Með eindæmum eyðslugrannur og góður

Það er sannarlega ánægjulegt að svona stór bíll skarti eins …
Það er sannarlega ánægjulegt að svona stór bíll skarti eins lágum eyðslutölum og raun ber vitni. 4.7 l. á hundraðið er ekkert til að skammast sín fyrir. mbl.is/Malín Brand

Toyota RAV4 fagnaði 20 ára afmæli á síðasta ári en jepplingurinn hefur frá upphafi notið mikilla vinsælda, bæði hér á landi og um víða veröld. Árið 2013 kom fjórða kynslóð RAV4 á markað og er sá bíll nokkru stærri og vígalegri en þeir fyrri.

Alla jafna hugsar maður um RAV4 sem fjórhjóladrifinn jeppling en hann fæst líka framhjóladrifinn og það er sko ekki galið! Sá framhjóladrifni var tekinn til kostanna á dögunum og eins og oft hefur mátt segja um veðrið þá var það æði fjölbreytilegt þessa dagana. Bíllinn var því prófaður við „allar“ aðstæður og það er náttúrlega það besta fyrir bílablaðamann, að fá að prófa almennilega við ýmsar aðstæður.

Hvað kom á óvart?

Það er ekki nóg að segja að bíll hafi sannarlega komið á óvart án þess að skýra vandlega hvað það var sem kom á óvart. Í fyrsta lagi kom verðið á óvart en RAV4 FWD kostar 4.890.000 kr. og fyrir jeppling af þessari gráðu má það teljast býsna gott. Hann er prýðilega búinn og er ekki hægt að setja út á það.

Það sem kom mest á óvart voru eyðslutölurnar. Ég gerði hárfínar athuganir, við ýmis skilyrði, og aldrei tókst mér að koma eyðslunni upp fyrir 6,0 lítra á hundraðið. Það er auðvitað prýðilegt. Í blankalogni á leiðinni á milli Reykjavíkur og Selfoss var eyðslan 4,7 lítrar. Hvort var nú ótrúlegra að það skyldi vera logn eða að eyðslan væri 4,7? Hvort tveggja var frábært!

Framhjóla-hvað?

Bíllinn sem hér um ræðir er með 2.0 l dísilvél sem skilar 126 hestöflum. Hann er með sex gíra beinskiptingu og togar býsna vel (310/1600-2400 Nm@snm). Hann er 10,5 sekúndur frá 0 upp í 100 kílómetra hraða, CO2 gildið er 128 g/km. Tiltölulega hátt er undir hann og er lægsti punktur 187 mm. Þó hann sé framhjóladrifinn er hann afar góður í léttar torfærur og hann drífur vel í snjó. Það ætti því sannarlega að vera markaður fyrir þessa útfærslu jepplingsins hér á landi. Eyðslugrannur jepplingur sem hátt er undir og kostar ekki of mikið? Já, tvímælalaust hljómar það vel.

Hann er þar að auki hljóðlátur og sem fyrr segir búinn öllu því helsta. Í honum er leðurklætt stýri, handbremsa og gírstangarhnúður, leðurklætt mælaborð, skjár og bakkmyndavél, LED-ljós, þakbogar og fleira.

Samanburður við aðra

Verðið, 4.890.000 kr., mætti heita sanngjarnt og þá er okkur ekkert að vanbúnaði að bera það saman við aðra framdrifna jepplinga í svipuðum stærðarflokki.

Nissan Qashqai fæst ódýrastur á 4.190.000 kr. en það er sennilega best að hafa Nissan Xtrail (stóra bróður hans) hér líka til að allrar sanngirni varðandi stærð sé gætt. Sá kostar frá 5.490.000 kr. Hyundai ix35 Classic (dísil) kostar 4.690.000 og Honda CRV kostar 5.190.000. RAV4 stenst því vel samanburðinn við aðra framhjóladrifna jepplinga.

Í samanburði við aðra framhjóladrifna jepplinga er verðlagningin á RAV4 …
Í samanburði við aðra framhjóladrifna jepplinga er verðlagningin á RAV4 sanngjörn. Hann kostar 4.890.000 kr. og er einkar vel útbúinn. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: