Jeppinn sem heldur að hann sé sportbíll

Það er hrein unun að aka Mercedes-Benz GLE 500e og …
Það er hrein unun að aka Mercedes-Benz GLE 500e og snerpa hans og kraftur fór vel fram úr væntingum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Nýverið breyttu Mercedes-Benz um nafn á ML-jeppalínu sinni og heitir línan GLE í dag. Ekki verður annað sagt en að hin nýja týpa fari vel af stað, sérlega falleg útlits og hvaðeina, en þegar undirritaður prófaði GLE 500e – þ.e.a.s. í plug-in hybrid útfærslu – verður að segjast eins og er að bíllinn kom mér talsvert í opna skjöldu.

Þegar var fyrirliggjandi að bíllinn er hörkufallegur og innanstokks er allt eins og við er að búast hjá Mercedes-Benz. En aflið og togið í þessum bíl var það sem kom skemmtilega á óvart og gerði aksturinn að skemmtistund sem í minnum verður höfð.

Reffilegur að sjá og keyra

GLE-bíllinn sem tekinn var til kostanna var með AMG-útlitspakka sem óneitanlega gerir hann allan sportlegri og meiri á vegi. Einkar vel heppnaðar loftflæðilínur á hurðaflekum bæta um betur og GLE er hinn sportlegasti að sjá. Skemmst er frá því að segja að þegar lagt er af stað stendur GLE við stóru orðin sem útlitið ber með sér því bíllinn hreinlega rýkur af stað, mun snarpari en ég átti von á. Bíllinn er búinn hreint framúrskarandi loftpúðafjöðrun sem virkar prýðilega í borgarakstri, gleypir óþjálar hraðahindranir eins og ekkert sé í almennri stillingu og í Sport-stillingunni breytir hún bílnum – mikið rétt – í sportbíl. Bíllinn lækkar, fjöðrunin stífnar, og bíllinn rígheldur gripinu jafnvel þó slegið sé í klárinn og það duglega. Bíllinn er búinn 3.0 lítra vél sem skilar 442 hestöflum og togi sem nemur 480 Nm. Þessar tölur segja allt sem segja þarf og hljóðið sem berst frá vélinni inn í farþegarýmið er unaðslegt.

Batteríið í skottinu

Stóra spurningin sem vaknar er óhjákvæmilega þessi: „Ókei, plug-in hybrid er gott og blessað en hvar er rafhlaðan?“ Hún er í skottinu og birtist manni þar sem upphækkaður botn í farangursrýminu. Einhverjir kunna að fetta fingur út í geymslurýmið sem glatast en sá sem þetta ritar lítur á það sem vel ásættanlegan fórnarkost þegar litið er til þess sem fæst í staðinn, auk þess sem skottið er eftir sem áður býsna plássgott. Koltvísýringsgildið er nefnilega ekki nema 84 g á kílómetrann sem þýðir að GLE 500e fellur í núllflokk í innflutningi og er því á einkar hagstæðu verði. Grunngerð GLE kostar 10.990.000 krónur og það telst gjafverð fyrir þennan bíl. Sá sem reynsluekinn var er reyndar með áðurnefndu AMG-útliti sem kostar aukalega ásamt ýmsum öðrum búnaði og kostar rétt um 14 milljónir. Alvörupeningur, víst er það, en það fæst mjög ríflega fyrir verðið og díllinn telst hreint fyrirtak. Of langt mál er að telja upp allan búnaðinn sem bíllinn hefur til að bera en þó er vert að minnast á bakkmyndavélina, sem er eiginlega loftmyndavél, réttara sagt. Myndin sem fæst á skjáinn í mælaborðinu er sumsé eins og mynd úr lofti tekin og sýnir ekki bara það sem fyrir aftan bílinn er, heldur líka það sem er sitt hvorum megin við hann – sem dróni flygi í 5 metra hæð yfir bílþakinu og sendi upptökuna rakleiðis í bílinn. Fyrir bragðið er hægastur vandinn að bakka inn í hvaða stæði sem vera skal og munar um slíkt þegar ekið er um á jeppa.

Og þakið, vel á minnst; víðfeðmt glerþak sem gerir farþegum kleift að strjúka frjálst höfuð. Að minnsta kosti líður manni þannig.

Verulega sterkur kostur

Undirrituðum tókst að aka á rafmagni einu saman í röska 20 kílómetra (framleiðandinn segir að hægt sé að ná 30) og það er út af fyrir sig gott og blessað. Þeim er þetta ritar finnst engu að síður stærstu punkturinn fólginn í því að sportjeppi frá Mercedes-Benz, gersamlega hlaðinn búnaði af öllu tagi og hreint út sagt stórkostlega skemmtilegur í akstri, er tollaður í núllflokk og er eftir því á hagstæðu verði. Samkeppnin í þessum flokki er hörð og helstu keppinautarnir, einkum Porsche Cayenne og BMW X5, munu þurfa að taka á honum stóra sínum í samkeppninni við hann þennan.

Framsvipurinn er einkar voldugur á GLE 500e og fáir í …
Framsvipurinn er einkar voldugur á GLE 500e og fáir í sama stærð- arflokki standast honum snúning hvað útlitið varðar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Leiðsögukerfið, skemmtikerfið og annað sem til ökumannsins heyrir er framúrskarandi …
Leiðsögukerfið, skemmtikerfið og annað sem til ökumannsins heyrir er framúrskarandi framsett og það tekur örskotsstund að læra á allt. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Glasabakkinn þegar hann er stilltur á að halda svaladrykkjunum köldum.
Glasabakkinn þegar hann er stilltur á að halda svaladrykkjunum köldum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Farangursrýmið líður aðeins fyrir plássið sem rafhlaðan tekur en skottið …
Farangursrýmið líður aðeins fyrir plássið sem rafhlaðan tekur en skottið er engu að síður býsna rúmgott, ekki síst ef aftursætin eru felld niður. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Margir bílar í núverandi Benz-fjölskyldu hafa einkar fallega innfelld púst …
Margir bílar í núverandi Benz-fjölskyldu hafa einkar fallega innfelld púst og þar á meðal eru GLE-jepparnir. Virkilega haganleg hönnun. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Í AMG-pakkanum eru meðal ann- ars þessar hörkuflottu felgur. Bíll- …
Í AMG-pakkanum eru meðal ann- ars þessar hörkuflottu felgur. Bíll- inn steinliggur á vegi og beygir sem á brautarteinum væri. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: