Eitt trylltasta tryllitækið

„Hljóðið er svo kapítuli út af fyrir sig; því verður …
„Hljóðið er svo kapítuli út af fyrir sig; því verður best lýst sem skerandi öskri. Mjög áhrifaríkt, bæði fyrir ökumann og þá gangandi vegfarendur sem heyra til hans.“ mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Allir þekkja núorðið Ford Focus enda hefur bíllinn notið mikilla vinsælda hérlendis síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið á öldinni sem leið. Semsé þekkt stærð í það heila og fátt út af fyrir sig sem kemur á óvart. Rétt? Rangt!

Sá einstaklingur sem sest undir stýri á Ford Focus RS og segir þar fátt koma á óvart er annað hvort ósannindapési eða einfaldlega í losti eftir aksturinn. Bíllinn er hreint ótrúlega skemmtilegur, leiftrandi kraftmikill og skemmtilegur í akstri.

Vó – er ég að fara að aka þessu?

Hönnuðir margra smærri sportbíla – sem búa annars yfir yfrið nægum hestum og eru hinir ágætustu til aksturs í það heila – fara flatt á því að ljá þeim almennilegt útlit, og bílarnir verða bara vandræðalegir og tilgerðarlegir. Hönnuðir Focus RS hafa aftur á móti hitt naglann akkúrat á höfuðið og hann er hörkuflottur, í einu orði sagt. Bíllinn sem blaðamaður reyndi er svartur og satt að segja á ég bágt með að ímynda mér betri lit á bílinn. Svartur tónar niður útlitið og ljær bílnum nánast ógnvekjandi ásýnd, í stað þess að hann sé allur á útopnu í skræpóttum litum. Framendinn er sá laglegasti sem undirritaður hefur séð á Ford Focus, fyrr eða síðar, og frágangurinn í kringum púströrin undir afturstuðaranum er að sama skapi sérlega vel af hendi leystur. Útlitið gengur einfaldlega upp, hringinn í kring, og það er fátt, ef þá nokkuð, sem gefur tilefni til athugasemda eða aðfinnslna. Focus RS gefur ákveðin fyrirheit með útliti sínu og við þau er staðið, á minn sann.

Og svo er stokkið af stað

Um leið og bílstjórahurðin er opnuð sést framhald á ytra útliti bílsins. Framsætin eru hyldjúpar fötur sem ríghalda ökumanni og farþega frammi í í sætum sínum og hér haggast enginn þó bíllinn sé tekinn í krappar beygjur. Mannskapurinn er hreinlega í skrúfstykki, að hluta til sætanna vegna og að hluta til spenningsins vegna. Ekki veitir heldur af sómasamlegu aðhaldi þegar fjórar akstursstillingar eru í boði; Normal, Sport, Race og Drift. Þessi bíll vill að sér sé ekið af alvöru og sé ökumaðurinn tilbúinn að slá í klárinn lætur hann ekki segja sér það tvisvar. Þetta er eitt allra viljugasta ökutæki sem ég hef prófað. Stillingarnar Race og Drift eru reyndar merktar þannig að eingöngu er ætlast til þess að í þeim stillingum sé bílnum aðeins ekið á braut eða þar til gerðu svæði. Mælst er þannig til þess að góðborgararnir séu ekki hrelltir með akstri bílsins í þeim ham og við því var orðið. Bíllinn reyndist nógu hrottalega skemmtilegur í fyrstnefndu tveimur stillingunum og eftirsjáin því með minna móti. Og já, það kom á daginn að það veitir ekki af djúpum sætum. Í þessum bíl verka sterkir eðlisfræðikraftar á viðstadda. Að öðru leyti er Focus RS í fáu svo mjög frábrugðinn hefðbundnum Focus, ef til vill í þeim tilgangi að halda vigtinni í skefjum. Það er þá alltént mjög góður málstaður að fórna auknum búnaði fyrir. Því má bæta við að sætin, sem eru ómissandi í styttri og snarpari ökuferðum, segja svolítið til sín þegar líður á langkeyrslu. Ökumaður tekur að lýjast í fótunum þar sem hann situr í „jötungripinu“ og fær sig vart hrært.

Endalaus orka

Ford Focus RS býr að því að vera bíll með einkar hagstætt hlutfall milli þyngdar (rétt um eitt og hálft tonn) og hestafla – 350, góðir hálsar. Það þýðir að krafturinn og togið fá óáreitt að láta ljós sitt skína og það skín svo sannarlega, frá fyrsta gír til þess sjötta. Beinskiptur gírkassinn er hreinasta afbragð. Stutt er á milli gíra í sveig gírstangar talið og hér má skipta um gír eins og um rallýbíl væri að ræða. Bíllinn rýkur af stað í fyrsta gír og þegar komið er að því að skipta frá 5. yfir í þann 6. á hann ennþá nóg inni til að spóla hreinlega af krafti milli gíra, flóknara er það nú ekki. Þegar komið er út á veg og bílnum gefið almennilega inn þarf reyndar að halda styrkri hönd á stýri, slíkt er aflið. Þessi bíll hentar vart ökumönnum undir tvítugu því á táningsaldri er hlutfall ungra ökumanna með skerta dómgreind óþarflega hátt, eins og tölfræði bílslysa hér á landi sýnir glögglega. Þetta er einfaldlega tæki sem ekki er barna meðfæri, og hananú.

En fyrir þá sem kunna með að fara þá er stýringin glettilega góð miðað við aflið og bíllinn liggur eins og límdur við veginn í beygjum. Hljóðið er svo kapítuli út af fyrir sig; því verður best lýst sem skerandi öskri. Mjög áhrifaríkt, bæði fyrir ökumann og þá gangandi vegfarendur sem heyra til hans. Það dró aðeins úr gleðinni að sjá að bíllinn verður talsvert þyrstur af því að taka á því og var eyðslan í um 11 lítrum, en sjálfsagt má halda henni niðri með rólegum akstri. Á móti mætti færa rök fyrir því að til þess sé lífið of stutt.

Gríðarlega spennandi valkostur

Tveir bílar hafa öðrum fremur ráðið þeim hluta bílamarkaðarins sem Ford Focus RS tilheyrir, VW Golf GTi og Subaru Impreza. Ekki er hægt að velkjast í vafa um að Focus RS mun blanda sér mjög alvarlega í baráttuna í þessum flokki því hann er framúrskarandi vel heppnaður. Fyrir tæpar sjö milljónir króna felst vitaskuld ákveðin skuldbinding í bílnum, en sé maður á annað borð á höttunum eftir tæki af þessu tagi þá toppar Ford Focus RS sína keppinauta með talsverðum glans um þessar mundir. Það er óhætt að spá þessum sportbíl miklum vinsældum því hann stendur undir íburðarmiklu lýsingarorðunum og rúmlega það.

Ford Focus RS á enn mikið inn í hæsta gír …
Ford Focus RS á enn mikið inn í hæsta gír og spólar af orku þegar skipt er milli gíra. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Púströrin gefa afturhluta bílsins óneitanlega aukinn þokka.
Púströrin gefa afturhluta bílsins óneitanlega aukinn þokka. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Halda þarf fast um stýrið þegar stigið er af krafti …
Halda þarf fast um stýrið þegar stigið er af krafti á bensíngjöfina. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Hvert smáatriði er sportlegt á þessari stílfærðu rakettu.
Hvert smáatriði er sportlegt á þessari stílfærðu rakettu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Vissara er að skorða matarinnkaupin vel ef þenja á vélina.
Vissara er að skorða matarinnkaupin vel ef þenja á vélina. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Farþegar geta átt von á æsispennandi bíltúr í þröngu rými.
Farþegar geta átt von á æsispennandi bíltúr í þröngu rými. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Sætin faðma ökumanninn sem getur verið óþægilegt til lengdar.
Sætin faðma ökumanninn sem getur verið óþægilegt til lengdar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Sumir hlutar bílsins minna helst á herþotu.
Sumir hlutar bílsins minna helst á herþotu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Stýringin er léttilega góð miðað við aflið í bílnum.
Stýringin er léttilega góð miðað við aflið í bílnum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Gírskiptingin er eins og fengin úr rallýbíl.
Gírskiptingin er eins og fengin úr rallýbíl. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: