Demantur í umferð

Toyota C-HR er millibíll í alveg nýjum stærðar- og gerðarflokki …
Toyota C-HR er millibíll í alveg nýjum stærðar- og gerðarflokki hjá Toyota. Djarft er teflt í hönnuninni, jafnt að innan sem utan, og það gengur allt saman upp. mbl.is/Styrmir Kári

Það er ekki ofsagt að meiri spenna hafi ríkt fyrir komu hins nýja millibíls Toyota, C-HR, en sést hefur um langt skeið. Kemur þar eitt og annað til.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða nýjan flokk hjá Toyota, í annan stað má færa fyrir því gild rök að bíllinn búi til nýjan flokk meðal fólksbíla almennt og loks ber að nefna kjarna málsins; hann er stórskemmtilega hannaður og vekur því eftirtekt og athygli hvar sem hann fer.

Hér er um talsvert djarft útspil að ræða frá hendi Toyota, jafnvel þó framendinn rími vel við þá fjölskyldumeðlimi framleiðandans sem fyrir eru, því hann er vægast sagt framúrstefnulegur að sjá, hvert sem litið er. Meira að segja innanrýmið er margt sérstakt og jafnvel framandi.

Þetta allt sem er til þess fallið að vekja réttmæta athygli en ef sönn aðdáun á að fylgja þarf að vera í lagi með aksturseiginleikana líka.

Húllumhæið er sannarlega til staðar en stendur C-HR undir hamaganginum?

Nýstárlegur skyldleiki

Nafnið C-HR er sérstakt að mörgu leyti rétt eins og bíllinn, og stendur þessi stafaruna fyrir Coupe-High Rider. Vísar það bæði til þess að bíllinn er sportlegur með „afklipptum“ skottenda og svo þess að hann situr hærra yfir götunni en fólksbílar almennt. Þó er hann ekki jepplingur. Þar sem hann er heldur ekki fólksbíll í hefðbundnum skilningi skal notast við nýyrðið millibíll héðan af.

Sem fyrr segir ber hann nokkuð sterk ættareinkenni hvað andlitssvipinn varðar en þar með er það upptalið því bíllinn líkist að öðru leyti ekki neinu sem Toyota – eða aðrir bílaframleiðendur hafa sent frá sér. Einhvern tímann hefði þótt djarft, ef ekki glapræði, að senda bíl með svo tilraunakenndu útliti í framleiðslu. Hins vegar er það svo að bílar með afgerandi sérkenni eiga í auknum mæli vinsældum að fagna.

Hér má nefna sem augljós dæmi hina vinsælu Citroën C4 Cactus og Nissan Juke; sé að gáð er ekki laust við fjarskyldan frændskap þegar afturendar Juke og C-HR eru skoðaðir. Í þessum flokki bíla ætti C-HR að vera vel í sveit settur. Hann er ekki bara sérkennilegur á að líta, heldur einnig sérstaklega fallegur.

Nýjar línur, ný hönnun

Að sögn framleiðandans, Toyota, eiga skarpar línur C-HR að minna á slípaðan demant og er það ekki fjarri sanni því sumar línurnar eru næstum egghvassar að sjá. Það hægt að virða þær lengi fyrir sér og sjá sífellt ný sjónarhorn og ný smáatriði. Tökum opnarann á afturhurðunum sem dæmi. Það þarf að skima hurðarflekann allan áður en maður kemur auga á opnarann sem er haganlega staðsettur efst í horni rúðunnar, næst skottinu. Framendinn er þá allur hinn gæjalegasti, með hvassar línur og svalt yfirbragð.

Að innan er allt á sömu bókina lært, þar mætir manni umhverfi sem er á ýmsan hátt framandi. Klæðningin innan á hurðunum er til að mynda með skemmtilega geómetrísku mynstri og umgjörð mælaborðs og stjórntækja hæfilega framúrstefnuleg. En burtséð frá útlitinu, sem er flott, er fínasta pláss innandyra og þar fer vel um mann. Þetta á einkum við framsætirn; plássið er aðeins takmarkaðra aftur í en þó ekki svo að það komi að sök. Framsetning og hönnun stjórntækja er vel heppnuð, nútímaleg án þess að vera snúin eða erfið í viðkynningu. Í takt við sölu síðustu áratugi ætti þónokkur fjöldi Íslendinga að vera kunnugur innviðum og stjórntækjum Toyota-bíla og þeim kemur fæst á óvart hér; aðrir verða fljótir að komast upp á lagið með þetta allt saman. Sumum kann að þykja innréttingin helst til fútúrísk, en ábyrgjast má að það sem ekki hittir í mark við fyrstu kynni mun falla í kramið fyrr en varir.

Toyota hafa haft fyrir því að hanna innanrýmið frá grunni að kalla, ekki síður en ytra byrðið, og það hefur heppnast fantavel.

Ljúfur bíll í akstri

C-HR er hannaður fyrir borgarlífið með valkost um þvæling utan þjóðvega; til þess er hann með nægilega veghæð og vel það. En millibíll af þessu tagi stendur og fellur með frammistöðunni innan borgarmarka og þar er hann fyrirtak.

Það sem hann skortir í hreinu afli (því er ekki að neita að nokkrir tugir hesta undir húddið hefðu glatt talsvert) bætir hann fyrir með hörkufínni stýringu og beygjuradíusinn er blátt áfram tíkall! Þetta eru kostir sem koma sér vel á misjafnlega rúmgóðum götum borgarinnar og C-HR fór fimlega um stræti Madridar er bíllinn var kynntur þar fyrir blaðamönnum seint í nóvember síðastliðnum. Að sama skapi reyndist hann þýður á hraðbrautum og var á alla lund ánægjulegur í akstri. Bíllinn virkar hár á vegi en er samt sem áður einkar stöðugur. Þyngdarpunkturinn er lágur og aksturinn eftir því.

Að lokum má geta þess að orðið á götunni er á þá leið að C-HR verði boðinn með öflugri vél í nálægri framtíð sem þýðir að góður bíll verður enn áhugaverðari. En fyrsta kastið er hann engu að síður með því áhugaverðasta sem komið hefur fram lengi.

Toyota hefur stundum verið legið á hálsi fyrir að láta …
Toyota hefur stundum verið legið á hálsi fyrir að láta áreiðanleika og öryggi koma niður á grípandi hönnun. Það segir ekki nokkur maður um CHR. Myndi þó ekki koma að sök ef vélin væri ögn kraftmeiri en hún er. mbl.is/Styrmir Kári
Toyota C-HR er að nokkru leyti einhvers staðar á milli …
Toyota C-HR er að nokkru leyti einhvers staðar á milli Nissan-bílanna Juke og Qashqai; útlitið er þó eftir sem áður einstakt, eins og sést. mbl.is/Styrmir Kári
C-HR er hannaður fyrir borgarlífið
C-HR er hannaður fyrir borgarlífið mbl.is/Styrmir Kári
Framendinn rímar vel við þá fjölskyldumeðlimi framleiðandans sem fyrir eru
Framendinn rímar vel við þá fjölskyldumeðlimi framleiðandans sem fyrir eru mbl.is/Styrmir Kári
Fínasta pláss er innandyra.
Fínasta pláss er innandyra. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: