Eins og breskur aðalsmaður

Hann er reffilegur að sjá á alla kanta, breski aðalsmaðurinn. …
Hann er reffilegur að sjá á alla kanta, breski aðalsmaðurinn. Hann tók sig vel út í morgunsólinni á Íslandi í janúar. mbl.is/Malín Brand

Land Rover Discovery Sport verður kynntur á næstunni og því er ekki úr vegi að fara vandlega yfir hvernig var að aka þessum nýliða í hinni áhugaverðu Land Rover fjölskyldu. Hann tekur við af Freelander og er bæði fáanlegur í fimm og sjö sæta útfærslu.

Í útliti svipar honum nokkuð til hins spengilega Range Rover Evoque og er sannarlega ekki leiðum að líkjast. Það er kannski ekki við hæfi að básúna of mikið um útlit bílsins því sitt sýnist hverjum og best að leyfa lesendum að skoða meðfylgjandi myndir til að mynda sér skoðun á útlitinu.

„Notendaviðmót“ bílsins

Að setjast upp í þennan bíl var nokkuð viðkunnanlegt og ljóst má þykja að Bretarnir hafa lagt mikið í að skapa umhverfi sem er einstaklega „notendavænt“ ef svo má að orði komast. Nú kann að hljóma eins og verið sé að lýsa nýju stýrikerfi frá tölvuframleiðanda en svo er ekki. Hins vegar er það staðreynd að ný ökutæki verða sífellt tæknilegri og tilfinningin oftar en ekki að maður sé sestur inn í risastóra gestaþraut. Það er ekkert hrossalegt í Discovery Sport. Allt umhverfið inni í bílnum er ótrúlega snjallt og rétt eins og að á móti manni taki vel upplýstur breskur aðalsmaður. InControl™ tæknin sem bíllinn er búinn er afburðasnjöll og gerir ökumanni mögulegt að stjórna ótrúlegustu hlutum með snjallsímaforritum sem tengja má InControl™. Forrit símans birtast á 8" skjá í miðri innréttingunni og er það afskaplega flott að sjá. Því næst má stjórna forritunum og símtækinu af þessum snertiskjá. Ef til vill finnst okkur þetta eins hversdagslegt og hvað annað innan fárra ára en núna, árið 2015, er þessi tækni býsna nýstárlegt en eftir sem áður og framar öllu notendavænt. Margt annað í InControl™ mætti líka nefna en látum staðar numið á eftir því sem kallast InControl™Secure en það er búnaður sem rekur hvar bíllinn er ef svo óheppilega vildi til að honum yrði stolið. Dálítið eins og eigendur iPhone þekkja sem „Find my iPhone“. Snjallt er það!

Er eitthvert fútt í akstrinum?

Já, það er nú í margra huga kjarni málsins í bílagagnrýni: Hvernig var þetta? Það er ekki nóg að auðvelt sé að komast inn í hann og úr, koma fimm krökkum fyrir og golfsettunum, heldur þarf líka að vera ánægjulegt að aka bílnum. Í það minnsta má það ekki vera ökumanni kvalræði. Helst á það að vera gaman og þegar best lætur, frábært! Við reynsluakstur á Discovery Sport voru aðstæður til aksturs á jeppa alveg frábærar því bæði var snjór og farið var um vegi þar sem reyndi virkilega á getu bílsins og vissulega ökumanns um leið. Það var sannarlega ánægjulegt.

Discovery Sport lætur kannski lítið yfir sér en hann er ótrúlega „seigur“ og er tilfinningin eins og um mun stærra ökutæki sé að ræða. Þarna er það þó ekki stærðin sem máli skiptir heldur búnaðurinn og hönnunin.

Skynjarar, Wade Sensing™, í hliðarspeglum segja til um dýpt vatns þegar ekið er yfir ár. Fjöðrunarbúnaður bílsins er nýr frá grunni. Afturöxullinn er í raun hluti af fjöðrunarkerfinu þar sem stífur, stangir og gormar eru tengdar beint við hann. Framleiðandinn kallar þetta „multi-link axle“ og vogar blaðamaður sér að snara því yfir á íslensku sem fjölliða öxul eða fjölfestuöxul. Að því gefnu að bílstjórinn sé þokkalegur þá líður bíllinn nokkuð mjúklega yfir hvers kyns undirlag.

Vélin skilar góðu afli og býsna góðu togi og níu þrepa sjálfskiptingin vinnur vel og hnökralaust.

Tækninýjungar og öryggi

Discovery Sport er búinn ótal tækninýjungum og má þar til dæmis nefna AEB nauðhemlunarbúnað (Autonomous Emergency Braking) einkar lipurt stýri, EPAS, sem stendur fyrir Electric Power-Assisted Steering, aðstoð við að leggja í stæði og bakkskynjara, sjálfvirkan ljósabúnað (háu ljósin kveikt og slökkt sjálfvirkt), kerfið sem les umferðarskilti, akreinavara og svo mætti skuggalega lengi telja. Ýmiss konar búnaður les umferðina og aðstöðar ökumann. Það þarf ekki fleiri aðstoðarökumenn í þennan bíl, svo mikið er víst.

Verð og samkeppni

Eftir upptalninguna hér að framan má gera sér í hugarlund að Discovery Sport kosti álíka mikið og lítil íbúð í úthverfi. Svo er raunar ekki og það kemur á óvart því yfirleitt má telja upp kosti fallegra og góðra bíla en klykkja svo útt með því að bölsótast hressilega yfir verðinu. Því er ekki til að dreifa hér því bíllinn er á mun hagstæðara verði en keppinautarnir. Hann kostar frá 7.290.000 kr. sem er auðvitað ekki lítill peningur í sjálfu sér né nokkuð sem meðalmaður hristir fram úr erminni en skoðum aðeins samkeppnina.

Við Discovery Sport keppa BMW X3, Audi Q5, Lexus NX og Volvo XC 60. Þar er Discovery Sport ódýrastur en næstur kemur BMW X3 sem kostar 7.590.000 kr, þar á eftir Audi Q5 sem kostar frá 7.990.000 kr,. þá Volvo XC 60 sem kostar frá 8.380.000 kr og rekur Lexus NX 300h verðlestina en hann kostar frá 8.960.000 kr. (framhjóladrifsbíllinn kostar 8.560.000 kr.).

malin@mbl.is

Discovery Sport kemur í stað Freelanders en er töluvert meiri …
Discovery Sport kemur í stað Freelanders en er töluvert meiri jeppi. mbl.is/Malín Brand
Bíllinn minnir í útliti eilítið á Range Rover Evoque, náskyldan …
Bíllinn minnir í útliti eilítið á Range Rover Evoque, náskyldan ættingja. mbl.is/Malín Brand
Við hlið hins víðfræga stígvéls sem notað var við frumsýningu …
Við hlið hins víðfræga stígvéls sem notað var við frumsýningu bílsins. mbl.is/Malín Brand
Verðlagningin á Discovery Sport er sanngjörn eða 7.290.000 kr.
Verðlagningin á Discovery Sport er sanngjörn eða 7.290.000 kr. mbl.is/Malín Brand
Innanrýmið er stílhreint og tæknilegt í alla staði. Bíllinn er …
Innanrýmið er stílhreint og tæknilegt í alla staði. Bíllinn er snjallvæddur.
Discovery Sport er fáanlegur fimm og sjö sæta og má …
Discovery Sport er fáanlegur fimm og sjö sæta og má fella sætin niður.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: