Flottur og fáránlega rúmgóður

Skoda Superb er nú kominn í sinni þriðju kynslóð, enn rúmbetri en áður og ekki þótti nú væsa um farþega í síðustu kynslóð. Annarri kynslóðinni var helst fundið til foráttu hversu ljótur hann var en því er ekki að heilsa í nýja bílnum sem fylgir sömu hönnunarlínu og í nýjum Octavia og Fabia, og satt best að segja fer það útlit nýjum Superb alveg sérlega vel.

Hjólin eru utarlega og gefa honum sportlegt útlit og línurnar ásamt nýtískulegum díóðuljósum setja flottan heildarsvip á bílinn. Skoda Superb var kynntur til sögunnar í Heklu um síðustu helgi en blaðamaður Morgunblaðsins reynsluók honum bæði sem langbak og stallbak með 1,4 lítra bensínvélinni og tveggja lítra, 190 hestafla dísilvél með fjórhjóladrifi.

Frábært innanrými

Eitt af því fyrsta sem fólk tekur eftir varðandi nýjan Skoda Superb er hversu fáránlega rúmgóður bíllinn er á alla kanta. En af hverju er Skoda Superb svona rúmgóður? Hann er byggður á lengdri útgáfu af MQB undirvagninum sem er hinn sami og í VW Golf og Audi A3 sem dæmi. Hjólhafið er lengt um 800 mm og það finnst svo um munar. Þar sem hann er kominn með nýjan undirvagn er hann að meðaltali 75 kílóum léttari en fyrirrennarinn og það finnst vel í akstri. Bíllinn er samt með 80 mm lengra hjólhaf en fyrirrennarinn og er 47 mm breiðari þrátt fyrir að hafa farið í megrun. Farangursrými er það besta í flokknum og jafnast á við góðan jeppa þegar búið er að fella niður sæti, eða 1.950 lítrar. Þar að auki eru það litlu „Simply Clever“ atriðin sem gera gæfumuninn í Skoda eins og svo oft áður. Til dæmis er hægt að fella niður aftursætin með einum takka. Einnig má skipta gólfi farangursrýmisins í hólf með frönskum rennilásum, kemur sér vel með innkaupapoka og þess háttar hluti. Það er meira að segja lítið LED vasaljós í hleðsluhólfi sem er með segli og regnhlífin er enn í Superb í hólfi í sitthvorri framhurðinni. Það er nánast sama hvert litið er, plássið er aldrei skorið við nögl nema á einum stað, en hanskahólfið tekur varla meira en eins hálfs lítra gosflösku.

Gott úrval véla

Þar sem nýr Superb er kominn með MQB undirvagninn er nú meira úrval véla og við prófuðum tvær frábærar vélar, öfluga 150 hestafla 1,4 lítra bensínvél og enn öflugri tveggja lítra dísilvél. Báðar koma þægilega á óvart og það er satt best að segja ótrúlegt að 1,4 lítra bensínvél skuli duga þessum stóra bíl svona vel. Tveggja lítra dísilvélin er alveg sér á parti og skilar sínu svo eftir er tekið og þar sem að við prófuðum hann með fjórhjóladrifi var upptakið enn betra eða 7,7 sekúndur í hundraðið. Það var aðeins hikið í DSG sjálfskiptingunni sem kom niður á akstrinum en skiptingin lærir þó smán saman á ökumanninn sem getur valið sér stillingu sem hentar akstursstíl sínum. Báðar vélarnar eru mjög hljóðlátar í akstri og það er lítið veglhjóð í bílnum þrátt fyrir frekar gróf vetrardekk. Fjöðrunin er enn í mýkri kantinum eins og í fyrri kynslóð en er samt stífari en áður og leggst minna á framhornin í beygjum en hann gerði. Á vissum hraða steypir hann aðeins stömpum þegar ekið er yfir hraðahindranir en með því að stilla hraðann af líður hann yfir þær án þess að ökumaður eða farþegar verði þess mikð varir. Þótt að fjórhóladrifsútgáfan sé verklegur akstursbíll er hann ekki eins og Octavia Scout með meiri veghæð og háir það honum aðeins í öllum snjónum. Krafturinn og fjórhjóladrifið varð þó til þess að hann festi sig aldrei þótt aðstæður væru slæmar á köflum.

Á mjög góðu verði

Skoda Superb er vel búinn í grunninn en verður aðallega seldur hér í þremur útfærslum, Active, Ambition og Style. Búast má við að flestir fari þó beint í Ambition útgáfuna hér á landi en hún inniheldur meðal annars fjarlægðarskynjara, bakkmyndavél, rafstýrt ökumannssæti, tvöfalda miðstöð, rafmagnsopnun á skotti, blátannar-símabúnað og beygjuljós. Það er þó ekki fyrr en í Style útfærslu að hann er kominn með leiðsögukerfi. Sem betur fer er afþreyingarkerfið í bílnum samhæft fyrir bæði Apple Carplay og Android Auto svo að það er einfalt mál að spila lög þráðlaust í gegnum Spotify til dæmis. Hérlendis keppir hann við VW Passat og Ford Mondeo en vel búinn Superb gæti allt eins stolið sölu frá Mercedes-Benz E-línu og 5-línu BMW ef út í það er farið. Ford Mondeo stallbakur með 1,5 lítra bensínvél kostar 4.990.000 kr sjálfskiptur en sjálfskiptur Superb er á 4.690.000 kr. Sama er uppi á teningnum í fjórhjóladrifsútgáfu af langbak sem kostar 5.820.000 kr í Superb með 190 hestafla vélinni en sambærilegur Mondeo með 180 hestafla vél kostar 6.150.000 kr sjálfskiptur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: