Þvílík gargandi snilld

Það er ekki hægt að taka ljóta mynd af þessum …
Það er ekki hægt að taka ljóta mynd af þessum bíl á ferð og hvert sjónarhorn sýnir rennilegar línur bílsins.

Hver skyldi hugsanleg sala á Porsche Boxster Spyder vera á Íslandi á ársgrundvelli? Líklega eitthvað nálægt tölunni núll býst ég við.

Fyrst svo er, er réttmæt að spyrja hvað blaðamaður Morgunblaðsins hafi eiginlega verið að gera á Ítalíu í síðustu viku að prófa slíkan bíl. Víst er að Porsche fylgir ekki í fótspor annarra bílaframleiðenda og Boxster Spyder er ekki bíll sem verður seldur í mörgum þúsundum eintaka. En þá erum við einmitt komin að kjarna málsins. Boxster Spyder er einfaldlega ímynd Porsche í sinni hreinustu mynd. Hann sækir gen sín í Spyder 550 sem meðal annars James Dean gerði frægan og margt í útliti hans minnir á Spyder 718 sem vann margar keppnirnar á sjöunda áratugnum, eins og straumlínulaga uggarnir fyrir aftan báða veltibogana.

Vantar ekki aflið

En hvað er það sem gerir Boxster Spyder svona sérstakan? Hann er með sömu vatnskældu, sex strokka boxervélina og í 911 Carrera S. Hún er 3,8 lítra, þjöppuhlutfallið er 12,5 á móti einum og því þarf hestaflatala upp á 375 hross ekki að koma á óvart. Þetta eru 98,7 hestöfl á hvern lítra vélarstærðar og upptakið er eftir því, eða 4,5 sekúndur í hundraðið. Það er því engin tilviljun að tími Boxster Spyder á norðurslaufu Nurburghringsins var aðeins 7 mín. 47 sek. sem er aðeins sjö sekúndum frá mettíma Cayman GT4. Það er frekar sú staðreynd að um alvöru tveggja sæta Roadster sé að ræða með aksturseiginleika og afl GT bíls sem gerir bílinn svona áhugaverðan. Línurnar minna líka frekar á ofursportbíl enda er útlitshönnunin öll miðuð við það að ekið sé með blæjuna undir vélarhlífinni. Það var því nákvæmlega það sem við gerðum, allan föstudaginn í 34 stiga hita. Bíllinn sem okkur hafði verið úthlutað var sá eini sem ekki var með loftkælingu en það gerði ekkert til, hann hafði þá bara meira afl í staðinn.

Allt mögulegt á þessum bíl

Það er orðin sérstök deild sem hannar vélarhljóð bíla Porsche og hún fékk dágóðan tíma til að ná hinu fullkomna hljóði úr þessum bíl, sagði starfsmaður deildarinnar við blaðamann fyrir reynsluaksturinn. Í miðjustokkinum er sérstakur takki sem sýnir mynd af tvöföldu pústinu, og þegar hann er virkur gusar sérstök dæla smá bensíni útí pústið á réttum augnablikum. Afleiðingin eru nettar sprengingar við skiptingar og þegar slegið er af og aukahávaði þegar honum er gefið snöggt inn. Verst hvað það er erfitt að koma svona til skila í blaðagrein en það að gefa honum inn í jarðgöngum skilaði gæsahúð fyrir allan peninginn. Það gerði akstur bílsins líka á hlykkjóttum fjallvegum í nágrenni Carrara marmaranámanna, en það eru hreint frábærir vegir fyrir bíl sem þennan. Allt að 18% halli og fjölmargar 180 gráðu beygjur létu blaðamenn frá Skandinavíu, Mið-Austurlöndum og Ástralíu svitna í sumarhitum Toscana-héraðs. Það gerði aksturslag ítalskra sveitalubba líka en hvað eftir annað mætti maður þeim á miðjum veginum í kröppustu beygjunum. Eflaust var það gert til að halda hraða á vélarvana Fiat-pútunum en það kom sér vel að Spyderinn var með bremsur sem jöfnuðu afl vélarinnar, og hárnákvæma aksturseiginleika sem létu ökumann telja sér trú um að allt væri mögulegt á þessum bíl. Meira að segja þegar ísbíll birtist handan við eina vinkilbeygjuna, stopp á miðjum veginum, var einfaldlega klossbremsað, gírað snöggt niður í fyrsta og öskrað framúr þegar færið gafst. Þvílík gargandi snilld sem þessi bíll er.

Lítill búnaður – minni þyngd

Búnaðarlega er Boxster Spyder ekki upp á marga fiska enda allt gert til að létta bílinn sem mest. Til að mynda er engin loftkæling í grunnútgáfunni og þarf að panta hana sérstaklega, og eina hljóðkerfið er músíkin sem kemur frá pústkerfinu. Varla þarf þó að taka fram að hægt er að panta það allt saman og meira til. Fleira var gert til að minnka þyngd bílsins eins og að gera sem flesta hluti úr áli og magnesíum, og er stór vélarhlífin öll úr áli. Minna var notað af hljóðeinangrun og meira af léttu Polymer plasti þar sem það var hægt, eins og í afturgluggann. Fyrir vikið er bíllinn aðeins 1.315 kíló sem gefur honum aflhlutfall uppá 3,5 kíló á hvert hestafl. Hann er líka lægri en aðrir Boxster bílar eða sem nemur 20 mm og fjöðrunin er sú sama og í 911 Carrera S svo að aksturseiginleikar bílsins minna meira á go-kart bíl. Annars var innréttingin óaðfinnanleg í anda annarra bíla frá Porsche. Kannski voru glasahaldarar það eina sem hefði mátt betrumbæta en þeir voru á örmum sem voru á fleygiferð í flestum beygjunum. Verð á Porsche Boxster Spyder liggur ekki fyrir enda litlar líkur á að einhver hérlendis stökkvi á eintak. Boxster S kostar frá 14.700.000 kr svo að Spyder útgáfan verður talsvert dýrari en það ef við sjáum hana einhverntíma á verðlista. Samt sem áður kemst maður ekki hjá því að hugsa að allir ættu að eiga einn slíkan grip í bílskúrnum hjá sér, því nær hinni fullkomnu akstursupplifun kemst maður varla en í þessum bíl.

njall@mbl.is

 

Það er eitthvað við afturenda þessa bíls sem er alveg …
Það er eitthvað við afturenda þessa bíls sem er alveg ótrúlega heillandi, eins og hvernig form afturljósanna rennur saman við vindskeiðina og straumlínulaga uggana fyrir aftan veltibogana.
Aftan við höfuðpúðana eru veltibogar sem eiga að vernda ökumann …
Aftan við höfuðpúðana eru veltibogar sem eiga að vernda ökumann og farþega komi til þess að bíllinn velti í höndum óreynds bílstjóra.
Sætin í bílnum eru alvöru körfustólar með miklum hliðarstuðningi svo …
Sætin í bílnum eru alvöru körfustólar með miklum hliðarstuðningi svo að beita þurfti smá lagni til að koma sér fyrir.
Það kom sér stundum vel í reynsluakstrinum að hafa bremsur …
Það kom sér stundum vel í reynsluakstrinum að hafa bremsur sem sögðu sex í bókstaflegri merkingu. Til að stoppa 340 mm diskinn er nefnilega sex stimpla dæla á hverju hjóli að framan svo bíllinn snarstoppar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: