auris. Þeir eru fleiri en þetta myndu vera þeir helstu. Ódýrastur þeirra er Mazda 3 og kostar hann frá 3.140.000 kr. Næstur kemur KIA Ceed sem kostar frá 3.240.777 kr., þá Ford Focus á 3.290.000 kr., Toyota Auris á 3.310.000 kr., VW Golf á 3.370.000 kr., Peugeot 308 á 3.390.000 kr. og lestina rekur Nissan Pulsar á 3.550.000 kr. Það má því segja að samkeppnin í þessum stærðarflokki bíla sé nokkuð öflug og er Ford Focus á góðum stað, bæði hvað verð, búnað og gæði snertir.

malin@mbl.is

Margir hafa sagt að grillið minni nokkuð á Aston Martin …
Margir hafa sagt að grillið minni nokkuð á Aston Martin og það er ekki leiðum að líkjast. mbl.is/Malín Brand
Þó að bíllinn hafi staðið inni í skúr fyrir myndatökuna …
Þó að bíllinn hafi staðið inni í skúr fyrir myndatökuna var kominn snjór upp um allt á augabragði yfir lögulegan afturhlutann. mbl.is/Malín Brand
Innréttingin er prýðileg og ekki leiðigjörn. Þökk sé hönnuðum.
Innréttingin er prýðileg og ekki leiðigjörn. Þökk sé hönnuðum. mbl.is/Malín Brand
Það er fínt að rýna í mælana og ekki spilla …
Það er fínt að rýna í mælana og ekki spilla túrkísbláir endar vísanna. mbl.is/Malín Brand
Leiðsögukerfið veitir góðar upplýsingar, m.a. um þjónustu í nágrenninu.
Leiðsögukerfið veitir góðar upplýsingar, m.a. um þjónustu í nágrenninu. mbl.is/Malín Brand
Takkarnir eru margir en þjóna sínum tilgangi. Stýrið er lipurt …
Takkarnir eru margir en þjóna sínum tilgangi. Stýrið er lipurt og gott. mbl.is/Malín Brand
Ungur farþegi, Óðinn að nafni, lét vel af verunni í …
Ungur farþegi, Óðinn að nafni, lét vel af verunni í rúmgóðu afturrýminu. mbl.is/Malín Brand
Í millistokknum er nóg af hólfum.
Í millistokknum er nóg af hólfum. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina