Kadjar blandar sér í baráttuna

Til umfjöllunar að þessu sinni er eitt mest spennandi útspil Renault um langt skeið, Renault Kadjar, sem er fyrsti jeppinn frá hinum franska framleiðanda.

Hér er um að ræða lunkið tromp enda er flokkurinn sem flokkurinn sem Kadjar tilheyrir, smærri jeppar eða „midsize crossover“ eins og það heitir á ensku, sá stærðarflokkur bíla sem er í hvað örustum vexti. Bíllinn byggir að miklu leyti til á sama grunni og hinn geysivinsæli Nissan Qashqai í gegnum samstarf Nissan og Renault, og er á sömu grindinni og býður upp á sama úrval véla. Það breytir því ekki að Kadjar hefur til að bera útlit og innviði sem eru algerlega hans, og þar er flestallt frágengið með miklum sóma.

Ríkulegur staðalbúnaður

Fjórar gerðir eru fáanlegar af Kadjar; Expression+, Dynamic Nav, Dynamic S Nav og Signature Nav. Sá sem hér var prófaður er af týpunni Dynamic S Nav, með sjö tommu snertiskjá í innréttingu, margmiðlunarkerfi fyrir smáforrit, leiðakerfi, rúðuþurrkur með regnskynjara, 19 tommu felgur, lyklalaust start og svokallað Visio-skynjarakerfi, sem felur í sér viðvörunarskynjara ef bíllinn rásar milli akreina, skynjara sem les umferðarskilti og sjálfvirka framljósastýringu. Þá er til staðar bakkmyndavél ásamt nálægðarskynjurum að framan og aftan sem auðvelda til muna að koma bílnum fyrir í knöppustu bílastæðum. Þá verður að nefna býsna skemmtilegan fídus sem fellir niður aftursætin með einum hnappi í skottinu. Einstaklega handhæg lausn og vel úr garði gerð. Þá er létt verk að reisa sætisbökin við aftur þegar að því kemur.

Viðmót snertiskjásins er sérlega lofsvert og frábært að geta flett milli helstu atriða með því að strjúka fingri eftir skjánum, til vinstri eða hægri, og skipta þannig milli útvarps, mengunar- og eyðsluyfirlits, götukorts og flýtiskjás yfir aðrar aðgerðir. Hér er komið fyrirkomulag sem vafalítið verður staðalfrágangur í fleiri tegundum bíla fyrr en varir. Þá hefur það löngum verið eitt einkenna Renault að luma á ótalmörgum geymsluhólfum hingað og þangað um viðkomandi ökutæki. Sú hefð helst í hinum nýja Kadjar og í honum eru handhæg geymsluhólf fyrir ökumann og farþegar sem samtals rúma 30 lítra. Þess utan er farangursrýmið fyrirtak og með niðurfellingu aftursæta þrefaldast það úr 472 lítrum í 1.478 lítra.

Best er að vara viðstadda við því að hinn annars ágæti akreinaskynjari gefur ekki frá sér kurteislegt gaumhljóð þegar valsað er milli akreina heldur gella við drunur sem minna á rorrandi þokulúður, refjalaust! Slíkar trakteringar fást í hvert sinn sem bíllinn fer yfir hvíta brotalínu án þess að gefið sé stefnuljós, sem er vel í lagt því að stundum ekur maður yfir eina slíka án þess að stefnuljós gagnist nærstöddum að neinu marki. En Íslendingar eru upp til hópa herjans tossar í notkun stefnuljósa svo að þetta innra eftirlit bílsins er bara gott mál.

Laglegur í akstri og á að líta

Það er þekkt að þótt við viljum beita skynseminni þegar kemur að því að kaupa bíl er það í raun hjartað en ekki heilinn sem ákveður fyrir rest. Hér þarf Kadjar ekki að hafa áhyggjur því að hann er hörkuflottur að sjá, fyrir utan að vera að öðru leyti skynsamlegur kostur. Þeir sem þekkja til Renault-bíla hafa tekið eftir þeirri nýlegu bragarbót til dæmis á Mégane Sport Tourer að búið er að stækka Renault-merkið á framgrillinu til mikilla muna, og er það vel. Sama er uppi á teningnum á Kadjar og hann nýtur mjög svo góðs af stóru merki á framgrillinu og er einfaldlega hinn reffilegasti að sjá. LED-framljósin eru frábærlega hönnuð og auka á straumlínulögun og aflíðandi framsvip, auk þess sem grillið sjálft er hugvitssamlega hannað.

Hliðarsvipurinn er sama dýnamíska markinu brenndur og lúkkar heil lifandis ósköp vel. Hringinn í kring gengur útlitið einfaldlega upp og Kadjar virkar á mann sem þéttur og traustur.

Í akstri er Kadjar prýðilegur í alla staði. Upptakið er fínt enda togar hann 260 Nm við 1.759 snúninga og rennur prýðilega eftir þjóðveginum. Handhægt cruise control heldur honum vel og útsýni ökumanns er frábært. Við einstaka aðstæður skyggir fyrirferðarmikill hliðarspegillinn farþegamegin svolítið á útsýnið til hægri en það kemur sjaldan að sök. Að sama skapi lætur hann vel að stjórn í miðbænum, beygjuradíusinn er knappur og með bakkmyndavélinni og nálægðarskynjurum eru ökumanni jafnvel þrengstu vegir færir. Fjöðrunin er fyrsta flokks og fer létt með hringtorg ekin á 75 kílómetra hraða, sem er að sönnu hrósvert.

Sterkur valkostur á markaði

Að lokum má geta þess að gaman væri að hafa valkost um fjórhjóladrifinn bíl með sjálfskiptingu en það bíður vonandi betri tíma.

Sem fyrr segir tilheyrir Renault Kadjar ört vaxandi flokki smærri jeppa þar sem frændinn, Nissan Qashqai, hefur verið aðsópsmikill upp á síðkastið. Kadjar stenst fyllilega samanburðinn við hann og VW Tiguan sem hafa verið þar í fararbroddi, ekki síst þegar litið er til þeirrar staðreyndar að Kadjar er fáanlegur framhjóladrifinn frá 3.990.000 krónum – það er einfaldlega framúrskarandi góður díll. Við munum sjá meira af honum þessum, það blasir við.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: