Skemmtilegur og þéttur Sportage

„Ísmolaljósin“ svokölluðu eru meðal einkenna við nýjustu gerðir Kia og …
„Ísmolaljósin“ svokölluðu eru meðal einkenna við nýjustu gerðir Kia og Sportage er þar ekki undanskilinn. Ljósin setja skemmtilegan svip á framendann og eru staðalbúnaður bíla sem eru af týpunni GT Line.

Kóreska bílaframleiðandanum Kia hefur vaxið rækilega ásmegin síðan þýski yfirhönnuðurinn Peter Schreyer tók þar við taumunum og sér ekki fyrir endann á þeirri vegferð.

Hvert bráðvel heppnaða módelið hefur rekið annað og nýverið var ný kynslóð Sorento-jeppans afhjúpuð við mikinn fögnuð. Í kjölfarið var nýr Sportage-jeppi kynntur til sögunnar og sver hann sig vel í ættina; skartar áþekkum framsvip og önnur ný módel frá Kia, ekki síst fyrir grillið, sem er á sömu bókina lært og annars staðar innan vöruvalsins. Ekki verður annað sagt en að það sé vel því að útlitið er bráðgott og þessi uppfærsla verður síst til að slá á orðspor þessa vinsæla jeppa.

Falleg fjórða kynslóð

Hin nýja kynslóð af Kia Sportage er sú fjórða í röðinni frá því að jeppinn var fyrst kynntur til sögunnar og það er blessunarlega fátt sem minnir hinn nýja bíl á fyrstu útgáfurnar – þökk sé áðurnefndum Schreyer. Þriðja kynslóðin er hörkuvel heppnuð sömuleiðis og það er því gaman að sjá að þau hjá Kia hafa valið skynsamlegu leiðina og sleppt því að gerbylta bílnum, enda hefði það verið algert glapræði. Þess í stað hefur uppleggið verið að betrumbæta sem flesta þætti góðs bíls að einhverju leyti. Óhætt er að segja að það hafi nokkurn veginn tekist skammlaust.

Útlit bílsins, til að byrja með, er einfaldlega mjög vel heppnað. Hið snaggaralega lag forverans er mestanpartinn enn til staðar nema hvað „andlitssvipnum“ hefur verið breytt til að flútta við hin módelin frá Kia, sem fyrr segir. Mestu munar um að framljósin hafa verið hækkuð upp fyrir grillið, í stað þess að nema við grillendana, og kemur það vel út. Þriðja kynslóðin hefur verið afskaplega vinsæll bíll, ekki síst fyrir flott útlitið, og vel má vera að þessi breyting standi í einhverjum. Heilt yfir er breytingin þó vel heppnuð. Lögunin gengur einfaldlega mjög vel upp og smáatriði, eins og ísmolaljósin í hólfunum undir framljósunum á GT Line gerðunum, setja sérstaklega flottan svip á hinn nýja Sportage.

Að innan er efnisval til fyrirmyndar og aftur er sérstaklega gaman að sjá hversu „rándýrt“ innanrýmið er í GT Line; tvílit leðursamsetning sem virkar sérlega vel á mann og lítur hreint afbragðsvel út. Þær gerðir bílsins sem hafa glerþak eru sérlega ákjósanlegar og upplifunin þar innandyra minnir helst á bíl í talsvert hærri verðflokki.

Ljúfur og lipur í akstri

Það sem ökumaður tekur einna fyrst eftir þegar Kia Sportage 2017 módel (sem er árgerð hins nýja jeppa) er gangsettur er hversu framúrskarandi hljóðlátur hann er. Það þarf hreinlega að sussa á viðstadda og hlusta eftir vélarhljóðinu, ætli ökumaður eða farþegar sér að heyra í bílnum. Sama er að segja um Sportage á ferð, það heyrist varla í honum í akstri. Öðru máli gegnir um hljóðkerfið í GT Line, sem er átta hátalara kerfi frá Harman Kardon; það er hreint rosalega öflugt og ekkert minna en unun að „blasta“ því.

Þegar bíllinn er kominn á ferð kemur líka berlega í ljós hve vel hefur tekist til með fjöðrunina. Hún er nægilega stíf og sportleg til að bíllinn steinliggi, jafnvel í talsvert kröppum beygjum, og það er ferlega gaman að taka bílinn til kostanna á vegi með kröppum beygjum á báðar hendur. Stýringin er að sama skapi góð og maður áttar sig fljótt og vel á því hvar maður hefur þennan bíl. Beygjuradíusinn er knappur fyrir bíl af þessari stærð og gerð og því má ljóst vera að hann plumar sig inni í borginni í leit að knöppu bílastæði.

Sparneytnari ... en aflminni

Aksturinn er því heilt yfir fyrirtak en þó tók ég eftir einu atriði, og var það prófað nokkrum sinnum þegar bíllinn var tekinn til kostanna af blaðamönnum. Þegar inngjöfin er botnuð og bíllinn á ferð kemur stutt hik – hálfgert „túrbólagg“ – á vinnsluna og viðbragðið skilar sér ekki alveg í sama vetfangi. Að smá hiki loknu tekur bíllinn við sér og hleypir á skeið. Dálítið sérkennilegt hik sem kemur þarna á gang vélarinnar, en út af fyrir sig ekkert stórmál. Vélakosturinn er lítið eitt aflminni en í síðustu kynslóð en árangurinn er minni útblástur og svo er togið alveg hreint ágætt engu að síður.

Kia Sportage var prófaður bæði sjálfskiptur og beinskiptur, og komu báðar gerðir vel út. Beinskiptingin reyndist ótrúlega mjúk og þægileg, hrein unun í akstri. Sjálfskiptingin er sömuleiðis fyrirtak og hámarkar fína vinnslu frá vélinni, að því gefnu að ökumaður sé ekki að botna bensínið fyrirvaralaust. Þá þarf bíllinn að hugsa sig um andartak áður en rokið er af stað.

Að endingu er rétt að minna á þá merku staðreynd að Kia býður sem fyrr heila sjö ára ábyrgð á nýjum bílum og fylgir óneitanlega talsverð öryggistilfinning því að framleiðandinn hafi slíka tröllatrú á eigin bílum að hann hræðist ekki svo langan ábyrgðartíma til handa kaupendum sínum. Það má hlakka til þeirra tíma þegar sjö ára ábyrgð frá verksmiðju verður orðin viðtekin venja fyrir nýja bíla.

Innanstokks er allt með laglegasta móti, og efnisval til stakrar …
Innanstokks er allt með laglegasta móti, og efnisval til stakrar fyrirmyndar. Sjö ára ábyrgð er ekki til að slá á öryggistilfinninguna.
Sjálfskiptingin er þýð og ljúf en hikar lítið eitt þegar …
Sjálfskiptingin er þýð og ljúf en hikar lítið eitt þegar bíllinn er botnaður á ferð. Svo bætir hann snarlega í hraðann.
Sætin eru sérlega vel úr garði gerð og gefa ökumanni …
Sætin eru sérlega vel úr garði gerð og gefa ökumanni og farþega í framsæti kost á hita þegar kalt er og loftkælingu þegar hlýrra er í veðri.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: