300 hestöfl límd við veginn

Golf R er býsna sprækur fjórhjóladrifinn sportbíll.
Golf R er býsna sprækur fjórhjóladrifinn sportbíll. mbl.is/Malín Brand

Golf R er 300 hestafla tryllitækið í hinu mikla úrvali VW Golf fjölskyldunnar. Flestir kannast við Golf GTI, hinn geysivinsæla sportbíl og dísilútfærsluna, GTD, sem er ekki síður skemmtileg. Svo er það þessi. Fjórhjóladrifinn sportbíll sem steinliggur á veginum.

Víðast hvar hafa bílablaðamenn tekið bílnum fagnandi, enda aksturseiginleikarnir stórgóðir og bíllinn bæði vel smíðaður og hönnunin smekkleg. Þó að Golf R sé tryllitæki má vel nota hann til margs annars en að trylla því hann er rúmgóður og býsna svipaður að innan og hinn hefðbundni Golf. Auðvitað er hann sportlegur í hönnun að innan en þó ekki með þeim hætti að hvorki sé pláss fyrir krakka né góss úr búðinni.

Hljóð og mynd

Stundum er varað við því að hljóð og mynd fari ekki fyllilega saman. Það á alla jafna við um eitthvað í imbakassanum en stundum finnst mér mega heimfæra þetta á bíla. Það er að segja þá bíla sem eru búnir græjum með vélarhljóði sem ekki er raunverulegt. Þetta er býsna algengt í aflmeiri bílum og stundum tekst vel til en stundum hreint ekki. Inngjöfin, skiptingin og afköstin þurfa nefnilega að vera samstillt og þá er gaman í bílaleiknum. Hljóðið inni í bílnum verður mjög raunverulegt og bílstjórinn nær í besta falli að gleyma sér. Það þarf ekkert að fara út í hve gremjulegt þetta hljóð verður sé það ekki í nokkru samræmi við gang vélar og sem betur fer er það sjaldgæft.

Drynjandi fínt hljóðið í Golf R er ekki ekta en það er mjög vel gert og má vel hafa gaman af því. Hljóðið kemur á þegar stillt er á RACE viðmót en annars er hljóðið eins og í tveggja lítra vél og kannski rúmlega það enda mikið í lagt til að fá hestöflin 300 út úr herlegheitunum.

Það má því segja að RACE viðmótið sé með dálítið ýktu hljóði en það er vandað og getur maður vel náð að lifa sig inn í drunurnar og öskrin sem gaman væri að kæmu úr vélinni.

GTI eða R?

Golf GTI kostar frá 5.485.000 kr. og þykir mörgum hann býsna skemmtilegur. Eins og fyrr hefur komið fram er ég einmitt ein af þeim. Þá er nú stóra spurningin: Til hvers að kaupa Golf R fyrir 6.995.000 kr. þegar hægt er að fá eldsprækan Golf GTI fyrir mun minni pening? Spurningin á sannarlega rétt á sér og um að gera fyrir væntanlega kaupendur að ígrunda vel hver munurinn sé og að sjálfsögðu að prófa báða bílana til að geta borið aksturinn saman.

Það er auðvitað ekki að ástæðulausu að Golf R sé dýrari en GTI. Hann er um 80 hestöflum öflugri, 2,4 sekúndum fljótari í hundraðið, fjórhjóladrifinn, með meira tog, lægra þjöppuhlutfall og svo mætti áfram telja. Fyrir utan að þeir eru gjörólíkir í akstri. Það má eiginlega ekki bera þá saman því það er hálfkjánalegt og forsendur til samanburðarins ekki til staðar.

Sveigjanleiki og samanburður

Akstursviðmótið er fjölbreytilegt og fer alfarið eftir því hvernig ökumaður hyggst haga sér þann daginn. Hægt er að velja á milli Eco, Comfort, Normal og Race og er skiptingin, fjöðrunin og sannarlega eyðslan ólík eftir því hver stillingin er. Sé ökumaður sérvitur þá er minnsta málið að laga bílinn að honum í stað þess að sérvitur ökumaður lagi sig að bílnum. Það er nefnilega hægara sagt en gert í svæsnustu tilfellunum. Þá má sérsníða skiptingu og fjöðrun og tilheyrandi til að ökumaður sé fyllilega sáttur við aksturinn.

Það væri dásamlegt að sjá bílinn á örlítið lægra verði því tæpar sjö milljónir er ægilega há upphæð. Sérstaklega þegar maður byrjar að safna. Erlendis hafa Subaru WRX, Focus ST, Fiesta ST og Renault Mégane RS verið nendir sem helstu keppinautarnir.

Hér á landi, sem stendur, eru tegundirnar ekki til hjá umboðunum til reynslu en vissulega má sérpanta þá. Fiesta ST er til en sennilega aðeins of lítill til að raunhæft sé að bera hann saman við Golf R þó að sá bíll sé hrikalega skemmtilegur og á góðu verði. Það má því segja að Golf R sé nokkuð sér á báti og þó hann sé dýr er hann hrikalega skemmtilegur í akstri og býsna sprækur.

malin@mbl.is

Púströrin eru nokkur og eru þau fallega krómuð. Útblástursgildið er …
Púströrin eru nokkur og eru þau fallega krómuð. Útblástursgildið er ekki nándar nærri eins hátt og maður skyldi ætla, eða 159g af CO2/km. mbl.is/Malín Brand
LED ljósin koma vel út og skammt undan er 300 …
LED ljósin koma vel út og skammt undan er 300 hestafla vélin í R-bílnum. mbl.is/Malín Brand
Allt er innan seilingar fyrir ökumann og fátt ef nokkuð …
Allt er innan seilingar fyrir ökumann og fátt ef nokkuð í hönnuninni sem mögulega gæti truflað sjónsviðið. mbl.is/Malín Brand
Hann er reffilegur á mjög hófsaman hátt og ögrar ekki …
Hann er reffilegur á mjög hófsaman hátt og ögrar ekki um of í útliti. mbl.is/Malín Brand
Sitt sýnist hverjum um felgur sportbíla. Blaðamanni þótti þessar fara …
Sitt sýnist hverjum um felgur sportbíla. Blaðamanni þótti þessar fara einkar vel við hvítan bílinn. mbl.is/Malín Brand
Aðgerðastýrið er vel skipulagt og mælarnir smekklegir og nógu margir.
Aðgerðastýrið er vel skipulagt og mælarnir smekklegir og nógu margir. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: