Fullkominn ráðahagur

Svartar felgur setja nokkuð sterkan svip á Vitara S og …
Svartar felgur setja nokkuð sterkan svip á Vitara S og fer það eflaust eftir hverjum og einum hvort það telst kostur eða ekki. Ljósmynd/Kristrún Tryggvadóttir

Suzuki Vitara kom fram sem nýr bíll snemma á síðasta ári og hefur fengið ágætis viðtökur þrátt fyrir að vera minni jeppi en áður. Hann þurfti einfaldlega að breytast með samkeppninni og verða jepplingslegri til að standast samanburð í þyngd, búnaði og verði sem hann gerir nú og vel það.

Komin er á markað alveg ný útgáfa hans sem heitir einfaldlega Vitara S og er hann boðinn með alveg nýrri 1,4 lítra bensínvél með forþjöppu. Blaðamanni Morgunblaðsins gafst góður tími til að kynnast þessum skemmtilega bíl í síðustu viku.

Með frísklega bensínvél

Eins og fram hefur komið er nýr Vitara skemmtilegur bíll eftir breytingarnar enda eru þær umtalsverðar. Til að mynda er hann 420 kílóum léttari en fyrri kynslóð og þessi bíll með litlu bensínvélinni er enn léttari eða sem munar 60 kílóum í viðbót. Þá má heldur ekki láta minni vél glepja sig því að hún er líklega besti kosturinn í vélaflóru Suzuki. Hún er í senn öflug, togmikil, nokkuð eyðslugrönn, þýðgeng og í alla staði mjög skemmtileg í akstri. Rúsínan í pylsuendanum er svo að hún hentar sex þrepa sjálfskiptingunni fullkomnlega svo það er eins og hinn besti ráðahagur. Vélin er snögg uppá lagið og fljót að koma bílnum úr sporunum en einnig hefur hún gott afl þegar taka þarf til hennar við framúrakstur til að mynda. Er hún þá fljót að skipta bílnum niður og ná hraðaaukningu. Ekki skemmir svo fyrir að þrátt fyrir fulllestaðan bílinn í reynsluakstrinum var hún ekki að skipta niður úr sjötta þrepi þrátt fyrir brekkur sem segir okkur að hún er ágætlega togmikil líka. En af hverju að velja frekar litla bensínvél í stað togmeiri díisilvélar? Jú, hún er öflugasta vélin sem í boði er í Vitara, hún er einfaldari smíðagripur en dísilvélin sem minnkar viðhald og síðast en ekki síst að þá hitnar bíllinn á augabragði að innan með bensínvélinni, sem þarf að bíða talsvert eftir í dísilbílum.

Stífari í akstri

Bíllinn er aðeins stífari í akstri en GL bíllinn, sérstaklega í Sport-stillingunni auk þess að vera næmari í stýri. Hann liggur ágætlega þótt hann leggist aðeins á hornin þegar reynt er vel á hann í beygjum og munar þar mest um hversu léttur hann er. Þar sem hann er stífari virka framsætin því enn harðari en áður. Annars er bíllinn þokkalega rúmgóður og fer vel með meðalfjölskylduna í sumarbústaðaferðinni. Farangursrýmið er aðeins 375 lítrar en rúmar vel stóra hluti eins og meðalstórt hundabúr. Þótt það sé ótvíræður kostur að geta notað Apple Carplay við hljómkerfið í bílnum verða ambögur upplýsingakerfisins betur ljósar með meiri notkun. Það er til dæmis frekar bagalegt að hafa ekki takka sem færir notandann eina aðgerð aftur, í stað þess að þurfa að fara alla leið í grunnmyndina. Kannski ekki stórt atriði en hefði verið einfalt að ráða þar bragarbót á. Eitt skildi undirritaður heldur ekki, en það var til hvers það þurfa að vera þrjár klukkur í mælaborði bílsins. Fyrir utan klukku í mælaborði bílstjóra og upplýsingaskjá er hefðbundin klukka efst í miðjustokki. Til að kóróna óráðsíuna sýndu þær þar að auki ekki sama tímann.

Vel búinn á betra verði

Suzuki Vitara S er talsvert meira búinn bíll en grunngerðin og er með sama búnaði og GLX sem er til dæmis leiðsögukerfi, lyklalaust aðgengi, regnskynjari, fjarlægðarskynjarar með bakkmyndavél og blátannarbúnaður fyrir síma. Auk þess er Vitara S kominn með Apple Carplay fyrir Apple eigendurna. Útlitslega er hann nánast eins fyrir utan aðra hönnun á grilli og litlum þáttum eins og rauðan lit í kringum lágu ljósin og rauðan lit í kringum miðstöðvartúður og aðra hluti í innréttingu. Einnig eru álpedalar í Vitara S og felgurnar eru álfelgur sem búið er að mála með hágæða lakki en maður setur fyrirvara við hvernig það muni endast. Einna besti kosturinn við Vitara S er verð miðað við búnað, en þrátt fyrir aðeins meiri búnað en GLX útgáfan er hann rúmlega 300.000 kr ódýrari. Ekki skemmir svo fyrir að fá bestu vélina í kaupbæti svo að auðvelt er að réttlæta að eyða hluta þess penings sem sparast í flottari felgur. Að lokum verður hann enn samkeppnishæfari við keppinautana eins og Nissan Juke en grunnverð hans fjórhjóladrifins er 4.590.000 k r.

njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: