„Das Wunderauto“

Vindskeiðin lyftist sjálfkrafa þegar farið er yfir 205 km hraða. …
Vindskeiðin lyftist sjálfkrafa þegar farið er yfir 205 km hraða. Með því að ýta á nokkra takka má velja að hafa skeiðina alltaf uppi, ef ske kynni að fólki þætti bíllinn ekki nógu sportlegur. Ljósmyndir/Youssef Diop
Carry on my wayward son,

There'll be peace when you are done.

Hljómtækin fylla farþegarýmið af hörðu rokki bandarísku hljómsveitarinnar Kansas.

... Lay your weary head to rest.

Skyndilega tæmist vinstri akreinin á hraðbrautinni eins langt og augað eygir. Ég kíki eldsnöggt á leiðsögukerfið til að ganga úr skugga um að það séu örugglega engar hraðatakmarkanir á þessum kafla.

... Don‘t you cry no more.

Hægri fóturinn þrýstir eins langt niður og bensíngjöfin leyfir. Vængurinn aftan á bílnum lyftist sjálfkrafa þegar farið er yfir 205 km markið. Alveg áreynslulaust þeytir vélin bílnum áfram. Hver einasta fruma í líkamanum finnur kraftinn.

Rafmagnsgítar. Orgel. 250 km/klst.

Landslagið þýtur framhjá. Hárin á handleggjunum rísa. Gleðitár koma í augun.

„Hvernig er þetta hægt?“ segi ég við sjálfan mig.

Svona fann ég hamingjuna í bílstjórasætinu á nýju Porsche Panamera 4S Diesel, stutt suður af Stuttgart, í byrjun desember.

Hraðasti dísilbíllinn

Pressudeildin í Stuttgart hafði verið svo rausnarleg að lána mér Panameruna í sex daga. Mér var sagt að ég mætti aka hvert sem er innan EES og engin takmörk á kílómetrafjöldanum heldur. Úr varð að fara í yndislega reisu þar sem leiðin lá frá Þýskalandi gegnum Sviss, Ítalíu, Frakkland og upp til Bretlands, og svo aftur til Stuttgart í gegnum Belgíu. Þetta kallast að reynsluaka bíl upp til agna.

Og aldrei varð ég þreyttur á nýju Panamerunni. Aldrei hætti bíllinn að koma mér á óvart með framúrskarandi tækni og þægindum. Skemmtilegri og fullkomnari fjögurra sæta bíl hef ég aldrei ekið, og eru þá meðtaldir Ferrari GTC4Lusso og Bentley Continental GT Speed sem ég fékk að prófa fyrr á þessu ári. Og að hugsa sér að undir húddinu skuli vera dísilvél. Hver sagði að dísilbílar gætu ekki verið kynþokkafullir?

Porsche kynnti nýju Panameruna til sögunnar fyrr á árinu og hefur allt verið endurhannað frá grunni, niður í smæstu skrúfur. Eru tíu útgáfur í boði: ýmist með drifi á afturhjólunum eða öllum fjórum; með bensín, dísil eða tvinnvél; með túrbó eða án, í venjulegri útfærslu eða „executive“. Panamera 4S Diesel er með 4 lítra V8 vél sem skilar allt að 422 hestöflum. Með „launch control“ er bíllinn 4,3 sekúndur í hundraðið, sem gerir dísil-Panameruna snarpasta dísilfólksbílinn á markaðinum.

Fegurðin endurheimt

Ég verð að játa að fyrst þegar Porsche kynnti Panameruna til sögunnar árið 2009 þótti mér bíllinn ekkert sérstaklega fallegur á að líta. Porsche hafði löngu fullkomnað hlutföllin með 911-týpunni og mér leist ekki vel á að teygja og beygja útlínurnar til að búa til fjögurra sæta drossíu með rúmgóðu skotti. Ég er meira að segja svo íhaldssamur að ég hef ekki enn tekið Cayenne-jeppann fyllilega í sátt, eftir fjórtán ár á markaði. Eina stundina finnst mér hann ósköp snotur, en þá næstu hefur mér snúist hugur.

En með nýju kynslóðinni hefur Panameran fríkkað til muna. Er 2017 árgerðin mun „911-legri“ í útliti, og breytingin hvað greinilegust á afturhlutanum. Að aftan eru útlínurnar orðnar skarpari og skornari, svo að bakhlutinn er ekki lengur eins búttaður og hann var. Framhlutinn er líka bættur, og fjögurra lampa framljósin, staðalbúnaður í Panamerunni, gefa framsvipnum geimskutlulegt yfirbragð. Innréttingin er líka stórlega bætt og stílhrein, og innanrýmið með því snotrara sem finna má í nýjum bílum.

Um borð í skutlunni

Það fyrsta sem fangar augað er risastór snertiskjár sem fellur inn í óslitna línu á milli framhurðanna. Þar sem áður var aragrúi plasttakka milli framsætanna er núna kominn glansandi svartur flötur sem leggst í kringum gírstöngina, og þarf bara lauflétta snertingu á takkana á þessu rennislétta spjaldi til að breyta fjöðruninni eða fá hita í sætin. Allt er stílhreint, vandað og glansandi og jafnvel það sem er gert úr plasti virðist ekkert sérstaklega plastlegt.

Afþreyingar- og leiðsögukerfið er með því besta sem ég hef kynnst. Kortakerfið gat stundum verið nokkrum sekúndum of lengi að komast í gang á morgnana en var annars mjög snjallt og skýrt. Hljóðkerfið er líka framúrskarandi og ótrúlegt að svona skýr og holdmikill tónn skuli vera staðalbúnaður. Þegar ég hlustaði á uppáhaldslögin á fljúgandi ferð gat ég heyrt smáatriði sem ég hafði aldrei heyrt áður.

Gleðihnappurinn fundinn

Ökumaður hefur sportlegt stýri fyrir framan sig, með hæfilega mörgum stjórntökkum. Gírskiptiblöðkurnar mættu vera ögn stærri, en ég játa að ég notaði þær sársjaldan og leyfði frekar nýju silkimjúku sjálfskiptingunni frá Porsche að hugsa um gírana. Við vinstri þumalinn eru takkar til að hækka og lækka í græjunum en hægra megin eru takkar til að svara símanum, auk eins takka sem má forrita til að gera nokkurn veginn hvað sem ökumaður vill (ég forritaði takkann til að skipta yfir á næsta lag). Við hægri og vinstri þumal á stýrinu eru snúningstakkar á stærð við Bingókúlu sem stýra upplýsingum á litlum skjáum vinstra og hægra megin í mælaborðinu.

Þá er hraðastillinum (þ.e. cruise control) stjórnað með pinna aftan við stýrið, vinstra megin. Það gerðist nokkrum sinnum að ég fór pinnavillt og blikkaði háu ljósunum þegar ég vildi breyta hraðanum. Sjálfvirkur hraðastillir með fjarlægðarskynjara er valbúnaður og væntanlega stjórnað með snúningshjólinu vinstra megin á stýrinu.

Þá er líka að finna í stýrinu snúningshjól sem breytir ham bílsins og er hægt að velja á milli „venjulegs aksturs“, Sport og Sport+ auk „persónulegrar stillingar“. Þetta hjól er staðalbúnaður í tvinn-útgáfunni en aukabúnaður í 4S dísil, og kemur með skeiðklukku sem situr ofan á mælaborðinu. Í þessu hjóli miðju er svo lítill hnappur, sem ég kalla freudeknopf eða gleðihnappinn. Ef maður ýtir á þennan hnapp fer bíllinn í brjálæðisham í 20 sekúndur. Er því hægt að hafa bílinn á venjulegri stillingu í öllum daglegum akstri, en geta á einu augabragði kallað fram allan kraftinn og vélarhljóðið t.d. þegar þarf að taka fram úr leiftursnöggt eða einfaldlega láta á sér bera á rúntinum niður Laugaveginn.

Gæti búið í þessum bíl

Framsætin eru sportleg en þægileg. Ekki of hörð og heldur ekki of mjúk, og stillanleg á alla vegu. Aldrei fann ég fyrir þreytu eða eymslum undan bílstjórasætinu, jafnvel eftir akstur frá morgni til kvölds. Aftursætin eru heldur ekkert slor, og hafa á milli sín lítinn snertiskjá þar sem má kalla fram hitastillingar, leiðsögukerfi eða fikta í græjunum. Fór mjög vel um hávaxinn bílablaðamann í framsætunum og líka gott rými aftur í þó að leggjalangir geti seint krosslagt fæturna.

Skottið er nokkuð rúmgott, stærra en í síðustu kynslóð, og ætti að rúma tvær meðalstórar ferðatöskur auk pinkla. Ef aftursætin eru felld fram á við er feikinóg pláss fyrir kommóðupakkningu frá IKEA og tilheyrandi.

Kraftur, fágun og svakalegt drægi

Í akstri er nýja Panameran eins og hugur manns og virðist alltaf eiga nóg af krafti inni. Með 75 lítra tanki gat ég látið nærri 1.000 km líða á milli heimsókna á bensínstöðina, en með stækkuðum 90 lítra bensíntanki og eldsneytisnotkun allt niður í 5,8 lítra á hundraðið ætti 4S Diesel að hafa drægi allt að 1.550 km á einum tanki, sem er meira en nóg til að aka hringveginn í einum rykk og eiga samt nóg inni fyrir skottúr frá Reykjavík norður á Blönduós. Vélin gefur frá sér fallegt hljóð, og þykir minna á V8 bensínvél, en er annars mjög hljóðlát þegar spanað er á þjóðvegunum.

Ég veitti því líka athygli hvað framljósin eru afskaplega góð, og varpa mjög nákvæmum og sterkum geisla langt fram á veginn. Háu ljósin eru næstum því of kröftug og sér maður endurskinið af vegaskiltunum langar leiðir.

Bíllinn er nokkuð breiður, og hefur bætt á sig 6 millimetrum á breiddina, 5 á hæðina og 34 á lengdina. Nýja Panameran er, til samanburðar, ögn lengri og ögn breiðari en E-týpan frá Benz og fyllir vel út í bílastæðin. Það gat verið stressandi að aka um þrengstu götur evrópskra borga og líklega góð fjárfesting að borga aukalega fyrir 360° myndavél frekar en að láta bara bakkmyndavélina nægja. Eitt skemmtilegt smáatriði: þegar bíllinn er settur í bakkgír breytist halli hliðarspeglanna svo að ökumaðurinn sjái betur niður á götuna. Þjóðverjarnir hugsa fyrir öllu.

Nýja Panameran sýnir okkur á hverju er von frá Porsche: nýja átta gíra Doppelkuplung-sjálfskiptingin er eins og smjör; fjöðrunin er dúnmjúk ef maður vill það; leiðsögukerfið er eldklárt og fjölhæft og hægt að hlaða inn alls kyns gagnlegum öppum; og vélin er ekkert minna en tækniundur. Þægindin og lúxusinn vantar ekki, en heldur ekki kraftinn sem fær hjartað til að slá örar.

Eldri Panameran var ekki alveg nógu vel heppnuð útlitslega séð. …
Eldri Panameran var ekki alveg nógu vel heppnuð útlitslega séð. Ekki er hægt að segja það sama um þá nýju.
Framljósin beina björtum og hnitmiðuðum geisla langt fram á veginn.
Framljósin beina björtum og hnitmiðuðum geisla langt fram á veginn. Ljósmynd/Youssef Diop
Það væsir ekki um nokkurn mann í sérlega vel heppnuðu …
Það væsir ekki um nokkurn mann í sérlega vel heppnuðu farþegarýminu.
Skottið er hæfilega rúmgott. Pakpokinn góði til viðmiðunar.
Skottið er hæfilega rúmgott. Pakpokinn góði til viðmiðunar.
Stór snertiskjárinn veitir ekki bara leiðsögn heldur er gátt að …
Stór snertiskjárinn veitir ekki bara leiðsögn heldur er gátt að stillingum.
Farþegarnir afturí hafa sitt eigið stjórnborð.
Farþegarnir afturí hafa sitt eigið stjórnborð.
Auðvelt er að fella aftursætin til að stækka skottið.
Auðvelt er að fella aftursætin til að stækka skottið. Ljósmynd/Youssef Diop
Sætin eru sportleg en stillanleg og mjög þægileg.
Sætin eru sportleg en stillanleg og mjög þægileg.
Skjáir umkringja snúningshraðamælinn.
Skjáir umkringja snúningshraðamælinn.
Hæfilegt magn takka er á endurhönnuðu stýrinu.
Hæfilegt magn takka er á endurhönnuðu stýrinu.
„Gleðihnappuinn“ setur bílinn í skrímslaham í 20 sekúndur.
„Gleðihnappuinn“ setur bílinn í skrímslaham í 20 sekúndur.
Vélin gerir bílinn að hraðskreiðasta fjögurra sæta díselbíl sem kaupa …
Vélin gerir bílinn að hraðskreiðasta fjögurra sæta díselbíl sem kaupa má.
Snertitakkarnir gera miðjurýmið stílhreint og nútímalegt.
Snertitakkarnir gera miðjurýmið stílhreint og nútímalegt.
Útlitið nær að hitta á alveg rétta jafnvægispunktinn milli glæsileika …
Útlitið nær að hitta á alveg rétta jafnvægispunktinn milli glæsileika og sportlegra lína. Engu er ofaukið og ekkert vantar.
Verslunargatan Jermyn Street í London er komin í jólabúning. Afturljósin …
Verslunargatan Jermyn Street í London er komin í jólabúning. Afturljósin má þekkja hvar sem er. Stór snertiskjárinn veitir ekki bara leiðsögn heldur er gátt að stillingum. Sætin eru sportleg en stillanleg og mjög þægileg.Auðvelt er að fella aftursætin til að stækka skottið.Farþegarnir afturí hafa sitt eigið stjórnborð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: