Lexus RX í fullmótaðri mynd

Mörgum þótti fulldjarft – ef ekki fífldjarft – þegar hönnunarteymi Lexus ákvað að sækja í samstarf og innblástur til tónlistarmannsins Will.I.Am við hönnun á minni sportjeppanum frá Lexus, NX 300h.

Eins og við var að búast varð afraksturinn á margan hátt afgerandi vending frá fyrri jeppamódelum Lexus, sem flest höfðu til að bera hóflegar, lágstemmdar og nánast hlutlausar línur allt frá því fyrsti RX-bíllinn leit dagsljós seint á síðustu öld. Í útliti eldast Lexus-jepparnir ágætlega, einkum 2. kynslóðin, en mörgum þótti þó þriðja og næstnýjasta kynslóðin helst til straumlínulöguð. Ljóst er að Lexus var mikill happafengur að ráðgjöf Will.I.Am, hversu mikið sem ákvörðunar- og áhrifavald hans var í raun, og mikið happ að sama skapi að fyrirtækið hafi sótt í línur NX-jeppans við uppfærslu á stóra bróður fyrir 4. kynslóðina. Skemmst er frá því að segja að hún er sú fallegasta og best heppnaða hingað til. Munar þar ekki minnst um að línurnar hafa orðið skarpari og svipurinn sterkari. RX liggur ekki lengur í láginni heldur hreinlega sogar að sér athyglina.

Og hann fílar það.

Höfðinglegar móttökur

Það hefur aldrei verið í kot vísað þegar sest er inn í Lexus og á því er engin breyting hér, nema ef vera skyldi að enn betur hefur tekist til en áður. Það er nánast hvergi plast að sjá í innréttingunni en þess í stað nóg af ilmandi leðri, ísaumað með öðrum lit. Viðmótið er kunnuglegt frá öðrum Lexus-gerðum og fljótgert að gera sig heimakominn. Meðal einkar vel heppnaðra nýjunga má nefna upplýsingar sem varpað er neðst á framrúðuna fyrir ökumann svo hann þurfi sem allra minnst að taka augun af veginum í akstri. Þar gefur að líta upplýsingar um hraða, vinnslu vélar (hleðsla/hagkvæmni/keyrsla) og loks hraða bílsins. Undirritaður kunni vel að meta þessa framsetningu og með allar helstu aðgerðir í stýri varð aksturinn nánast ótrufluð ánægja. Leiðsögukerfið er einkar skýrt og hvergi fór á milli mála hvenær átti að beygja eða hvaða leið ætti að velja; hin engilþýða kvenrödd í maskínunni tímasetti öll sín tilmæli fullkomlega og er það meira en margir bílar geta státað af. Það getur nefnilega býsna tímafrekt spaug þegar pílan á skjánum sem táknar bílinn er sein að taka við sér og skilgreining kerfisins á „næstu beygju“ er á reiki. Þá getur maður skyndilega verið kominn út á hraðbraut í ranga átt og enginn kostur að snúa við næstu 15 kílómetrana.

Aflmikil og spræk vél

Með rúmlega 300 hestafla vél kemur sá möguleiki að slá vel í klárinn, það má nokkurn veginn bóka það. Þó Lexus RX 450h sé rösklega tvö tonn að þyngd þá er hann þrælviljugur af stað sé þess óskað og ber hraðakstur prýðisvel. Frá vélinni heyrist traustvekjandi urr en það er þó í lágstemmdara lagi enda sumpart úr karakter fyrir Lexus að hljóða eins og óargadýr; fágun hefur alltaf verið aðal þessarar bíltegundar og þó hinn nýi RX bætist í hóp módela frá Lexus sem skarta meira ögrandi útliti en áður hefur þekkst þá er lykilorðið yfir aksturseiginleikana eftir sem áður „fágun“ og það á við um fjöðrunina, stýringuna og upplifunina í heild. Það er helst að leikar æsist þegar Mark Levinson-hljóðkerfið er keyrt upp að ekkert vantar á hamaganginn. Þvílíkar græjur! Sjálfskiptingin er af stiglausu CVT-sortinni, nokkuð sem undirritaður er alla jafna ekkert yfir sig hrifinn af, en hún er þó glettilega vel heppnuð í RX 450h og ekki fór mikið fyrir hvæsandi yfirsnúningi þegar lagt var í brattar brekkur í Lissabon og nágrenni þar sem bíllinn var prófaður fyrr í mánuðinum.

Sparneytinn lúxus hjá Lexus

RX 450h er allt í allt prýðisvel heppnaður blendingsbíll (hvenær finnst eiginlega betra orð fyrir hybrid-bíla?!) og eyðslan, rétt um 5 lítrar á hundraðið, er mjög ásættanleg fyrir tveggja tonna bíl. Frá fyrri gerðum RX-jeppans, sem er langsöluhæsta módel Lexus frá upphafi, er þó mest un vert hversu framúrskarandi vel hefur tekist til með uppfærsluna sem orðið hefur á útliti bílsins. Hann er hreint út sagt hrikalega flottur og fátt út á hann að setja.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina