Framúrskarandi lúxusþjarkur

Þeyss um sandöldurnar á Toyota Hilux í Namibíu.
Þeyss um sandöldurnar á Toyota Hilux í Namibíu.

Allar götur frá því Marty McFly dreymdi um að eignast svartan Toyota Hilux í fyrstu Back to the Future-myndinni (bíllinn kallaðist reyndar einfaldlega Toyota Truck í Bandaríkjunum í þá daga) hefur þessi verklegi pallbíll átt svolítinn stað í hjarta þess sem þetta ritar. Framan af spilaði hann á svipaðar tilfinningar og Unimog frá Mercedes-Benz – einfalt útlit en verklegur að sjá og ódrepandi á vegleysum. Þetta er allt saman að breytast með síðustu gerðum af Hilux og með nýjustu kynslóðinni er óhætt að segja að ímynd bílsins sé á annan og heldur veglegri veg. Hann er eftir sem áður ótrúlega dugandi í erfiðum torfærum, það hefur ekkert breyst. Undirritaður er fjarri því að vera sérstaklega vanur utanvegaakstri en með stuttlegri tilsögn um drifbúnað hins nýja Hilux er dagljóst að leikir jafnt sem lærðir geta komist langt á þessum jeppa. Það sem hefur breyst er útlitið og aðbúnaðurinn. Í dag er Toyota Hilux einfaldlega hörkufallegur jeppi og það sem meira er, hann er orðinn það vel búinn innandyra að við liggur lúxus! Á það ekki síst við um dýrustu útfærslurnar sem minna helst á eitthvað fallegt frá Þýskalandi, svo fínn er frágangur og efnisval allt.

Til að taka nýjan Toyota Hilux til kostanna þurfti svolítið ferðalag því jeppinn var kynntur og prófaður í Namibíu, syðst í Afríku. Þangað er ferðalag frá Íslandi sem tekur á annan sólarhring en það var vel á sig leggjandi því bæði land og bíll stóðust væntingar og rúmlega það. Hvort um sig er vel þess virði að upplifa en saman voru þau framúrskarandi; Toyota Hilux fór Namibíu prýðilega og vel má heimfæra kosti hans á aðrar lendur, svosem eins og Ísland.

Framúrskarandi fallegur

Svo byrjað sé á byrjuninni þá hefur útlitshönnun nýjustu kynslóðar Hilux tekist með miklum ágætum og hvað ásýndina varðar er jeppinn á mjög góðum stað í tilverunni um þessar mundir. Jafnvægi hefur náðst milli þess að gera bílinn verklegan og sterklegan annars vegar, og fágaðan og vandaðan útlits hins vegar. Hann býður samstundis af sér góðan þokka og mann langar að prófa með það sama. Ekki skyldi þó láta útlitið blekkja um of því enginn þarf að velkjast í vafa um að þessi jeppi þolir að vera tekinn til kostanna og það rækilega enda nær hann best um eins tonns farmþunga.

Ríkulega frágenginn að innan

Að innan er frágangurinn sérlega smekklegur og hreint enginn sveitabragur á, þó Hilux smellpassi á hlaðið við íslenskan sveitabæ. Efnisvalið er skínandi og allt eins rammgert og traust og best gerist. Um stund líður manni hreinlega eins og setið væri í Land Cruiser-jeppa; innra rýmið daðrar hreinlega við lúxus! Fyrir þá sem vilja bílinn með lágmarks munað (og er þá samt sem áður hreint ekki í kot vísað) má benda á LX-útfærsluna sem kostar frá 5.870 þúsund, sem eru kostakaup, en GX- og VX-gerðirnar eru verulega vel frágengnar. 7 tommu margmiðlunarskjár heldur utan um það sem þarf að halda utan um, meðal annars bakkmyndavél, og viðmótið er skýrt og vel heppnað. Of langt mál er að telja staðalbúnaðinn upp (sjá heimasíðu Toyota á Íslandi) en í stuttu máli sagt þá er Hilux þannig búinn að langi húsbóndann á heimilinu í alvöru jeppa þá verður húsfreyjan ekki svikin af því að vera ekið um í Hilux því hann er í stuttu máli sagt afskaplega rúmgóður og stællegur að innan.

Fantagóð frammistaða utan vega

Toyota Hilux er hinn fínasti akstursjeppi sem siglir áreynslulaust, blítt og létt um bikaða vegi. Reyndar er hann ekki fáanlegur með meira en 150 hestöfl og vel mætti hugsa sér hann eilítið öflugri. En stóra málið með Toyota Hilux er eftir sem áður frammistaða utan malbiks, hversu glæsilegur sem hann kann að vera á fínni vegum. Þar lá því mesta eftirvæntingin og skemmst er frá því að segja að Hilux stóðst prófið og útskrifaðist með láði, gott ef hann er ekki dúxinn í sínum flokki. Undirritaður er ekki í hópi þaulreyndra jeppamanna en með lóðs leiðsögumanns um talstöð var jeppinn prófaður sundur og saman og með nokkrum ólíkindum hvernig hann leysti óálitlegustu verkefni í formi vegleysa, sem sumar voru svo grýttar að blaðamanni leyst hreint ekki á blikuna. En allt fór Hilux og lága drifið breytir þessum jeppa einfaldlega í allt annað tæki sem skríður hreinlega yfir allt sem fyrir er. Öryggið er ótrúlegt og brosið færist yfir andlits þess sem upplifir, það getur sá sem þetta ritar staðfest.

Siglt um sandöldurnar

Eins gaman og það var að sigrast á svakalega grýttum torfæruvegum var toppurinn engu að síður að reyna bílinn á víðfeðmum eyðimerkursandöldum Namibíu. Þar sem minni spámenn sökkva í sandinn og spóla sig samstundis fasta tókst Hilux að sigla af öryggi upp og niður heilu hlíðarnar af fínkornóttum eyðimerkursandi. Ótrúleg frammistaða í nánast óraunverulegu landslagi.

Hér verður ekki komist hjá því að telja upp svolítinn búnað því þetta er það sem gerir Hilux að því sem hann er. Mismunadrifslæsing að aftan, ABS-kerfi með rafstýrðri hemlajöfnun, stöðugleikastýring, virk spólvörn, HAC-kerfi til að taka af stað í brekku og DAC-kerfi sem stjórnar hraða niður brekkur (nema í ódýru LX-útfærslunni) gera það að verkum að bíllinn lætur svo vel að stjórn að furðu sætir og gerir hvaða viðvaning í jeppamennsku – undirritaðan þar með talinn – að vel sjálfbjarga ökumanni þegar kemur að óálitlegum akstursaðstæðum. Það eru ekki svo lítil meðmæli.

Ein allra bestu jeppakaupin

Íslendingar eru alvanir því að kaupa sér jeppa og þar af leiðandi vanir því að reiða fram upphæðir fyrir þá. Það ætti því að koma flestum ánægjulega á óvart að Toyota Hilux er merkilega billegur fyrir jeppann sem hann er. Fallegt útlit, vandaður frágangur innandyra og framúrskarandi aksturseiginleikar utan vega fæst hér fyrir mjög sanngjarnt verð. Ódýrasta útfærslan, LX, fæst sem fyrr segir frá því að kosta tæpar sex milljónir, GX er frá 6.370 þús. og íburðarmesta gerðin, VX, kostar frá 6.990 þús. Þegar allt er sett upp á strik er betri kostur vandfundinn. Nýjasta kynslóð Toyota Hilux er hreint frábær jeppi.

„Það ætti að koma flestum ánægjulega á óvart að Toyota …
„Það ætti að koma flestum ánægjulega á óvart að Toyota Hilux er merkilega billegur fyrir jeppann sem hann er.“
Blaðamaður flaug alla leið suður til Namibíu til að reyna …
Blaðamaður flaug alla leið suður til Namibíu til að reyna Hilux við krefjandi aðstæður í villtri náttúru.
„Um stund líður manni hreinlega eins og í Land Cruiser.“
„Um stund líður manni hreinlega eins og í Land Cruiser.“
„Að innan er frágangurinn sérlega smekklegur,“ segir höfundur.
„Að innan er frágangurinn sérlega smekklegur,“ segir höfundur.
„Þar sem minni spámenn sökkva í sandinn og spóla sig …
„Þar sem minni spámenn sökkva í sandinn og spóla sig samstundis fasta tókst Hilux að sigla af öryggi upp og niður heilu hlíðarnar “
Tæknin hjálpar til. Mismunadrifslæsing að aftan, stöðugleikastýring, virk spólvörn og …
Tæknin hjálpar til. Mismunadrifslæsing að aftan, stöðugleikastýring, virk spólvörn og margt fleira.
Tæknin hjálpar til. Mismunadrifslæsing að aftan, stöðugleikastýring, virk spólvörn og …
Tæknin hjálpar til. Mismunadrifslæsing að aftan, stöðugleikastýring, virk spólvörn og margt fleira.
Tæknin hjálpar til. Mismunadrifslæsing að aftan, stöðugleikastýring, virk spólvörn og …
Tæknin hjálpar til. Mismunadrifslæsing að aftan, stöðugleikastýring, virk spólvörn og margt fleira.
Stór margmiðlunarskjárinn er skýr og með vel heppnað viðmót.
Stór margmiðlunarskjárinn er skýr og með vel heppnað viðmót.
Hilux er fagur jeppi en þolir heldur betur að vera …
Hilux er fagur jeppi en þolir heldur betur að vera tekinn til kostanna.
Hilux er fagur jeppi en þolir heldur betur að vera …
Hilux er fagur jeppi en þolir heldur betur að vera tekinn til kostanna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: