Lengi getur gott batnað

Porsche Cayenne Diesel er feikilega skemmtilegur í akstri, hvort heldur …
Porsche Cayenne Diesel er feikilega skemmtilegur í akstri, hvort heldur leitast er eftir ljúfum akstri á Comfortstillingu eða snarpri keyrslu á Sport-stillingu. Framúrskarandi fínn sportjeppi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var misjafnlega vinsæl ákvörðun á sínum tíma þegar æðstuprestar Porsche A.G. afréðu að hefja smíði og sölu jeppa fyrir almennan markað.

Hreintrúarmönnum innan söfnuðarins þótti það jaðra við guðlast að fyrirtæki sem þekktast er fyrir hinn íkoníska „neun-elf“ sportbíl skyldi ætla að smíða eitthvað fernra dyra á jeppadekkjum. Í ár eru liðin þrettán ár síðan Porsche Cayenne leit fyrst dagsins ljós og engum dettur í hug að kvabba yfir honum lengur. Bæði fæddist hann bráðvel heppnaður og svo hefur hann reynst fyrirtækinu alger gullnáma, að því marki að enginn bíll hefur skapað Porsche viðlíka tekjur og síðan vildu allir Lilju kveðið hafa; meira að segja ofursportbílaframleiðandinn Lamborghini stenst ekki lengur mátið en vill í dag sneið af lúxusjeppakökunni og hyggur á þátttöku í þeim slag. En það er önnur saga. Mál málanna að þessu sinni er 2015 módelið af Cayenne og með honum sannast að lengi getur gott batnað. Ekki svo að skilja að meiri háttar vankantar hafi plagað forverann, en hér hafa menn borið gæfu til að fínstilla fáein atriði og hvert þeirra er gæfuspor, sem mjaka þessum magnaða bíl í átt að fullkomnun á sínu tiltekna sviði.

Forverabetrungur í útliti

Týpan sem hér er tekin til kostanna er sumsé ekki eiginlega ný kynslóð af Cayenne heldur er um uppfærslu að ræða, eða „facelift“ eins og það er kallað í bransanum. Blessunarlega eru breytingarnar allar til hins betra og mestu munar um framendann – andlitið. Þegar 2. kynslóð Cayenne kom fram vorið 2010 setti undirritaður eilítið í brýnnar því þessi veglegi sportjeppi var skyndilega ekki eins upplitsdjarfur og áður; framgrillið samandregið og svipminna, og flæðilínur í húddinu sveigðust sýnilega inn á við, frá framrúðu og að grillinu. Bragarbót hefur verið gerð á nýju týpunni, grillið er stærra og svipmeira og bíllinn allur upplitsdjarfari fyrir vikið. Dregur hann talsverðan dám af litla bróður, Macan, og ekki er leiðum að líkjast þar enda Macan framúrskarandi vel hannaður bíll.

Afturluktirnar eru sömuleiðis búnar að fá upplyftingu og eru nettari og um leið flottari, alltént að mati undirritaðs. Þá er frágangur innfelldra púströranna lítillega breyttur en það ber að sama brunni betrumbóta. Afturhlerinn er einnig breyttur að lögun og einfaldari í útliti. Sem fyrr segir er ekki um formbyltingu að ræða en allar þessar fínstillingar gera þó gott enn betra.

Að stíga inn í sportbíl

Það vita þau sem reynt hafa að þegar sest er inn í Porsche Cayenne gleymist nánast að um jeppa er að ræða því innanstokks er umhorfs eins og í sportbíl. Sætin hafa ríflegan hliðarstuðning og gera ráð fyrir því að stundum sé rokið af krafti í beygjurnar, ásamt því að ómissandi Sport-stilling gerir fleygiferðina ennþá fleygari. Nú ber svo til að stýrið í Cayenne er eins og í 911 og fleiri slíkum frá Porsche í stað klossaða þríhyrningslaga stýrisins sem áður var. Einnig geymir stýrið flipana tvo til að handstýra gírskiptingunni ef vilji ökumanns stendur til að taka völdin af sjálfskiptingunni um sinn. Ferlega skemmtileg nýjung og gaman að sjá mörkin milli jeppa og sportbíls verða ennþá óljósari.

Sjálfsagt munu þeir helst upplifa það hversu óljós mörkin eru, sem aka Cayenne Turbo. Dísil-gerðin er engu að síður framúrskarandi spræk og skemmtileg í akstri. Einhverjir kunna að amast við því að bíllinn er röskar sjö sekúndur í hundraðið en viðbragðið er samt sem áður fantagott og Cayenne rýkur rymjandi af stað ef slegið er í klárinn. Að öðru leyti er hann merkilega hljóðlátur og einangrunin sér til þess að veghljóð er hverfandi og vélarhljóðið sömuleiðis. Aksturinn er því þýður og þægilegur, en snerpan er til staðar sé þess óskað, á minn sann.

Þægindin eru allsráðandi

Hægt er að velja milli Comfort-stillingar og Sport-stillingar og fjöðrunin er tilfinnanlega ólík þar á milli. Comfort er silkimjúk og og Sport stíf fyrir almennilegan hraðakstur. Þegar bílnum var ekið inn á hringtorg á rólegum tíma sólarhrings og 360° teknar á verulegri ferð þá stóðst Cayenne prófið; stöðugleikinn var nægur til að iPhone-síminn sæti kyrr í sínum hólfi í stað þess að þeytast í gólfið. Bíllinn hreinlega grjótliggur. Rúsínan í pylsuendanum er svo klárlega eldsneytiseyðslan, eða skortur þar á. Uppgefin eyðsla er 6,6 lítrar og þó undirrituðum hafi ekki tekist að ná þeim tölum þá er allt undir 7.5 lítrum á hundraðið fyrir rúmlega tveggja tonna og 260 hestafla bíl hreint frábær frammistaða. Cayenne er einnig kominn fram á sjónarsviðið sem Hybrid-bíll fyrir þá sem vilja ná enn lengra í eldsneytissparnaði, en eyðsla dísel-bílsins er hreint ekki til að skammast sín fyrir, nema síður sé. Akstursánægjan er ómenguð og fyrir þá sem vilja upplifa sportlega eiginleika Porsche – erfðaefnið leynir sér nefnilega hreint ekki – með ríflegu farangursrými og plássi fyrir þrjá í aftursætinu, þá er Cayenne einfaldlega svarið. Hvað búnað áhrærir er of langt mál að telja upp allt sem Porsche Cayenne býr yfir, en ég saknaði þó tilfinnanlega bakkmyndavélarinnar því þó skynjararnir séu ákaflega næmir og láti skýrt vita á skjánum hvort fyrirstaða er fyrir aftan bílinn, þá er það nú samt sem áður svo að jafnvel leiftrandi næmir fálmandi lófar koma ekki í staðinn fyrir sjáandi augu – og þetta er bíll sem þú vilt ekki rispa illa eða beygla.

Hvað samkeppnina varðar þá er Porsche Cayenne á afskaplega samkeppnishæfu verði, frá tæpum 14 milljónum króna. Ekki ókeypis en það fæst líka ríflega fyrir peninginn, ef þú ert á annað borð tilbúin/-n að splæsa þess háttar fjárhæðum í aksturseiginleika því bíllinn er í einu orði sagt frábær.

jonagnar@mbl.is

Fínasta fótarými er fyrir farþega í aftursæti, jafnvel þó ökumaður …
Fínasta fótarými er fyrir farþega í aftursæti, jafnvel þó ökumaður og farþegi í framsæti láti fara vel um sig. Hátt er til lofts og útsýni prýðilegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Vélin í Porsche Cayenne er viðbragðsfljót og skilar eflinu vel …
Vélin í Porsche Cayenne er viðbragðsfljót og skilar eflinu vel til hjólanna um leið og sparleg eldsneytiseyðslan er til mikillar fyrirmyndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Porsche Cayenne er hlaðinn hvers konar búnaði og hnappar til …
Porsche Cayenne er hlaðinn hvers konar búnaði og hnappar til staðar sem verða við nánast hvaða óskum ökumanns sem er. Eins og best gerist en bakkmyndavél hefði líka mátt vera. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Porsche Cayenne er hlaðinn hvers konar búnaði og hnappar til …
Porsche Cayenne er hlaðinn hvers konar búnaði og hnappar til staðar sem verða við nánast hvaða óskum ökumanns sem er. Eins og best gerist en bakkmyndavél hefði líka mátt vera. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Farangursrýmið er fyrirtak og stóðst öll hefðbundin próf, svosem barnavagninn, …
Farangursrýmið er fyrirtak og stóðst öll hefðbundin próf, svosem barnavagninn, golfsettið og stóra helgarinnkaupaferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Búið er að hressa upp á framenda Porsche Cayenne og …
Búið er að hressa upp á framenda Porsche Cayenne og þar sem voru áður tvær þverrendur í grillinu eru nú þrjár. Breytingin er klárlega til bóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: