Rafmagnað útspil frá Mercedes-Benz

Fyrir þá sem langar í rafmagnaðan Mercedes-Benz er B250e góður …
Fyrir þá sem langar í rafmagnaðan Mercedes-Benz er B250e góður kostur og fjölskyldufólk er ekki líklegt til að láta strumpastrætó-lagið fara í taugarnar á sér. Aksturseiginleikar, pláss og aðbúnaður innandyra vega þungt. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sífellt fleiri bílaframleiðendur halla sér að öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti og sem stendur virðist rafmagnið ætlað að verða ofan á. Flestir fikra sig hægt í þessa átt með vélarkostum sem eru beggja blands með einhverjum hætti, ýmist einfaldur hybrid eða plug-in hybrid.

Nokkrir hafa hins vegar kosið að fara alla leið og bjóða upp á hreinræktaða rafbíla og það er til marks um ásetning Mercedes-Benz að þar á bæ hafa menn afráðið að taka slaginn og kynna til sögunnar alrafmagnaðan bíl í B-Class línunni. Sumir rafbílar eru óttalegar „saumavélar“ hvað aflið varðar en það er gleðiefni hvað Benz B250e er eldsprækur í akstri.

Fjölnotalegur í útliti

Orðið „fjölnotabíll“ er yfirleitt notað bílum til hróss því það merkir að viðkomandi bíll sé fjölhæfur og til margs nýtilegur. Undirritaður er þó ekki endilega aðdáandi þeirra bíla sem fylla þann flokk, en það er ekki þar með sagt að bílarnir séu verri fyrir bragðið – það er yfirleitt útlitið sem geldur fyrir fjölnotin. Það er að nokkru leyti tilfellið hjá B-Class frá Benz. Það skal tekið fram að í tilfelli þessa tiltekna framleiðanda er úr háum söðli að detta, því nýir Benzar eru yfirleitt fallegir útlits, hvort þeir eru sedan-bílar, skutvagnar eða jeppar af hvaða stærðarsort sem vera skal. En B-Class bíllinn er með strumpastrætó-brag, svolítið braggalegur, og ekki er fyrir hinum íðilfögru straumlínum að fara sem einkenna flesta fólksbíla framleiðandans um þessar mundir, svo sem C, E og S-Class. En það verður ekki á allt kosið og bíllinn hefur vissulega sína kosti, þó að ekki sé hann sætasta stelpan á ballinu.

Inni erum við að tala saman!

Það kveður heldur við annan tón þegar inn fyrir er komið því þar þekkir maður sig þegar í stað, hafi maður á annað borð setið í Benz einhvern tímann áður. Flest sem mætir manni hér inni er áþekkt því sem maður á að venjast, allt frá gírsveifinni hægra megin í stýrisstokknum og að rafmögnuðum sætastillingunum innan á hurðaflekanum. Lofttúðurnar þrjár eru á sínum stað og setja sinn auðkennissvip á bílinn og miðstöð helstu aðgerða er sömuleiðis í samskonar skjá og venjan er í Benz. Efnisvalið er allt saman tipp topp og fagurfræðilega eru innviðir B-Class eru ákaflega vel heppnaðir.

Það er einnig ótvíræður kostur að það er hátt til lofts inni í bílnum og útsýni ökumanns er ljómandi. Þá er einkar þægilegt að setjast inn í bílinn því hvorki þarf að hvorki að setjast niður í hann eða príla upp; maður sest bara því sem næst beint inn í hann. Ótvíræður kostur þarna á ferð fyrir þá sem eiga erfitt með að príla upp eða snúa upp á búkinn á sér til að setjast niður inni í bíl.

Farþegar í aftursæti eiga líka sjö dagana sæla enda hátt til lofts fyrir þá sömuleiðis og fótarými ágætt.

(Raf)mögnuð frammistaða

Kannski vegna þess að B250e býður ekki af sér jafn afgerandi fegurðarþokka og flestir aðrir fjölskyldumeðlimir þá býst maður kannski ekki við því að aksturseiginleikarnir töfri mann tiltakanlega. En þar skjöplast manni! Bíllinn er nefnilega hreint eldsprækur og hestöflin 179 skila togi upp á 340 Nm til hjólanna og ef maður fer ekki varlega í inngjöfinni í kyrrstöðu þá hreinlega spólar hann af stað, á skraufþurrum vegi. Undirritaður lenti tvisvar í því að þegar til stóð að sæta færis og skjóta sér inn í iðuköst hringtorgs á háannatíma að bíllinn hreinlega spólaði af stað þegar gjöfin var sett í gólfið. Því bjóst ég ekki við.

Að öðru leyti er bíllinn einfaldlega svakalega fínn að keyra. Stýringin er þægileg, útsýni gott sem fyrr segir og aðgengi að aðgerðum á skjánum efst fyrir miðri innréttingunni prýðilegt.

Skjót og góð hleðsla

Þá er það rafmagnið. Bíllinn hleðst tiltölulega fljótt og vel og drægið er meira en ásættanlegt til innanbæjaraksturs. Þó þarf að gæta sín á því að ef ekki er stutt á tiltekinn hnapp í innréttingu þá hleður bíllinn sig, í sambandi, ekki nema upp í 80%. En hann er ekki lengi að því og 200 kílómetra drægi er með því betra sem býðst á markaðnum.

Mælaborðið er að öllu leyti eins og við þekkjum það …
Mælaborðið er að öllu leyti eins og við þekkjum það úr Mercedes-Benx, fyrir utan að enginn er bensínmælirinn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Skottið er býsna rúmgott og opnun skotthlerans ljómandi. Notagildi bílsins …
Skottið er býsna rúmgott og opnun skotthlerans ljómandi. Notagildi bílsins er því ótvírætt og sem fjölskyldubíll er hann ljómandi vel heppnaður. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Baksvipurinn á B-Class 250e er um margt kunnuglegur, þó flestir …
Baksvipurinn á B-Class 250e er um margt kunnuglegur, þó flestir nýir Benzar séu heldur huggulegri á að líta. En það er ekki á allt kosið. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Hátt er til lofts í B250e og því þægilegt og …
Hátt er til lofts í B250e og því þægilegt og auðvelt að setjast inn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Hátt er til lofts í B250e og því þægilegt og …
Hátt er til lofts í B250e og því þægilegt og auðvelt að setjast inn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: