Nýr kafli í lúxusjeppasögunni

Mercedes-Benz 350d er stór, rúmgóður, sparneytinn, kraftmikill og síðast en …
Mercedes-Benz 350d er stór, rúmgóður, sparneytinn, kraftmikill og síðast en ekki síst verulega flottur á að líta, fyrir utan hvað verðið er gott. Sérlega áhugaverður kostur í sínum flokki, vægast sagt. mbl.is/Golli

Mercedes-Benz hefur endurskírt jeppalínu sína á síðustu mánuðum og misserum um leið og týpurnar hafa fengið uppfærslur hvað varðar útlit, búnað og aksturseiginleika.

Hin nýja kynslóð jeppafjölskyldunnar frá Benz er vel heppnuð, oft framúrskarandi, og nægir í því sambandi að nefna GLE 550e plug-in hybrid sem er í talsverðum sérflokki.

Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem undirritaður beið þess að fá að taka í flaggskipsjeppann, GLS, sem áður hét GL. Það er töluvert undir hjá Mercedes-Benz þegar þessi bíll er annars vegar því þetta er ígildi S-Class í jeppahluta framleiðandans og eftir því mikilvægt að hann standi undir væntingum. Skemmst er frá því að segja að það gerir hann, og gott betur. Mercedes-Benz GLS er hreint út sagt frábær jeppi.

Voldugur bíll að sjá á vegi

Bíllinn sem tekinn var til kostanna nefnist í heildina GLS 350d, með dúndursprækri 3ja lítra V6 díselvél. Nánar að henni síðar.

Það er í sjálfu sér engin bylting fólgin í útliti GLS-jeppans, enda byltingar ekki þörf. Hann byggist í aðalatriðum á forveranum GL og svipurinn rímar í flestu við aðra fjölskyldumeðlimi Benz um þessar mundir. Það slær mann þó við fyrstu sýn hversu stór GLS er, og lengdin gríðarleg. Þó er enginn trukkasvipur á bílnum því fágunin er hér í öndvegi og hönnunin ljómandi vel heppnuð; GLS myndar þar gott mótvægi við hinn stóra jeppann frá Benz, G-Class, því sá hefur hörkuna til að bera í útlínum á meðan þessi skartar fáguðum línum hringinn í kring.

Að innan er allt eins og búast má við hjá Mercedes-Benz, gírsveifin hægra megin í stýrinu og stjórnborð með snúningsrofum í miðjustokk á milli sæta. Þetta er fínt fyrirkomulag og fljótt að venjast. Eins og við er að búast má stilla framsætin fram og til baka á alla kanta og það sést þegar í stað að plássið sem yfirbygging bílsins lofar við fyrstu sýn er hér allt til staðar og rúmlega það. Hátt til lofts og vítt til hurða. Í bílnum sem reynsluekið var voru tvær topplúgur, ein yfir framsætum og ein yfir miðjubekk. Engri lúgu var til að dreifa fyrir þriðju sætaröðina og það hefði farið betur á því að hafa bara glerþak á öllum bílnum í stað þess að hafa tvær aðskildar minni lúgur. Ef til vill tilheyrir það dýrari gerðunum af GLS. Að því sögðu væsir ekki um farþega í þriðju sætaröð og með nokkrum ólíkindum hversu gott plássið er þar. Svo fremi sem ekki er um að ræða landsliðsmenn í körfubolta ættu farþegar að geta látið fara vel um sig á aftasta bekk. Með því að styðja á hnapp fella sætin sig rafrænt niður og bakið á þeim verður þá að gólfinu í skottinu, sem verður þar með flennistórt með feikinægu farangursrými. Sami hnappur rafmagnar sætin í upprétta stöðu á ný. Mjög notendavænn frágangur og Benz til hróss að búa svo vel um hnútana.

Nóg af togi fyrir tveggja og hálfs tonns bíl

Þeir hjá Mercedes-Benz eru eldri en tvævetur þegar kemur að hönnun og framleiðslu lúxusjeppa og því vita þeir sem er að megnið af tímanum ferðast bílar eins og GLS um á malbiki. Hann er því búinn fjórum fastmótuðum akstursstillingum – Comfort, Sport, Snjó og Torfærum, ásamt fimmtu stillingunni sem kallast „Individual“og gerir eigandanum kleift að forrita stillingu eftir eigin höfði. Ekki gafst kostur á að prófa bílinn í snjó né á tiltakanlega torfærum vegum að þessu sinni, en Comfort-stillingin plumaði sig mjög vel á holóttum malarvegum í Heiðmörk og Sport-stillingin gerir bílinn að glettilega sprækum borgarbíl. Það er nefnilega svo að þó bíllinn vegi um tvö og hálft tonn, og hestöflin séu „aðeins“ 258, þá er togið 620 Nm og bíllinn því fráleitt einhver letihaugur í akstri. Þvert á móti er hann snarpur upp og af stað, og stíf fjöðrunin í Sport-stillingunni rígheldur honum við veginn, á meðan Comfort leyfir honum svolítið vagg í beygjum. En þá er aksturinn líka rjómamjúkur. Það tekur ekki nema smell með snúningshnappi að skipta milli Comfort og Sport og því minnsta málið að laga bílinn að aðstæðum hverju sinni. Þannig er hann upp á sitt besta og þá er hann líka hreinasta afbragð. GLS vakti semsagt stormandi lukku á alla kanta.

Þvílík kaup fyrir þetta verð!

Undanfarið hafa margir áhugaverðir bílar í efri þrepum gæðastigans verið fáanlegir á ótrúlega góðu verði sökum þess að um tengi-tvinnbíla eða hreina rafbíla er að ræða og bílarnir falla fyrir bragðið í núllflokkinn margrómaða við tollafgreiðslu. Verulega vandaðir jeppar eru semsé fáanlegir á bilinu 10-13 milljónir og telst það býsna gott. Hvernig Askja getur aftur á móti boðið GLS frá 13 milljónum hlýtur að teljast ákveðið rannsóknarefni því það er á skjön við allt sem heilbrigð skynsemi segir til um! Og það er ekki allt.

Hvernig tekst að halda eyðslunni í blönduðum akstri í 7,8 lítrum í blönduðum akstri er alveg galið. Undirritaður fór ekki út á land svo hann gat ekki fyllilega sannreynt töluna en best náði ég í rétt um 9 lítrana. Fyrir bíl sem er jafn þungur og mikill þá er það glæsilegt.

Hvernig hægt er að koma þriðju sætaröðinni fyrir með jafn haganlegum hætti og raun ber vitni er líka alveg galið, og ekki síður þegar hún fellur flöt og hverfur í skottgólfið þegar ýtt er á hnapp. Þar með er bíllinn hæfur til búslóðarflutninga, liggur mér við að segja.

Það er því ekki ofsagt að með GLS hefur nýr kafli opnast í sögu lúxusjeppa og Mercedes-Benz bætir við fjöður í hattinn margfræga. Verulega flottur jeppi, hlaðinn búnaði, sparneytinn og rúmgóður, á verði sem telst í besta falli ótrúlegt.

Díselvélin skilar 620 Nm togi til hjólanna og það gerir …
Díselvélin skilar 620 Nm togi til hjólanna og það gerir þennan stóra jeppa furðulega sprækan og lipran í akstri. mbl.is/Golli
Það má segja að lágstemmdur lúxus svífi yfir vötnum hvað …
Það má segja að lágstemmdur lúxus svífi yfir vötnum hvað mælaborð og innréttingu varðar. mbl.is/Golli
Hér hefur sæti lengst til hægri í miðjubekk verið fellt …
Hér hefur sæti lengst til hægri í miðjubekk verið fellt niður og við það verður til gott aðgengi fyrir aftasta bekkinn. Plássið er gott eins og sjá má. mbl.is/Golli
GLS 350d hefur fágunina til að bera fyrir borgina en …
GLS 350d hefur fágunina til að bera fyrir borgina en að sama skapi dugar hann vel utan vega. mbl.is/Golli
Línurnar á GLS-jeppanum eru kunnuglegar en þó smekklega uppfærðar milli …
Línurnar á GLS-jeppanum eru kunnuglegar en þó smekklega uppfærðar milli kynslóða. mbl.is/Golli
Hér sést farangursrýmið þegar aftasta sætaröð er uppi.
Hér sést farangursrýmið þegar aftasta sætaröð er uppi. mbl.is/Golli
Með því að styðja á hnapp fellast sætin rafrænt niður …
Með því að styðja á hnapp fellast sætin rafrænt niður og hverfa. Um leið verður til mikið farangursrými. mbl.is/Golli
GLS 350d hefur fágunina til að bera fyrir borgina en …
GLS 350d hefur fágunina til að bera fyrir borgina en að sama skapi dugar hann vel utan vega. mbl.is/Golli
GLS 350d hefur fágunina til að bera fyrir borgina en …
GLS 350d hefur fágunina til að bera fyrir borgina en að sama skapi dugar hann vel utan vega. mbl.is/Golli
GLS 350d hefur fágunina til að bera fyrir borgina en …
GLS 350d hefur fágunina til að bera fyrir borgina en að sama skapi dugar hann vel utan vega. mbl.is/Golli
Það væsir ekki um ökumann nema síður sé, til þess …
Það væsir ekki um ökumann nema síður sé, til þess er efnisval allt og búnaður GLS 350d alltof góður. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: