Reffilegur og sprækur Renault Mégane

„Farnar eru beygjur og sveigjur og í staðinn er kominn …
„Farnar eru beygjur og sveigjur og í staðinn er kominn þverhnípt og rennislétt framhlið stjórntækja,“ segir Jón Agnar um stjórnborðið sem tekið hefur miklum breytingum frá fyrri módelum. Útlitið hittir í mark. mbl.is/RAX

Það er óhætt að segja að Renault-fjölskyldan gangi í endurnýjun lífdaga um þessar mundir því hvert vel heppnaða módelið kemur á markaðinn á fætur öðru og það sem meira er, línunni hefur allri verið léð einkar vel heppnað útlit svo afgerandi ættarsvipurinn leynir sér ekki.

Þegar hafa komið fram Captur og Kadjar (sem undirritaður reyndi og var hrifinn af) og nú síðast bætist við 4. kynslóðin af Renault Mégane. Rétt eins og stóru bræðurnir er hér kominn bráðskemmtilegur akstursbíll og um klárt skref fram á við að ræða hjá Renault.

Vel heppnuð innrétting

Það fyrsta sem slær ökumann þegar sest er inn í bílinn er gerbreytt og vel heppnað stjórnborðið. Farnar eru beygjur og sveigjur og í staðinn er kominn þverhnípt og rennislétt framhlið stjórntækja sem minnir við fyrstu sýn á það sem maður á að venjast í Volvo-bílum seinni ára, og ekki leiðum að líkjast þar. Framsetning helsta búnaðar og viðmót allt er einfaldlega fram sett, nánast minimalískt, og það tekur enga stund að verða eins og heima hjá sér. Fyrir þá sem vilja vera með puttann á púlsinum hvað umhverfið varðar þegar þeir fara um á bíl þá má fletta upp margs konar tölfræði gegnum snertiskjáinn sem er hjartað í stjórntækjunum og glöggva sig þar á öllu mögulegu sem snýr að akstrinum og umhverfinu. Sumt virkar máske heldur langsótt og ekki á áhugasviði bíleigenda í það heila en þessir hlutir skipta máli í síauknum mæli og vel gert hjá Renault að vera á undan bylgjunni. Það er þó óþarflega flókin leið að stöðvaminninu fyrir útvarpið og ekki heiglum hent að ætla að skipta um stöð á ferð; það er beinlínis hættulegt að ætla að pikka og pota sig áfram þar uns hádegisfréttirnar finnast. Vera má að hægt sé að stilla stöðvarnar fastar á aðalviðmót snertiskjásins en það tókst þá undirrituðum ekki. Útvarpið er jú það sem oftast þarf að eiga við á ferð og því skrýtið að það blasi ekki við öllum stundum. Á móti má nefna að hljómurinn er einkar tær og góður í hljóðkerfinu. Unga fólkið sem fékk far og kallar ekki allt ömmu sína þegar hljóðkerfi og hljómur er annars vegar hafði sérstaklega orð á þessu.

Þægilegur í akstri og umferð

Það slær mann að sama skapi hvað Mégane virkar breiður að innan og eftir því rúmgóður. Hér er nóg af plássi, fram í sem aftur í, og sæti bæði og efnisval hafa tekið framförum frá síðustu kynslóð.

Það vekir líka athygli hve hljóðlátur bíllinn er í akstri en á móti kemur einkennilegt gnauð eða ýlfur í miðstöðinni þegar hún er á lágum blæstri. Hvinurinn á háblæstri er skiljanlegur en það á helst ekki að heyrast múkk í miðstöðinni þegar hún malar á lágum snúningi.

Þá er vert að geta þess að það fer fjarska vel um ökumann undir stýri. Gírstöng og handbremsa eru á upphækkuðum miðjustokki milli framsæta og staðsetning þeirra er fyrirtak. Ökumaður steinliggur umvafinn í sæti sínu og þarf hvergi að teygja sig í gírstöngina né handbremsu. Þá er stýrisgjörðin sver og vönduð viðkomu, og meira að segja neðanskorin svo ekki skortir á sportbílatilfinninguna. Allt í allt er Mégane allur hinn fínasti að innan.

Í akstri kemur bíllinn einna helst á óvart því 110 hestafla díselvélin er hörkuspræk og beinskiptingin mjög þægileg í allri umgengni. Togið er hressandi og Mégane bregst dúndurvel við inngjöfinni, bæði í upptaki og eins þegar á ferð er komið. Bíllinn er með skriðlás eða brekkuaðstoð (e. Hill Start Assist) sem varnar því að hann renni aftur á bak þegar tengslin eru rofin, til dæmis í brekku á rauðu ljósi, og því ekkert stress með það fyrir ökumann. Jafn auðvelt er að taka af stað í brekku og á jafnsléttu.

Uppgefin eyðsla á hinni snörpu díselvél er gefin 3,7 lítrar í blönduðum akstri. Ekki tókst undirrituðum að ná þeim „lægðum“ í eldsneytiseyðslu – enda lítið ekið á þjóðvegum svo allri sanngirni sé haldið til haga – en best náðist um 5 lítrar innanbæjar, og þegar ekið var með eyðslusamasta móti náði eyðslan um 6,3 lítrum. Meira fékkst bíllinn ekki til að eyða.

Fallegur og rennilegur á að líta

Þær útlitsbreytingar sem hafa verið gerðar á Mégane eru allar til bóta. Útlitið er einfalt við fyrstu sýn en fljótlega fer maður að staldra við ýmis skemmtilega afgreidd smáatriði sem ljá honum fallegan svip og fá mann til að staldra við. Svipmikil LED-ljósa-umgjörðin sem hverfist um aðallugtir framljósanna sver sig í ætt við aðra nýja bíla frá Renault og ljær honum auðþekkjanlegan og flottan svip, og það er til marks um aukið sjálfstraust Renault að tígullaga merkið er stærra og sett í svipmeiri umgjörð á framhlið bílsins eins og er með aðra nýja bíla frá framleiðandanum. Er það vel enda full ástæða fyrir Renault að standa keikir um þessar mundir því línan þeirra er einfaldlega feikisterk.

Skottið er eins rúmgott og vænta má í bíl af …
Skottið er eins rúmgott og vænta má í bíl af þessari stærð. mbl.is/RAX
„Gírstöng og handbremsa eru á upphækkuðum miðjustokki milli framsæta og …
„Gírstöng og handbremsa eru á upphækkuðum miðjustokki milli framsæta og staðsetning þeirra er fyrirtak.“ mbl.is/RAX
„Útlitið er einfalt við fyrstu sýn en fljótlega fer maður …
„Útlitið er einfalt við fyrstu sýn en fljótlega fer maður að staldra við ýmis skemmtilega afgreidd smáatriði.“ mbl.is/RAX
Stýrishjólið er svert og vandað viðkomu, og neðanskorið.
Stýrishjólið er svert og vandað viðkomu, og neðanskorið. mbl.is/RAX
Mælaborðið minnir á innanrými Volvo-bíla í seinni tíð.
Mælaborðið minnir á innanrými Volvo-bíla í seinni tíð. mbl.is/RAX
„Svipmikil LED-ljósa-umgjörðin sem hverfist um aðallugtir framljósanna sver sig í …
„Svipmikil LED-ljósa-umgjörðin sem hverfist um aðallugtir framljósanna sver sig í ætt við aðra bíla Renault.“ mbl.is/RAX
„Renault að tígullaga merkið er stærra og sett í svipmeiri …
„Renault að tígullaga merkið er stærra og sett í svipmeiri umgjörð.“ Afturendinn er lögulegur. mbl.is/RAX
Blaðamanni þykir 110 hestafla díselvél bílsins vera hörkuspræk.
Blaðamanni þykir 110 hestafla díselvél bílsins vera hörkuspræk. mbl.is/RAX
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: