Leiktæki fyrir lengra komna

Jón Agnar Ólason, blaðamaður Morgunblaðsins, ekur draumabílnum Porsche 718 Boxster.
Jón Agnar Ólason, blaðamaður Morgunblaðsins, ekur draumabílnum Porsche 718 Boxster.

Það er óneitanlega tilhlökkunarefni þegar út spyrst að von sé á nýjum sportara frá Porsche. Þó setti undirritaður í brýrnar þegar hann fékk pata af því að hinn nýi Boxster væri fjögurra strokka, í stað sex sem hann var síðast, og óttaðist að einhver bannsett reglugerðin hefði sniðið honum svo þröngan stakk vegna útblásturs eða einhvers annars.

Það reyndust með öllu ástæðulausar; að sönnu er hinn nýi Boxster fjögurra strokka en það kemur síst að sök því bæði eru hestöflin fleiri, togið meira og útblástursgildið lægra. Þýsk hönnun og hugvit heldur áfram að koma á óvart.

Þvílíkur gírkassi, þvílíkar skiptingar!

Iðulega fer reynsluakstur fram í sjálfskiptum bílum en í þetta sinnið mátti velja um beinskiptan 6 gíra eða sjálfskiptan 7 gíra með PDK (Porsche Doppel-Kupplungsgetriebe) skiptiflipum í stýri. Að fenginni reynslu kaus ég beinskiptan því það verður að segjast eins og er að Þjóðverjarnir í Zuffenhausen-hverfi Stuttgart búa til óviðjafnanlega gírkassa. Þvílík skemmtun, þvílíkar skiptingar! Öll virkni og svörun er svo hnökralaus að eftir stutta stund finnst manni nánast sem hugarorkan sé að skipta um gír. „Að verða eitt með með bílnum“ er óttalega lummuleg klisja en hér er satt að segja innistæða fyrir þessum frasa.

Vélin er sem fyrr segir flöt fjögurra strokka, grunngerðin í Boxster er 2.0 lítra og skilar 300 hestsöflum á meðan Boxster S er 2.5 lítra og skilar 350 hestum með túrbínu. Búið er að endurhugsa undirvagninn frá grunni (ha ha ha) til að ráða betur við skarpar beygjur og snúninga. Það er óhætt að segja að verkfræðingar Porsche hafa hér haft erindi sem erfiði því bíllinn liggur hreint makalaust vel og sú beygja fyrirfannst ekki í Portúgal þar sem undirritaður varð að draga úr hraða til að höndla beygjuna; að því gefnu að engin væri fyrirstaðan þá sigldi bíllinn áfram á sínum hraða – og bara beygði. Áreynslulaust. Sérstaklega á þetta við þegar bíllinn er stilltur á Sport eða Sport +, þegar fjöðrunin er hert til almennilegs hraðaksturs. Þess má geta að hnappinn fyrir þessar akstursstillingar er að finna á nýjum stað í stýri Porsche 718 Boxster og er það vel. Í stað þess að þurfa að fálma í miðjustokkinn þarf ekki annað en að teygja þumal hægri handar í hnappinn og stilla eftir óskum.

Þarf Porsche að hafa viðbótarhljóð?

Þeir sem ekið hafa sportbíl frá Porsche vita sem er að vélarhljóðið er unaðslegt. Hann malar í hægagangi, urrar við inngjöf og öskrar þegar gjöfin er botnuð. Þegar ekið er í bíl með miðlægri vél eins og tilfellið er með Boxsterinn þá er nánast eins og maður sitji á vélinni. Það sem meira er, þegar stigið er á kúplinguna og tengslin rofin á ferð, er hreinlega eins og aflið ólgi í bílnum; það bullar og kraumar! Það kom mér þó á óvart að komast að því að þegar nálin á snúningshraðamælinum er komin á „rauða svæðið“ er vélarhljóðinu veitt um hátalara inn í stýrishúsið til að auka á áhrifin. Þetta gerist þegar bíllinn er í Sport-stillingu en þegar stillt er á Sport + fer allt fúttið í að koma aflinu í hjólin. Hávaðinn minnkar og togið eflist enn frekar. Persónulega kunni ég því fyrirkomulagi betur. Ekki svo að skilja að hljóðveita af þessu tagi skemmi fyrir – nema kannski fyrir alhörðustu meðlimi rétttrúnaðarsafnaðar Porsche, en mér fannst þetta satt að segja ekki þurfa. Hljóðið í Porsche 718 þarf engin hjálpardekk.

Útlitsleg bæting milli kynslóða

Hvað ásýndina varðar er Boxsterinn ekki mikið breyttur fá síðustu kynslóð (enda glórulaust að breyta bara til að breyta; það sem ekki er viðgerðar þurfi er óþarfi að gera við) en þó er að finna á honum fáein smáatriði sem hafa heilmikið að segja, og það til hins betra. Fyrst er að nefna afturendann. Sá er þetta ritar hefur löngum verið þeirrar skoðunar að baksvipurinn á Boxster standi 911 töluvert að baki, en nú horfir það allt til betri vegar. Bara með því að hanna svolítinn stall á skottbríkina, í svörtum háglans milli afturljósanna, er svipurinn allt annar og fallegri. Ofan á stallinum hvílir svo vindskeiðin sem lyfta má upp ef taka á bílinn hressilega til kostanna. Milli hurðaflekanna og afturhjólaskálanna eru svo komin voldug loftinntök sem setja mark sitt skemmtilega á hliðar bílsins. Loks eru loftinntökin neðan við framstuðarann stærri en áður og nefið allt lægra, sem gefur honum ennþá meiri hraðaksturssvip. Í það heila miklar framfarir á bíl sem fyrir var býsna fallegur.

Indæll staður til að vera á

Hvað innanrýmið varðar er þar allt eins og Porsche-ökumenn þekkja það. Nú er reyndar komin einskonar stjórnstöð (PCM – Porsche Communication Management) sem aðgengileg er ökumanni um þægilegan snertiskjá hvaðan stjórna má öllu sem snýr að upplýsingum, afþreyingu og þess háttar. Þegar hefur verið nefndur viðbótarhnappurinn í stýrinu fyrir mismunandi akstursstillingar og er nýjung. Að öðru leyti er umhverfi ökumanns í takt við það sem Porsche hefur lagt upp með síðustu árin og ekki í kot vísað hvað það varðar. Sem fyrr er þó sérkennilegt að það þurfi að halda niðri takkanum sem tekur blæjuþakið niður og setur það upp og merkilegt að menn hafi ekki bætt úr því síðan Porsche 911 Targa var kynntur vorið 2014. Þakið er uppi eða niðri, millistigi er ekki til að dreifa. Hvers vegna er þá ekki nóg að styðja á takkann og sleppa svo? Rúðunum vill maður geta slakað mismikið upp eða niður og þá er gott að geta stoppað í ótilgreindu millibili en þakið er bara annaðhvort niðri eða uppi og því tilgangslaust að láta mann halda takkanum niðri meðan þakið fer upp eða niður.

Svona sparðatíningur breytir því ekki að akstur Porsche 718 Boxster er ómenguð ánægja, hvort heldur ekið er á 75, 175 eða 255. Hann er í hvívetna hreinn akstursunaður og enn ein rósin í troðfullt hnappagat Porsche.

Hliðarsvipur Porsche 718 Boxster er í einu orði sagt stórfenglega …
Hliðarsvipur Porsche 718 Boxster er í einu orði sagt stórfenglega fallegur og hefur tekið breytingum til hins betra frá síðustu kynslóð.
718 Boxster býður aðeins tveimur á rúntinn hverju sinni. Er …
718 Boxster býður aðeins tveimur á rúntinn hverju sinni. Er það vel.
Eitt af því sem gerir nýja Boxsterinn svipmeiri eru loftinntökin.
Eitt af því sem gerir nýja Boxsterinn svipmeiri eru loftinntökin.
Stýrishjólið vinnur frábærlega og stýringin öll eins og draumur.
Stýrishjólið vinnur frábærlega og stýringin öll eins og draumur.
Þannig lítur vindskeiðin út í hvíldarstöðu, innfelld og fyrirferðarlítil.
Þannig lítur vindskeiðin út í hvíldarstöðu, innfelld og fyrirferðarlítil.
Boxsterinn er ekki síðri þegar hann er í góðviðrisstillingu, án …
Boxsterinn er ekki síðri þegar hann er í góðviðrisstillingu, án þaksins.
Það þarf ekki að fjölyrða um útlitið á hinum nýja …
Það þarf ekki að fjölyrða um útlitið á hinum nýja Porsche 718 Boxster. Þessi sportbíll er bara gullfallegur.
Því verður ekki á móti mælt að það gleður augað …
Því verður ekki á móti mælt að það gleður augað að sjá í keramikið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: