Stendur sannarlega sér á parti

Volvo V60 Cross Country er stæðilegur langbaksbíll í fjórhjóladrifsútgáfu sinni …
Volvo V60 Cross Country er stæðilegur langbaksbíll í fjórhjóladrifsútgáfu sinni og upphallandi axlarlínan gefur honum sportlegan svip. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Í heimi flókinna undirnafna lúxusbíltegunda eins og BMW, Benz og Audi er Volvo að reyna að einfalda sínar gerðir. Eftir nokkur ár verða aðeins þrjár grunngerðir í boði, 40 sem V40 og XC40, 60 sem S60, V60 og XC60 og loks 90 sem S90, V90 og XC90.

Til að einfalda hlutina enn frekar stefnir Volvo á að bjóða aðeins eina fjögurra strokka vél í framtíðinni í alla bíla sína. Sú tveggja lítra vél verður þó í mörgum útgáfum, sem bensín eða dísil, með forþjöppu eða án og fær í sumum tilfellum aðstoð frá rafmagnsmótor. Þetta mun þýða mun einfaldari samsetningu og mikinn sparnað fyrir Volvo og við höfum þegar séð fyrsta bílinn sem er hannaður utan um vélina, í hinum nýja og sigursæla XC90. Næstur á dagskrá til að fá nýju vélina er svo S60 og V60, en Morgunblaðið hafði einn V60 til reynsluaksturs fyrir skömmu, að vísu með eldri fimm strokka vélinni sem enn er aðeins í boði fyrir fjórhjóladrifsbílinn.

Stór að utan – ekki svo að innan

V60 bíllinn er bíll sem keppir við bíla eins og BMW 3-línu Touring og Audi A4 Avant en í Cross Country útfærslu eins og Morgunblaðið hafði til afnota er nokkuð annað uppi á teningnum og spurning hvort hann sé jafnvel farinn að teygja sig í átt að sportjeppum eins og BMW X1 og Mercedes-Benz GLA. Fyrir það fyrsta situr V60 CC hátt því hann er með 201 mm veghæð, sem er 65 mm meira en venjulegur V60. Hann kemur líka á 18 tommu felgum og er allur gerðarlegri með stærri brettabogum, og með fjórhjóladrifi veitir hann þeim harða samkeppni í þeirri deildinni. Útlitið er sportlegt með upphallandi axlarlínu, tvískiptu grillinu og tvöföldu pústkerfi. Samt er enginn afsláttur gefinn á öryggi enda stutt í 2020, þegar allir Volvobílar eiga að vera svo öruggir að enginn mun lengur látast í bílum frá þeim, að þeirra eigin sögn. Það er kannski einmitt vegna slíkra hluta sem umkvartanir undirritaðs eiga rétt á sér. Nefnum sem dæmi stóra þakbita og þá sérstaklega B-bitann sem að gerir inn- og útstig í framsæti óvenju þröngt og tekur einnig frá fótarými aftursæta. Annað dæmi eru óvenju stórir höfuðpúðar og sér í lagi höfuðpúði fyrir miðjusæti aftursætis, en stærð hans er svipuð og á meðal fartölvu. Þegar við þetta bætist há axlarlína og mjóir gluggar verður útsýni aftur ekki uppá marga fiska. Loks er farangursrými frekar aðþrengt vegna stórra afturljósa og nær ekki að komast nálægt því sem best gerist í þessum flokki.

Skemmtilegur og þægilegur akstursbíll

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og þegar búið er að koma sér fyrir í óvenju þægilegum framsætum er akstur V60 CC eins og hugur manns. Það er auðvelt að koma sér vel fyrir og stýrið er þægilegt í meðförum og sem meira er, veitir góða tilfinningu fyrir akstrinum. Öllu er haganlega fyrir komið í fallega hönnuðum miðjustokki og efnisvalið þar í kring eins og best verður á kosið. Ein snilldin er líka gróp í hurðarspjaldi sem smellpassar fyrir olnbogann, en stundum getur verið erfitt að finna þægilega staði til að hvíla suma líkamshluta í bílum nútímans. Bíllinn er vel búinn í grunninn, með stórum upplýsingaskjá, blátannarbúnaði og bakkmyndavél sem veitti ekki af. Hægt er að stjórna mörgu gegnum upplýsingaskjáinn en undirritaður hefði þó kosið að þurfa ekki að nota hann til að slökkva á spólvörninni í snjónum. Annað sem gerir akstur bílsins þægilegan er hversu hljóðlátur hann er í akstri. Að vísu er vélin nokkuð hávær í lausagangi en það hverfur alveg þegar setið er innandyra. Vélin er öflug og enga stund að skutla bílnum upp í hámarkshraða en hún er reyndar í þyrstara lagi. Bíllinn sýndi meðaleyðslu uppá 12,3 lítra sem er langt fyrir ofan þá 5,7 sem hann er gefinn upp fyrir í blönduðum akstri. Kannski skiptir máli í því sambandi að sjálfskiptingin í fjórhjóladrifsbílnum er aðeins sex þrepa í stað átta þrepa í þeim framhjóladrifna, en hún er góð þrátt fyrir færri gíra og létt í skiptingum. Í akstri er bíllinn jafn sportlegur og útlitið gefur til kynna. Hann er laus við þá undirstýringu sem búast mætti við í stórum dísilbíl eins og þessum og liggur furðuvel í gegnum beygjurnar. Fjórhjóladrifið hjálpar enn frekar uppá rásfestu hans og þar sem við náðum að prófa hann í snjó reyndi nokkuð á það, sem og spólvörnina sem minnst var á áðan en hún er full afskiptasöm eins og búast má við í bíl sem leggur höfuðáherslu á öryggi.

Á fáa keppinauta

Eins og áður sagði getur verið erfitt að staðsetja Volvo V60 Cross Country en helsti beini keppinautur hans yrði líklega Audi A6 Allroad, en hann er aðeins í boði með mun stærri og öflugri þriggja lítra dísilvél. Grunnverð Allroad er líka talsvert hærra eða 11.490.000 kr. Annar keppinautur myndi vera Passat Alltrac en svipað öflugur Variant með fjórhjóladrifi í Highline útgáfu kostar 6.754.444 kr sem er talsvert undir þeim 7.390.000 kr sem Cross Country AWD er boðinn á. Niðurstaðan verður eiginlega sú að V60 Cross Country stendur sér á parti í fjölskipaðri flóru fjórhjóladrifsbíla sem í boði eru á markaði í dag.

njall@mbl.is

Fágun og einfaldleiki einkennir mælaborð V60 bílsins og bílstjórinn á …
Fágun og einfaldleiki einkennir mælaborð V60 bílsins og bílstjórinn á auðvelt með að finna hina fullkomnu akstursstöðu í þægilegum framsætunum.
Eldri D4 vélin er 2,4 lítra fimm strokka rokkur, öflug …
Eldri D4 vélin er 2,4 lítra fimm strokka rokkur, öflug en nokkuð þyrstari en nýja fjögurra strokka vélin. Sýndi bíllinn meðaleyðslu yfir 12 lítrum.
Farangursrými er aðeins 430 lítrar sem þykir ekki mikið í …
Farangursrými er aðeins 430 lítrar sem þykir ekki mikið í þessum flokki og er þar að auki nokkuð þröngt og hátt aðkomu. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: