Glæsileiki og gæsahúð

Það er með ólíkindum að 2,5 tonna bíll skuli geta …
Það er með ólíkindum að 2,5 tonna bíll skuli geta ekið svona hratt, svona áreynslulaust. Continental GT Speed er ögn lengur upp í hundraðið en margir ofursportbílar sem eru mun léttari. Ljósmynd/Youssef Diop

Í meira en ár hafði ég verið í reglulegu sambandi við fólkið hjá Bentley til að sjá hvort það ætti eitthvað á lausu fyrir íslenskan bílablaðamann. Svo kom loks að því: Continental GT Speed blæjubíll; Marokkó-blár; sækja í Vínarborg og skila á sama stað fimm dögum síðar.

Þá gerðist eitthvað undarlegt innra með mér. Ég hafði nefnilega lengi séð Continental GT í hillingum sem hinn fullkomna bíl. Hann hittir einmitt á rétta punktinn milli þess að vera virðulegur og sportlegur. Hann hentar til að fara í óperuna en lætur líka flesta kagga líta út eins og kassabíla í samanburði. Hlaðinn íburði en þó ekki þannig að farið sé langt yfir strikið eins og hjá Rolls Royce. Mér leið eins og ég væri að fara á draumastefnumótið, og fannst ég hafa mánuð til að gera mig samboðinn bílnum. Ég þyrfti helst að missa nokkur kíló, taka smá lit og kannski fjárfesta í nýrri skyrtu. Ef ég þyrfti að gista á hótelum myndi ekki duga neitt minna en fjórar stjörnur. Að vera lagt fyrir utan þriggja stjörnu hótel væri fyrir neðan virðingu þessa bíls.

Eftir fimm daga samveru með bláu drossíunni, með viðkomu í Salzburg, München, Prag, Bratislava og Búdapest, get ég sagt að Bentleyinn stóð fyllilega undir væntingum, en eins og með alla draumaprinsa var ekki hægt að vænta þess að sambúðin gengi alveg hnökralaust fyrir sig.

Skuggalega stór

Það fyrsta sem ég rak mig á er hvað bíllinn er fyrirferðarmikill. Bak við stýrið líður manni eins og Continentallinn fylli alveg út í akreinina og fyrir blaðamann á ósköp venjulegum launum voru taugarnar þandar þegar kom að því að leggja ferlíkinu. (Það stóð skýrum stöfum í lánssamningnum að ég bæri ábyrgð á fyrstu 5.000 evrunum af viðgerðarkostnaði ef eitthvað skemmdist). Sem betur fer eru fjarlægðarskynjarar á öllum hliðum en engu að síður hefði ég ekki viljað vera án aðstoðarmanns þegar ég t.d. þurfti að komast út úr þröngum bílastæðakjallara hótelsins í München og smokra bílnum á milli steypustólpanna sem halda þakinu uppi.

Stressið hverfur hins vegar alveg úti á þjóðvegunum með toppinn niðri. Bíllinn er níðþungur, nærri 2,5 tonn að þyngd, en 6,0 lítra W12-vélin þeytir þessum skriðdreka áfram áreynslulaust, og að klífa upp bratta fjallvegina í SA-Þýskalandi var eins og að aka á jafnsléttu á öðrum bílum.

Áður en lengra er haldið er rétt að fræða lesendur um Continental GT Speed. Þessi bíll er „flaggskipið“ í Bentley-línunni í dag, enda sá söluvænlegasti. Þetta er bíll fyrir almenna (en mjög fjársterka) ökumenn á meðan Mulsanne og Flying Spur eru helst fyrir þjóðarleiðtoga og auðkýfinga sem vilja sitja í aftursætinu. Hvar nýi Bentayga-jeppinn lendir á svo eftir að koma í ljós.

Speed-útgáfurnar hjá Bentley taka eldri módel, uppfæra þau og setja aukinn kraft í vélina. Continental GT Speed er með nærri 630 hestöfl undir húddinu og er því hraðskreiðasti fjöldaframleiddi Bentleyinn til þessa.

Einnig er rétt að undirstrika hve mikill metnaður er lagður í alla smíði og frágang. Þaulvanir handverksmenn nostra við hvert smáatriði og lúxusinn er hvergi sparaður. Sem dæmi er Breitling-klukka í miðju mælaborðinu og glasahaldararnir á milli farþega- og ökumannssætis eru faldir með gleraugnahulstri sem kostar sennilega meira en dýrustu sólgleraugun sem finna má í Kringlunni.

Maður finnur fyrir gæðunum strax og sest er inn í bílinn. Allt virðist svo „gegnheilt“ einhvern veginn, og unaðslegt viðkomu. Mann langar helst að þukla hvern krók og kima eins og á fagurlega vöxnum elskhuga.

Eins og hugur manns

Aksturinn er alveg áreynslulaus, og dekkin eins og límd við malbikið. Það er engu líkt að vera með blæjuna niðri á þýskri hraðbraut og spana vel yfir 230 km/klst af fullkomnu öryggi. Sama gilti með hlykkjóttan skógarveg sem við fundum á leiðinni til Tékklands, þar sem hver beygjan á fætur annarri birtist upp úr þurru. En sama þótt ekið væri fullgreitt smaug bíllinn í beygjurnar, alveg eins og hugur manns.

Þegar svona bíll er annars vegar er ekki auðvelt að telja upp ókosti. Blæjuþakið minnkar ögn rýmið í skottinu en þar mætti samt koma fyrir nóg af farangri. Hljóðkerfið var ekki eins gott og ég vænti en hljóðið samt þrusufínt miðað við blæjubíl og enginn vandinn að tala handfrjálst í gegnum símakerfið þó toppurinn væri niðri. Þá kemur bílinn með vindhlíf, sem er ekki nauðsynleg en eykur á þægindin þegar þakið er opið. Hlífin stelur plássi í skottinu þegar hún er ekki í notkun og þarf helst tvo til að koma henni fyrir á réttum stað á bak við framsætinn.

Stærstu vonbrigðin voru kannski þau að bíllinn vakti ekki þá athygli og aðdáun annarra vegfarenda sem ég hafði búist við. Var það annað en þegar ég ók á Lamborghini um Flórens fyrr í sumar, þar sem allir göptu og veifuðu. Í Þýskalandi var varla nokkra athygli að fá, jafnvel þó ég stillti vélina á „sport“-stillingu til að fá ofsafengnara hljóð út um púströrið. Í Prag fóru nokkrir símar á loft og það var ekki fyrr en komið var til Búdapest að fólkið á gangstéttunum og í bílunum um kring fór að brosa og gefa velþóknun sína til kynna með handabendingum.

Sólmyrkvi hjartans

Að þessu sögðu var það erfið stund að skilja við Continentalinn. Þegar ég sá það að á GPS-tækinu að aðeins væru tíu mínútur eftir á áfangastað í Vín kom yfir mig djúpstæður tregi.

Söngur Bonnie Tyler fyllti farþegarýmið. „Turn around. Every now and then I get a little bit nervous that the best of all the years have gone by,“ söng hún. Höfðu þessir stuttu dagar kannski verið hápunkturinn? Yrði tilveran aldrei eins skemmtileg og þegar við brunuðum saman um tékkneska skóginn undir eldrauðum kvöldhimninum, eða þegar við þræddum fjallvegina í Þýskalandi? Ég kveikti á nuddinu í sætinu til að hugga mig síðasta spölinn.

„Nothing I can say, a total eclipse of the heart“, söng Bonnie. „Sólmyrkvi hjartans“ er kannski það sem lýsir best þeirri tilfinningu þegar maður verður viðskila við 64 milljóna króna drossíu og þarf að labba í tuttugu mínútur út á lestarstöð til að komast heim. Í nokkra daga hafði ég fengið að þykjast vera ríkur og merkilegur, á flottasta bílnum á götunni, og nú var ég aftur orðinn einn af almúganum, og beið eftir lestinni, sólbrenndur á eyrunum.

Skottið er ekki það stærsta en ætti að rúma nægan …
Skottið er ekki það stærsta en ætti að rúma nægan farangur fyrir tvo. Meðalstór bakpoki til samanburðar.
Á löngum þjóðvegum Evrópu var aksturinn alveg áreynslulaus. Sjálfvirk hraða- …
Á löngum þjóðvegum Evrópu var aksturinn alveg áreynslulaus. Sjálfvirk hraða- og fjarlægðarstilling gerði ferðalagið enn þægilegra. Stutt stopp á leiðinni inn í Slóvakíu.
Nudd og heitur og kaldur blástur eru í báðum framsætunum.
Nudd og heitur og kaldur blástur eru í báðum framsætunum.
Þegar toppurinn er uppi er útsýnið ögn takmarkað en þó …
Þegar toppurinn er uppi er útsýnið ögn takmarkað en þó ásættanlegt.
Breitling klukka er á besta stað og allt gegnheilt og …
Breitling klukka er á besta stað og allt gegnheilt og ekta.
Aftursætin eru fyrir fólk í nettari kantinum, og bæði djúp …
Aftursætin eru fyrir fólk í nettari kantinum, og bæði djúp og sportleg.
Það væsir ekki um ökumann og farþega þó þakið sé …
Það væsir ekki um ökumann og farþega þó þakið sé fellt niður.
Undir húddinu eru fleiri hestöfl en í Lamborghini Huaracán.
Undir húddinu eru fleiri hestöfl en í Lamborghini Huaracán.
Gírstöngin er glæsileg í Bentley Continental GT.
Gírstöngin er glæsileg í Bentley Continental GT.
Vel fer um ökumann og farþega í framsætum.
Vel fer um ökumann og farþega í framsætum.
Bentley Continental GT Speed.
Bentley Continental GT Speed.
Bentley Continental GT Speed
Bentley Continental GT Speed
Bentley Continental GT Speed
Bentley Continental GT Speed
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: