Því ég ætla að verða kóngur klár

Bentley Mulsanne EWB býr yfir töfrum sem erfitt er að …
Bentley Mulsanne EWB býr yfir töfrum sem erfitt er að útskýra með texta eða myndum. Fyrirferðamikið en samt fullkomið farartæki þar sem mann langar helst að búa.

Reynsluakstursgreinin hér að framan er sú fyrsta í flokki greina þar sem prófaðir verða fernra dyra fólksbílar í hæsta gæðaflokki. Er ætlunin að fræða lesendur um bíla sem gætu hugsanlega komið í stað Lexus drossíunnar sem hefur verið aðalbifreið forsetaembættisins undanfarin tíu ár. Greinarnar munu dreifast yfir sumar-, haust- og vetrarútgáfuna enda margir bílar sem myndu sóma sér vel í hlaðinu á Bessastöðum.

Farþegar geta stillt aftursætin á alla mögulega vegu.
Farþegar geta stillt aftursætin á alla mögulega vegu.

Greinaflokkurinn verður frábrugðinn öðrum reynsluakstursgreinum að því leyti að góður gestur er fenginn til að sitja í aftursætinu og gefa umsögn um bílinn frá sjónarhóli þjóðhöfðingja. Bílarnir sem um ræðir eru jú oftar en ekki hannaðir utan um farþegann mun frekar en bílstjórann.

Allt er þetta til gamans gert, og ætlunin umfram allt að leyfa lesendum að upplifa dýrustu og fínustu lúxusbílana á markaðinum í dag. Verður tíminn að leiða í ljós hvenær gamla Lexusinum verður skipt út, og hvaða bíll mun koma í staðinn.

Reynsluaksturinn

Mannskepnan er undarlegt dýr: því meira sem hún fær, því meira vill hún. Ef maður venst því að nota Andrex, þá verður ekki aftur snúið þó eitt sinn hafi gamli góði Papco-skeinipappírinn þótt meira en nógu góður til síns brúks. Eftir að hafa reynt það einu sinni að fljúga á fyrsta farrými verður það kvöl og pína eftirleiðis að sitja eins og sardína í dós í afturhluta flugvélarinnar. Ef maður borðar nógu mikið af rússneskum styrjuhrognum og drekkur nóg af Cristal-kampavíni kemur ekki til greina að fara aftur yfir í Kalles Kaviar og Sprite.

Framsvipurinn er hreint út sagt konunglegur og höfðu ókunnugir á …
Framsvipurinn er hreint út sagt konunglegur og höfðu ókunnugir á orði hvað bíllinn væri framúrskarandi fagur.

Þegar þetta er skrifað er liðinn tæpur mánuður síðan ég fór í fjögurra daga bíltúr á Bentley Mulsanne EWB, og ég finn enn fyrir fráhvarfseinkennunum. Þegar maður slysast til að venjast öðrum eins lúxus á sér stað einhver grundvallarbreyting djúpt í sálinni, og allir aðrir bílar – sama hvað sætin eru þægileg, vélin stór og fjöðrunin mjúk – virðast hálfgert frat í samanburði.

Stærð og íburður í efstastigi

Bentley framleiðir fjórar gerðir af bílum: Í Continental-línunni eru sportlegu kúpubakarnir og blæjubílarnir; Flying Spur er fernra dyra drossían; Bentayga nýi lúxus-jeppinn og svo er Mulsanne sem er flaggskip fyrirtækisins: hápunktur íburðar og glæsileika. Mulsanne EWB er lengda útgáfan og bíll sem er aðallega notaður af þjóðhöfðingjum.

Leiðsögukerfið er stærsti gallinn við bílinn.
Leiðsögukerfið er stærsti gallinn við bílinn.

Stærðin er líka það fyrsta sem slær mann þegar sest er á bak við stýrið. Á breiddina er Mulsanne EWB álíka víður og stærsti Land Róverinn, eða um 2,2 metrar á milli spegla. Lengdin fer hins vegar langt út fyrir öll velsæmismörk: Á meðan lengda útgáfan af Range Rover er tæpir 5,2 metrar á lengd er Mulsanne EWB 5,8 metrar. Til að setja þá tölu í samhengi sem auðveldara er að skilja, þá fyllir Mulsanne EWB um það bil þrjú bílastæði þegar honum er lagt þversum.

Nuddtakkinn er vitaskuld á sínum stað.
Nuddtakkinn er vitaskuld á sínum stað.

Stefnan var sett á sveitahótel í Cornwall, og að aka síðan sem leið liggur norður til Wales áður en haldið yrði aftur heim til London. Leist mér ekki á blikuna þegar ég skoðaði vegina í kringum hótelið í Cornwall í Google Street View, því þangað var aðeins hægt að komast á þröngum sveitavegum með hlaðna veggi eða þétt kjarr á báða bóga. Eftir nokkur símtöl náði ég sambandi við fulltrúa vegagerðarinnar á svæðinu sem sagði mér að það væri ekki sniðugt að aka svona stórum og breiðum bíl að hótelinu.

Stýrið vantar takka til að skipta um lag eða stöð.
Stýrið vantar takka til að skipta um lag eða stöð.

Vitaskuld varð ég að láta á það reyna, því þegar á hólminn var komið nennti ég ekki að leggja Bentleyinum í næsta bæ og taka leigubíl upp á hótel. Er skemmst frá því að segja að maður lærir nokkuð fljótt að átta sig á stærð bíls sem kostar um 50 milljónir króna – nýsprautaður í ofanálag – þegar ekið er um svo þrönga vegi að stráin strjúka baksýnisspeglana bæði vinstra og hægra megin. Ég ákallaði allar vættir um að ekki kæmi bíll á móti okkur, og varð meira eða minna að ósk minni.

Í bílablaði Morgunblaðsins síðasta þriðjudag er nánar fjallað um reynsluakstur Ásgeirs. 

Eins og sést gat Þórður teygt vel úr löppunum.
Eins og sést gat Þórður teygt vel úr löppunum.

Mesti lúxus-ísbíltúr fyrr og síðar

Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra í London, lét plata sig í að vera farþegi í reynsluakstrinum á Bentley Mulsanne EWB. Varð úr að skjótast í íslensku ísbúðina Bears Ice Cream í vesturhluta London, sem Vera Þórðardóttir á og rekur með manni sínum Philip Harrison. Er skemmst frá því að segja að vel fór um Þórð í aftursætinu og ekki laust við að bíllinn fari honum vel.

Gírskiptingin er mjúk sem bráðið smjör.
Gírskiptingin er mjúk sem bráðið smjör.

Segir Þórður að það sem helst hafi komið honum á óvart hafi verið að þrátt fyrir stærð og breidd glæsikerrunnar héldu sætin nokkuð vel utan um hann. „Þetta er náttúrulega mikill lúxus, og eiginlega svo mikill lúxus að maður fær nánast samviskubit,“ segir Þórður um bíltúrinn. „Að vera farþegi í svona bíl er mikil uppilfun, og eitthvað sem maður fær sjálfsagt ekki að prufa aftur.“

Fram ljósin eru listaverk út af fyrir sig.
Fram ljósin eru listaverk út af fyrir sig.
Athugið hvernig hraðamælirinn er örlítið öfugsnúinn.
Athugið hvernig hraðamælirinn er örlítið öfugsnúinn.
Vélin svolgrar í sig bensíni enda rúm 500 hestöfl.
Vélin svolgrar í sig bensíni enda rúm 500 hestöfl.
Í skottinu má finna tvær vandaðar Bentley-regnhlífar. En ekki hvað.
Í skottinu má finna tvær vandaðar Bentley-regnhlífar. En ekki hvað.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: