Þroskaður unglingur

„Ekki smáfríður en mjög heillandi“ segir Logi um sinn eigin …
„Ekki smáfríður en mjög heillandi“ segir Logi um sinn eigin Soul.

Það er eitthvað svo dásamlegt að keyra um á rafmagnsbíl. Manni finnst maður merkilegri en aðrir og klárlega betri, enda laus við allar eiturgufurnar. Blandað við þetta er hins vegar alltaf óttinn við að verða rafmagnslaus. Í því felst náttúrlega helsti galli rafmagnsbíla að geta ekki bara rennt á næstu stöð og fimm mínútum seinna verið klár í næstu fimm hundruð kílómetra eða svo.

Þetta er hinsvegar að breytast. Hleðslustöðvum fjölgar. Í stað bíla sem skila sér aðeins 250 kílómetra við draumaaðstæður eru mörkin komin nær 400 og það breytir miklu. Nýi Kia Soul er í þeim hópi og er því orðinn raunhæfur eini bíll fjölskyldna sem hafa gaman af því að ferðast.

Mér gafst færi á að reynsluaka KIA Soul í Frankfurt. Þar sem ég þekki þessa tegund býsna vel get ég með sanni sagt að breytingin er veruleg. Þessi bíll er kraftmeiri, þægilegri og á allan hátt meiri bíll en forveri hans.

Þegar ég kom heim með Kia Soul fyrst horfði konan mín á mig smástund og sagði svo: Af hverju eigum við að fara að kaupa svona ljótan bíl? Og það er kannski ekki alveg galið. Gamla útgáfan er ekki fallegasti bíllinn sem maður sér en maður hættir að taka eftir því eftir nokkra daga. Og það virðist reyndar eiga við um fleiri enda bíllinn gríðarlega vinsæll um allan heim. Nú segir konan mín reyndar að bílinn sé eins og Barbra Streistand: Ekki smáfríður en mjög heillandi!

Eldri útgáfan er eins og álappalegur bólugrafinn unglingur. Nú hefur hann hinsvegar stækkað, fríkkað og þroskast.

Breytingar til bóta

Nýja útgáfan er töluvert breytt. Hann er aðeins straumlínulagaðri og heldur fallegri að sjá. Margar litlar breytingar hafa verið gerðar, hleðsluopið er minna og fallegra og töluverð breyting er á ljósunum. Allt breytingar til bóta.

Það sem gleður mig þó mest persónulega er að skottið er nokkuð stærra. Ekki aðeins rýmra heldur er nú hægt að lækka botninn og bæta þar við nokkuð góðu plássi. Í mínum huga er nefnilega alltaf lykilatriði að golfsett komist nokkuð örugglega í skottið. Það er sumsé komið í lag.

Að innan hefur bíllinn líka breyst mikið. Snertiskjárinn er mun stærri og þægilegri. Hægt er að nota þrjár skjámyndir í einu og maður er fljótur að læra á helstu skipanir. Skiptingin (það sem einu sinni var kallað gírstöng) er nú hnappur sem auðvelt er að eiga við og er mun fallegra. Þar að auki fær bílstjórinn helstu upplýsingar á skjá beint fyrir framan sig og þarf ekki að líta á mælaborðið, sem gerir akstur þægilegri. Svo er líka komið hraðhleðsluhólf fyrir síma.

Svo má ekki gleyma Harman Kardon hljóðkerfinu sem stendur sig býsna vel og haldið lengra með það sem boðið var uppá í fyrri tegundum; ljós í takt við tónlist. Kannski ekki það nauðsynlegasta í bíl en samt pínu skemmtilegt.

Sjálfvirkt viðnám

Ein nýjung er líka nokkuð sniðug og það er stilling á viðnámi til að viðhalda hleðslu. Í stað þess að stilla sjálfur hve mikið viðnámið á að vera (meira í mikilli umferð þegar oft er stigið á bremsur) er hægt að láta bílinn ákveða það sjálfan, útfrá aðstæðum. Hann metur þyngd umferðar og stillir viðnámið eftir því. Að auki er hægt að stilla það sjálfur með stýrisflipum og jafnvel nota þá til að bremsa nánast algjörlega. Mjög þægilegt þegar maður venst því, sérstaklega í mikilli umferð.

Eins og í flestum rafbílum er líka boðið upp á app með, til að fylgjast með eyðslu, tímasetja hita og fleira en það mun vera óvíst hvenær sú tækni skilar sér til Íslands.

Stóra málið er samt vélin. KIA gerir tvær tegundir. Önnur er svipuð fyrri árgerðum. Rúmlega 39 kw rafhlaða og 100 kW vél sem skilar rúmlega 135 hestöflum. Slíkur bíll skilar sér um 270 km á hleðslu.

En stóru fréttirnar eru stærri vélin og það er einmitt sú vél sem Askja, inflytjandi KIA, hefur veðjað á. Sú gefur rúmlega 200 hestöfl. Þar er 64 kW rafhlaða sem skilar bílnum rúmlega 450 km á hleðslu. Það er töluvert meira en venjan er í þessari tegund bíla. Og þannig var bíllinn sem ég prófaði í Frankfurt.

Mikill munur

Það er skemmst frá því að segja að munurinn í töluverður. Hann er kvikari, kraftmeiri og skemmtilegri í akstri. Liggur merkilega vel og sérstaklega gaman að finna hvað hann tekur vel við þegar komið er á sæmilegan hraða. Á þýsku hraðbrautunum fannst mér eins og hann ætti nóg eftir þegar komið var vel yfir 100 kílómetra hraða. En það er ekki eins og maður láti reyna mikið á það hér heima...

Kia Soul EV

» Rafhlaða. 64 kWh

» 204 hö / 395 Nm

» 452 km drægni

» 0-100 km/klst á 7.9 sek.

» Hámarkshraði 167 km/klst

» Framhjóladrifinn

» Eigin þyngd. 1.680 kg.

» Farangursrými 315 - 1.339 l

» Felgustærð 17“

Hleðslutími rafhlöðu:

» Hraðhleðslustöð (DC) 100 kW. 0-80% 54 mín

» Heimahleðslustöð (AC) 7.2 kW. 0-100% 9.35 klst.

» Verð liggur ekki fyrir en fyrstu bílarnir koma í ágúst

Kia Soul EV nálgast 400 km drægi á einni hleðslu.
Kia Soul EV nálgast 400 km drægi á einni hleðslu.
Nýja Kia Soul er heldur sportlegri að sjá en fyrri …
Nýja Kia Soul er heldur sportlegri að sjá en fyrri kynslóð þótt hann verði seint kallaður sportbíll. Í neon-grængulum lit er hann mjög raflegur.
Sæmilegt pláss er fyrir fólk og farangur, og golfsettið.
Sæmilegt pláss er fyrir fólk og farangur, og golfsettið.
Vélin skilar aldeilis sínu.
Vélin skilar aldeilis sínu.
Skjárinn í bílnum er stór og þægilegur í notkun.
Skjárinn í bílnum er stór og þægilegur í notkun.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: