Langþráð kattardýr komið á göturnar

F-Pace sportjeppinn er nær því að vera sportbíll en að …
F-Pace sportjeppinn er nær því að vera sportbíll en að vera jeppi. Aksturseiginleikarnir eru fyrirtak og útlit innan sem utan til stakrar fyrirmyndar. mbl.is/Árni Sæberg

Loksins, loksins, loksins. Jaguar er kominn í umferð á Íslandi og þess hefur lengi verið beðið. Að fá að aka Jaguar F-Pace um götur Reykjavíkur og nágrennis felur þar af leiðandi í sér tvöfalda frétt; að kötturinn er kominn á klakann, og svo auðvitað að hinn enski sportbílaframleiðandi hefur sent frá sér jeppa. Sportjeppa, skulum við segja.

Þegar fyrst heyrðist af því að Jaguar ætlaði að taka þátt í sportjeppaslagnum hristu sumir hreintrúarmenn höfuðið. Ætlar þessi séntilmannabíll að leggjast svo lágt? Þetta er vitaskuld sama kvakið og heyrðist fyrir 15 árum í aðdraganda þess að Porsche kynnti Cayenne á götuna árið 2003. Sá kór er fyrir lifandis löngu þagnaður enda Cayenne geggjaður bíll, sá langsöluhæsti frá Porsche, og margir hafa síðan höggvið í sama knérunn. Meira að segja Lamborghini, en það er önnur saga.

Fágun og fallegur frágangur er allsráðandi í innréttingunni. Útlitið er …
Fágun og fallegur frágangur er allsráðandi í innréttingunni. Útlitið er stílhreint og sportlegt og efnisval sem hæfir Jaguar. Snertiskjárinn er gríðarstór, í senn flottur að sjá og auðveldur í notkun. mbl.is/Árni Sæberg


Áhyggjurnar um útlit frumraunar Jaguar í jeppasmíði voru máske að einhverju leyti skiljanlegar. Fyrstu skref framleiðenda á þessum vettvangi geta verið upp og ofan. Þannig eldist fyrsta kynslóð BMW X5 rétt mátulega, og afturendinn á fyrstu kynslóð áðurnefnds Cayenne var þesslegur að nokkuð vantaði upp á.

Þessu er ekki að heilsa þar sem Jaguar F-Pace er annars vegar því þessi sportjeppi er fantavel heppnaður, hvert sem litið er.

Skottrýmið er hörkufínt og opnunin á hleranum að sama skapi …
Skottrýmið er hörkufínt og opnunin á hleranum að sama skapi firnagóð. Lokunin er svo rafstýrð. mbl.is/Árni Sæberg


Framgrillið er í hringlaga stíl við hinar týpurnar í Jaguar-fjölskyldunni, XE, XF og XJ. Ekki leiðum að líkjast og línan frá Jaguar er þétt, flott og rammgerð um þessari mundir. Loftinntökin beggja megin við númeraplötuna að framan gefa til kynna að bak við yfirbygginguna sé vél sem muni þurfa smá svala því hún muni taka á því fyrr en síðar. Þetta lítur allt saman hörkuvel út. Að sama skapi hefur tekist vel til með afturendann, hallandi afturrúðan ljær bílnum dýnamískan svip. Afturljósin eru áþekk þeim sem prýða XE og XF og útlitið gengur fyllilega eins fallega upp eins og á sedan-bíl. Jaguar F- Pace lúkkar einfaldlega fyrir allan peninginn, eins og þar stendur.

Sportlegur munaður að innan

Innandyra hefur allt lukkast með miklum ágætum og einhver ensk fágun svífur yfir vötnum. Það er kannski bara í hausnum á undirrituðum en það er einhver hefðarblær yfir frágangi mælaborðs og innréttingar í F-Pace og það leiðist engum sem undir stýrið sest. Flennistór snertiskjár með götukorti, afþreyingarkerfi og fleiru er hinn notendavænsti. Efnisvalið er allt eins og best gerist og hönnunin öll svo gæjaleg að eftirminnilegt er hverjum sem reynir.

Jaguar F-Pace er framúrskarandi þegar innanrými er annars vegar, bæði …
Jaguar F-Pace er framúrskarandi þegar innanrými er annars vegar, bæði hvað varðar framsætin og farþegarýmið. Hér væsir ekki um neinn. mbl.is/Árni Sæberg


Talsvert er af stjórntækjum í stýrishjólinu og það er Jaguar til hróss að þar er að finna hnappinn sem hitar upp stýrið; merkilega oft er sá hnappur falinn í innréttingunni, jafnvel á stað þar sem stýrið skyggir á! Því er ekki að heilsa hér og það þarf ekki að fálma eftir téðum hnappi, bara lyfta þumlinum án þess að sleppa höndum af stýrinu og smella á. Heitt stýri, gerið svo vel. Skiptingin fer fram með því að snúa skífu í miðjustokki og það er allt hið þægilegasta við að eiga. Undirritaður var reyndar fáein andartök að átta sig á því að það þurfti að styðja á skífuna til að koma bílnum í Sport-stillingu, en – þar sem er vilji, þar er leið og vitaskuld fann maður út úr þessu.

Eldsprækur í akstri – en höldum okkur á malbikinu

Svo fyrst byrjar gamanið þegar ekið er af stað. Hafa ber í huga að undirritaður prófaði bílinn með þriggja lítra dísilvél, sem togar heil lifandis ósköp. Vélarhljóðið er unaðslegt, ekki síst þegar slegið er í klárinn, og hér rætast allir draumar þess sem hefur hug á aflmiklum og fallega hönnuðum sportjeppa.

Jaguar F-Pace er sportlegur og flottur að sjá að aftan …
Jaguar F-Pace er sportlegur og flottur að sjá að aftan og þar hefur hallandi afturrúðan mikið að segja. mbl.is/Árni Sæberg


Bíllinn er gersamlega rígfastur við veginn og haggast ekki þótt hringtorg séu tekin eins og klukkan sé fimm mínútur í næsta Liverpool-leik. Stýringin er eins og hugur manns og fjöðrunin svo stíf að helst minnir á sportbíl, ekki sportjeppa.

Þar stendur svo aftur á móti hnífurinn í kúnni títtnefndu. Jaguar F-Pace er sportjeppi, með talsvert meiri áherslu á sportið en jeppann. Vissulega situr ökumaður hátt og sér vel, rétt eins og í góðum jeppa, en fjöðrunin er þessleg að hann hefur ekkert á holótta malarvegi að gera.

Langþráð kattardýr komið á göturnar
Langþráð kattardýr komið á göturnar


Nú er persónubundið hvaða vegi eða vegleysur meiningin er að bjóða bílnum upp á, en þessi bíll á heima á malbiki, punktur. Búist því ekki við jeppalegum eiginleikum því þessi köttur er innikisi hvað það varðar, borgarbarn í báða skó. En þar er hann líka fullkomlega í sínu elementi og raðast í efsta þrepið að mati undirritaðs ásamt Porsche Macan.

Meðan F-Pace var ekið um borgina sá undirritaður tvo aðra Jaguar-fólksbíla á götunum, og það var sérlega skemmtilegt að sjá þessa fallegu bíla komna hingað til lands með alvöru umboð á bak við sig; næstum jafn skemmtilegt og það er að aka einum slíkum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: