Það sem Ítalir myndu kalla málamiðlun

Eitt óvenjulegasta sérkenni GTC4Lusso er að bæði fram- og afturhjólin …
Eitt óvenjulegasta sérkenni GTC4Lusso er að bæði fram- og afturhjólin beygja. Fyrir vikið þýtur þessi ítalski ofurbíll af miklu öryggi í krappar beygjur á miklum hraða.

Eflaust er ég ekki einn um það að láta mig stundum dreyma og skoða erlendar vefsíður sem selja notaða ofurbíla. Alltaf skal það koma mér jafn mikið á óvart hvað flottustu bílunum hefur verið lítið ekið.

Hjá bresku bílasölunni H.R. Owen er til dæmis núna auglýstur til sölu Lamborghini Aventador árgerð 2013, ekinn aðeins 17.700 km. Það jafngildir því að eigandinn hafi ár hvert farið átta skottúra frá Reykjavík til Akureyrar og til baka.

Ég skil ekkert í þessum tölum, og ímynda mér að ef ég ætti svona draumabíl myndi ég nota hvert minnsta tækifæri til að aka honum og fara í langa bíltúra allar helgar. En raunin er að þótt það kitli endorfín- og adrenalínstöðvar heilans að aka um á fallegu tryllitæki þykja ofurbílarnir ekkert sérstaklega hentugir til daglegs brúks. Útsýnið er oft takmarkað, fjöðrunin stíf, sætin lág og þröng, aðeins pláss fyrir einn farþega og varla meira en tvo-þrjá innkaupapoka, og stuðarinn svo nálægt jörðinni að aka þarf löturhægt yfir hraðahindranir. Þeir sem hafa efni á ofurbílum hafa líka ráð á að kaupa góðan jeppa eða drossíu til að nota þegar skjótast þarf út í búð eða skutlast út á flugvöll og skilja þá tryllitækið eftir heima.

690 hestöfl og fjögur sæti

Ferrari GTC4Lusso er, rétt eins og fyrirrennarinn Ferrari FF, ofurbíll sem á að brúa bilið á milli tveggja heima: undir húddinu er 12 strokka vél sem framleiðir 690 hestöfl en samt er skottið rúmgott (allt að 800 lítrar þegar aftursætin eru felld niður!). Pláss er fyrir fjóra, og aftursætin rúma hvort heldur barnabílstól eða hávaxinn karlmann. Áhersla á notagildið er áberandi í markaðsefni Ferrari og myndavalið undirstrikar hvað bíllinn á að henta vel til aksturs í snjó og hálku. Hér er kominn ofurbíll sem má aka alla daga, nota til að sækja börnin í skólann en slá kvartmílumet þess á milli.

Það er ekta ítölsk málamiðlun að freista þess að smíða bíl sem er bræðingur af hreinræktuðum sportbíl og „grand tourer“ lúxuskerru. En þýðir það kannski að GTC4Lusso sé hvorki fugl né fiskur?

Kaupendur virðast alltént vera hrifnir af þessari blöndu. Ferrari FF seldist vel og eigendurnir óku þeim bíl 50% fleiri kílómetra árlega en eigendur annarra Ferrari-módela. Meðalkaupandinn var 10 árum yngri, eða nokkurn veginn á þeim aldri sem vænta má að börn og unglingar séu enn á heimilinu.

En þar sem ég ók brakandi nýjum GTC4 um sveitirnar umhverfis Maranello varð mér hugsað til þess þegar ég fór fyrir mörgum árum á mjög ánægjulegt stefnumót með afskaplega áhugaverðri manneskju: huggulegheitin holdi klædd, í góðu starfi og með gráðu frá fínum háskóla, og meira að segja af góðum ættum. Þá, rétt eins og bak við stýrið á GTC4, gat ég ekki fundið neina galla til að kvarta yfir – en samt var eins og neistinn vildi ekki kvikna.

GTC4Lusso er nánast óaðfinnanlegur bíll; verkfræðiundur og fullkominn bræðingur af lúxus og hraða. Skynsemin segir mér að þetta nýja flaggskip Ferrari sé mögulega besti bíll sem finna má, en það er eins og hjartað vilji eitthvað annað.

Undur að innan sem utan

Kannski er það útlitið sem truflar mig. GTC4Lusso fellur í flokk svokallaðra shooting-brake bíla, sem mætti einnig kalla þriggja dyra skutbíla. Mér hefur sjaldan þótt þannig bílar hafa falleg hlutföll og er BMW M Coupe ágætis dæmi um hvað shooting-brake bílar geta verið trúðslegir. En þá laðar GTC4 fram minn innri Ragnar Reykás: eina stundina finnst mér hlutföllin ekki alveg eins og þau eiga að vera hjá sportbíl, en þá næstu fell ég í stafi yfir því hvað bíllinn tekur sig vel út á veginum. Bakhlutinn er stór, en samt ekki svo digur að skemmi heildarmyndina.

Að innan er ekki sami yfirdrifni munaðurinn og í Bentley, eða jafn framúrstefnulegar línur og í Lamborghini, en tilfinningin á bak við stýrið er eins og að vera í lúxus-geimskipi. Það er eitthvað lífrænt við leðurklædda innréttinguna, með öllum sínum bogum og túðum, og er kannski við hæfi því að tengingin á milli ökumanns og bíls er eins og þeir vaxi saman: GTC4 er eins og hugur manns í akstri.

Verkfræðingar Ferrari hafa unnið þrekvirki. Einstakir aksturseiginleikarnir stafa meðal annars af því að bæði fram- og afturhjólin beygja. Þegar ekið er á hægum hraða beygja afturhjólin í gagnstæða átt við framhjólin sem minnkar snúningsradíusinn, en þegar ekið er hratt beygja bæði fram- og afturhjól í sömu átt svo að bíllinn flýgur inn í beygjur á miklum hraða, jafnvel á sleipum vegi. Fjórhjóladrifsbúnaðurinn var endurhannaður svo að hann er 50% léttari en í öðrum bílum með drif á öllum fjórum, en um leið tekst að ná fram hnífjafnri þyngdardreifingu á milli fram- og afturöxuls. GTC4Lusso er 3,4 sekúndur í hundraðið borið saman við 3,7 sekúndur í tilviki FF, og hemlunarvegalengdin úr hundrað í núllið styttist úr 35 metrum í 34.

Svona má lengi telja: þannig berst 50% minna hljóð frá loftræstikerfinu sem er samt 25% fljótara að ná réttu hitastigi í farþegarýminu; smávægilegar breytingar á stimplum vélarinnar skila betri og jafnari bruna. Í takt við óskir kaupenda FF var meira að segja hannaður hugvitssamlegur búnaður sem minnkar hljóðið frá púströrinu svo það að ræsa bílinn snemma morguns veki ekki allt hverfið – en með því að snúa einum hnappi fer vélin í annan ham, lokast fyrir lítinn ventil og fallegar drunurnar óma þegar stigið er á bensíngjöfina.

Ekki sama unaður og ást

Þegar ég byrjaði að skrifa reynsluakstursgreinar fékk ég þau góðu ráð frá einum reynsluboltanum í faginu að gera eðlilegar væntingar til bílanna sem ég prófa: að dæma ekki Yaris og Rolls Royce á sömu forsendum. Ferrari GTC4Lusso er bíll sem myndi kosta a.m.k. 57 milljónir króna, kominn á götuna á Íslandi. Hann stendur alveg undir þessu verði og ber á margan hátt af í flokki ofurbíla. Það var hreinn unaður að spana á þessum undrabíl upp og niður hlykkjótta ítalska fjallvegi, og ég gæti ekki kvartað ef það yrði hlutskipti mitt að aka þessum bíl alla daga, ævina á enda: til þess er hann of fallegur og fullkominn.

En samt eru einhverjir galdrar sem ég sakna. Ef ég væri unglingur myndi ég ekki hengja upp veggspjald með GTC4Lusso í svefnherberginu mínu. Sama hvað ég reyni á ég erfitt með að fá þetta mikla meistaraverk Ferrari á heilann. Þegar draumabílar eru annars vegar vil ég frekar fylgja hjartanu en heilanum. Það eru bílar þarna úti sem ég myndi glaður fórna öðru nýranu fyrir, en ekki fyrir þennan.

Stýrin í bílum Ferrari eru þekkt fyrir ofgnótt takka svo …
Stýrin í bílum Ferrari eru þekkt fyrir ofgnótt takka svo að þau minna helst á stýrin í Formúlu-1 kappakstursbílum.
Shooting-brake lögunin kemur ekki alltaf vel út. Í tilviki GTC4Lusso …
Shooting-brake lögunin kemur ekki alltaf vel út. Í tilviki GTC4Lusso er alls ekki hægt að kvarta yfir útlínunum. Bíllinn er einstaklega fallegur frá öllum sjónarhornum. Takið eftir vindskeiðinni.
Stór snertiskjár er á milli ökumanns og farþega og tölvukerfið …
Stór snertiskjár er á milli ökumanns og farþega og tölvukerfið eins gott og hugsast getur. Einnig er lítill upplýsingaskjár fyrir ofan hanskahólfið.
Framhlutinn liggur ekki svo lágt að ástæða sé til að …
Framhlutinn liggur ekki svo lágt að ástæða sé til að fara mjög varlega yfir hraðahindranir eða holótta vegi.
Tvöföld afturljósin kallast á við tvöföld púströrin. Þetta er bíll …
Tvöföld afturljósin kallast á við tvöföld púströrin. Þetta er bíll með breiðar og þokkafullar mjaðmir.
Um leið og bíllinn var gerður hraðskreiðari var hemlunargetan bætt.
Um leið og bíllinn var gerður hraðskreiðari var hemlunargetan bætt.
Á milli framsætanna er lítil dæld þar sem má geyma …
Á milli framsætanna er lítil dæld þar sem má geyma lykilinn. Ljósmynd/Ferrari
Pláss er fyrir hávaxinn bílablaðamann í aftursætinu, þó hann gæti …
Pláss er fyrir hávaxinn bílablaðamann í aftursætinu, þó hann gæti seint krosslagt fæturna. Borga þarf aukalega fyrir glerþakið. Ljósmynd/Youssef Diop
Uggarnir fyrir aftan framhjólin gera GTC4Lusso enn vígalegri.
Uggarnir fyrir aftan framhjólin gera GTC4Lusso enn vígalegri.
Ef aftursætin eru felld niður á að vera hægt að …
Ef aftursætin eru felld niður á að vera hægt að rúma allt að 800 lítra af farangri í skottinu. Með sætin uppi ætti að vera pláss fyrir þrjár litlar töskur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: