Reffilegur í útliti sem akstri

Hin ákveðna Kodo hönnun Mazda bíla kemur vel út í …
Hin ákveðna Kodo hönnun Mazda bíla kemur vel út í CX-3 og gefur honum reffilegt útlit sem er í engu samræmi við númeraplötuna á prófunarbílnum. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Já, þeir eru farnir að hanna jepplinga sem eru byggðir á grunni smábíla. Nýi Mazda CX-3 smájepplingurinn hefur hlotið verðskuldaða athygli og varð meðal annars efstur í sínum flokki í vali á Bíl ársins á Íslandi nýverið.

Hann byggist á grunni Mazda2 smábílsins og er til dæmis með sama hjólhaf og hann sem segir sitt um stærðarhlutföllin. Krafa kaupenda er í þá átt að bíllinn sé hærri til að auðvelda lestun og auka notkunarmöguleika og því forvitnilegt að sjá hvort að Mazda CX-3 geri einmitt það.

Rúmgóð framsæti en minna pláss afturí

Það vekur talsverða undrun hversu rúmgóður CX-3 er í framsætum og ekki bara það heldur eru sætin nokkuð stór og þægilega mjúk miðað við bíl í þessum stærðarflokki. Innréttingin er nokkuð sportleg sem sést best á því að snúningshraðamælir er aðalmælirinn í mælaborðinu og hraðamælir aðeins stafrænn og hafður til hliðar. Prófunarbíllinn var í Optimum útfærslu með leðuráklæði á hluta mælaborðs og sætum. Samt sem áður eru margir hlutir úr hörðu plasti sem setur annars flotta innréttingu aðeins niður. Þessi útfærsla er mjög vel búin og meðal þess er glerskjár sem kemur upp úr mælaborðinu þegar bíllinn er ræstur og sýnir helstu upplýsingar eins og hraða í augnlínu ökumanns. Annar öryggisbúnaður er veglínuskynjari, blindspunktsviðvörun, snjallhemlun og bakkmyndavél með bakkskynjurum. Plássið er þó orðið af skornum skammti þegar komið er aftur fyrir framsætin og fótapláss ekki mikið fyrir farþega í aftursætum. Tveir fullorðnir geta látið fara þokkalega um sig en sá þriðji þarf að vera smávaxinn og auk þess er þröngt að stíga inn í aftursætin. Farangursrýmið er svo aðeins 350 lítrar og í Optimum útfærslu er búið að koma fyrir Bose bassakeilu í aukaplássinu undir gólfi þess. Það má þó stækka það í 1.260 lítra með því að fella niður aftursætin.

Rásfastur í akstri

Það má með sanni segja að Mazda CX-3 er skemmtilegur akstursbíll og sérstaklega þegar horft er til þess hvaða flokki hann á að tilheyra. Undirritaður hefur sjaldan eða aldrei keyrt smájeppling eins og þennan með jafn skemmtilega aksturseiginleika. Stýrið er snöggt að bregðast við en um leið öruggt og gefur góða tilfinningu við veginn. Bíllinn liggur sérlega vel og er nánast laus við undirstýringu, og eiginlega yfirstýringu líka sem gerir hann mjög rásfastan. Þótt vel væri reynt var mjög erfitt að fá hann til að missa grip, jafnvel á blautu malbiki. Vélin er nokkuð frískleg og léttkeyrandi en eyðsla hennar í kringum 9-9,5 lítra í innanbæjarakstri sem er auðvitað nokkuð stíft fyrir jafnlítinn bíl og nokkuð fyrir ofan uppgefna 7,4 lítra í innanbæjarakstri. Skiptingar eru léttar og öruggar bremsurnar öflugar og það er kostur af hefðbundinni handbremsu.

Verðið gott miðað við samkeppnina

Það vekur nokkra athygli að Mazda CX-3 er ódýrari en Mazda 3 fólksbíllinn og munar 100.000 kr á verði í Vision útfærslu og 200.000 kr í Optimum útfærslunni. Helstu keppinautar hans eru Nissan Juke, Renault Captur og Citroën C4 Cactus. Renault Captur er reyndar aðeins boðinn með dísilvél en með beinskiptingu er grunnverð hans 3.390.000 kr. Grunnverð Nissan Juke er 3.490.000 kr beinskiptur með dísilvél en er aðeins fáanlegur sjálfskiptur með bensínvélinni og kostar þannig 3.690.000 kr. Citroën C4 Cactus er ódýrastur þeirra allra en með 1,2 lítra bensínvél byrjar hann í 2.690.000 kr. Með stærri 1,6 lítra dísilvél og beinskiptingu er hann þó kominn í 3.090.000 kr svo að ólíkt því sem gerist í Evrópu er Mazda CX-3 á góðu verði miðað við samkeppnina, sérstaklega þegar kemur að því að skoða hvaða búnað hann hefur að bjóða.

njall@mbl.is

Plássið í aftursætum gæti verið betra og er það helst …
Plássið í aftursætum gæti verið betra og er það helst fóta- og höfuðrými sem skortir og þröng opnun afturhurða gerir inn- og útstig erfiðara. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Mazda CX-3 er rásfastur með afbrigðum og þá einnig á …
Mazda CX-3 er rásfastur með afbrigðum og þá einnig á möl sem gerir hann að mjög skemmtilegum akstursbíl.
Undir gólfi farangursrýmis er búið að koma fyrir Bose bassakeilu …
Undir gólfi farangursrýmis er búið að koma fyrir Bose bassakeilu í Optimum útfærslunni sem minnkar enn meir annars lítið farangursrými. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Innréttingin í Optimum útfærslunni er sportleg enda leður áberandi á …
Innréttingin í Optimum útfærslunni er sportleg enda leður áberandi á slitflötum og mælaborði. Fyrir ofan stýrishjólið kemur glerskjár sem sýnir helstu upplýsingar í augnlínu svo að ekki þarf að taka augun af veginum. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Tveggja lítra bensínvélin er frísk og skemmtileg og passar vel …
Tveggja lítra bensínvélin er frísk og skemmtileg og passar vel við sex gíra beinskiptinguna. Eyðslan er í kringum 9-9,2 lítra í innanbæjarakstri. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: