(Raf)magnaður smellur frá Kia

Svipur framljósa og grillsins er í línu við aðrar gerðir …
Svipur framljósa og grillsins er í línu við aðrar gerðir Kia um þessar mundir, þó Niro marki sér óneitanlega sérstöðu enda sá fyrsti í sínum flokki. Stór smábíll eða nettur borgarjepplingur? Gildir svosem einu.

Bílaframleiðandinn Kia hefur verið á beinu brautinni upp á við síðan Þjóðverjinn Peter Schreyer tók þar við sem hönnunarstjóri fyrir fáeinum árum. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af viðsnúningi þessa vörumerkis og í dag er Kia eitt vinsælasta bílamerkið á markaðnum hér á landi.

Sjö ára ábyrgð hefur þar sitt að segja en slíkt dugir ekki eitt og sér; Kia eru heilt yfir fallegir bílar og góðir í akstri, og nýjasta útspilið, Niro, sver sig í ættina hvað þetta varðar. Svei mér ef Askja, umboðsaðili Kia hér á landi, er ekki með spaðaás hér á hendi. Hér eru nefnilega töluverð tíðindi að eiga sér stað.

Augljós skyldleiki

Það vildi lengi loða við rafbíla og tengi-tvinnbíla sömuleiðis að vera hálfeinkennilegir útlits, þökk sé nokkrum frumherjum á markaðnum. Kia hefur blessunarlega komist hjá þessu og Kia Niro er reffilegur bíll að sjá og í stærðarflokki þar sem fáir eru fyrir; einhvers konar millistig á milli jepplings og station-bíls. Hönnunin gengur upp og bíllinn stenst þar af leiðandi fyrsta prófið; hann lítur ljómandi vel út. Framendinn sver sig í ættina með framgrillinu sem sjá má á öðrum Kia-bílum nú um stundir og yfirbyggingin í heild gengur vel upp. Bíllinn virkar þéttur og traustvekjandi. Þykkur hurðaskellur ýtir undir tilfinninguna og tilfinningin við fyrstu sýn er góð. Það kemur ökumanni nokkuð í opna skjöldu hvað plássið er gott innandyra. Bíllinn virkar ekki tiltakanlega stór að utan – enda er hér um borgarbíl að ræða öðru fremur – en að innan er rýmið prýðilegt. Ekki búast við harðviði eða öðrum þunglamalegum innréttingarefnum því þessi bíll er í grænu deildinni og því allt eins létt og hægt er (hlutar af yfirbyggingu eru úr áli og aðrir úr sérstyrktu en léttu stáli) en engu að síður er innréttingin og innra byrðið allt einkar smekklegt að sjá. Upplýsingagjöf um snertiskjáinn er fín og auðvelt að glöggva sig á því sem þarft er að vita, og svo sem vant er með Kia-bíla tekur Niro á móti ökumanni með hljómfögru stefi við start.

Svifið um þjóðvegina, siglt um strætin

Þegar tekið er af stað virkar Niro áfram jafn vel og fyrsta sýn gaf til kynna. Vélin er sérlega hljóðlát, líka þegar bensín- og rafmótorinn vinna saman við að knýja bílinn. Fjöðrunin er nokkuð stíf svo hann situr vel á vegi, líka þegar ekið er greitt, en á móti skila ójöfnur sér upp í sætið. Og það er einmitt þá sem undrin gerðust, þegar bíllinn var tekinn til reynsluaksturs fyrr í sumar í nágrenni Barcelona, nærsveitum sem og þjóðvegum. Á meðan aðrir blendingsbílar skipta yfir í jarðeldsneytið um leið og bíllinn fer yfir 50-60 km/klst. ellegar endast ekki á rafmagninu einu saman nema í örfáa tugi kílómetra, þá fór Niro á rafmagninu upp í rúmlega 100 km/klst., og fór létt með það. Um leið hleður hann rafhlöðuna og þar liggur galdurinn, að segja má. Það má ímynda sér ákveðna hringrás hvað þetta varðar. Þegar bílnum er ekið er hann um leið að búa til orku sem fer inn á rafhlöðuna og um leið fer orka af rafhlöðunni og til hjólanna til að knýja bílinn áfram. Það er því alltaf einhver útgáfa af umhverfisvænum akstri í gangi; annaðhvort er rafmagnið að hjálpa bílnum við að halda eyðslunni niðri eða þá að bíllinn fer eingöngu áfram á rafmagninu, eða er að hlaða rafhlöðuna til seinni nota.

Burtséð frá þessum umhverfisvænu eiginleikum var bíllinn snarpur og lipur í snúningum innan smábæja sem ekið var í gegnum, og að sama skapi var hann fantagóður í langkeyrslum.

Valkostur sem mun láta að sér kveða á næstunni

Á hinum sístækkandi markaði rafbíla, blendinga og tvinntengibíla verður krafan um fallegt útlit og skemmtilega aksturseiginleika sífellt háværari, og þar kemur Kia Niro óneitanlega sterkur inn. Hann er ekki skrýtinn í útliti eins og sumir sem ganga á rafmagni (þið vitið hverjir þið eruð!) og felur í sér velheppnað millistig jepplings og netts borgarbíls. Verðið gerir hann líka sérlega samkeppnishæfan og við undirrituðum blasir að Niro mun ýta undir áframhaldandi sókn Kia hér á landi.

Kunnugir sjá eflaust svip með Kia Sportage og Niro hvað …
Kunnugir sjá eflaust svip með Kia Sportage og Niro hvað skotthlerann varðar og ekki leiðum að líkjast. Hönnunin er bráðvel heppnuð.
Það er býsna veglegt um að litast innan dyra, jafnvel …
Það er býsna veglegt um að litast innan dyra, jafnvel umfram það sem vænta mætti af bíl í þessum verðflokki. Kia eru með tromp á hendi.
Kia Niro er vel búinn tækjum, eins og Kia-bílar hafa …
Kia Niro er vel búinn tækjum, eins og Kia-bílar hafa á sér orð fyrir, öllu haganlega komið fyrir og auðvelt að tileinka sér tæknina.
Eins og er með rými fyrir ökumann og farþega, þá …
Eins og er með rými fyrir ökumann og farþega, þá leynir Niro á sér þegar kemur að því að nýta farangursrýmið. Að því leytinu enginn smá bíll!
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: