Tímalaus hönnun skín í gegn

„Með bæði græjurnar og inngjöfina í botni gleymdist fljótt að …
„Með bæði græjurnar og inngjöfina í botni gleymdist fljótt að maður væri að aka barnabarni gamla Willys“. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mikið hlakka ég til að keyra hann á morgun.“ Að þessu stóð ég mig segja upphátt eitt sinn þegar ég gekk fram hjá Jeep Wrangler Rubiconinum sem sat á hlaðinu hjá mér, öðrum af þeim tveimur sem ég hafði til reynsluaksturs, helgi eina nú í ágúst.

Nýi Rubiconinn frá Wrangler er jeppi með stóru joði. Kitlar egóið þegar maður gengur að honum, kraftgóður og traustur í akstri, og minnir í hverri beygju á það á hvaða arfleifð hann byggist.

„Þú ert að fara í jeppaferð“

„Þetta er svolítill karlabíll,“ segir kærastan meðan hún stekkur upp í farþegasætið á fallega steingráum Rubiconinum og tekur þéttingsfast í handfangið fyrir framan sig. Í sömu andrá virðir hún innvolsið á bílnum fyrir sér, grófa takkana og stóran skjáinn. Allt við farþegarýmið minnir á að hún væri stödd í alvöru jeppa. Inni í ofannefndu handfangi sitja berir skrúfuhausar og fyrir framan hana stórir hnappar til að stýra miðstöðinni og sætahitanum. Glansandi rauður grunnurinn sem driflæsingarofinn situr á og stór gírstöngin með breiðum hausnum og teikningunni af Willys jeppanum ofan á. Allt gert til þess að setja tóninn fyrir bílferðina sem við vorum að fara í. „Þú ert að fara í jeppaferð,“ er eins og bíllinn segði við hana áður en vélin var ræst.

Nokkrum andartökum eftir að kærastan hafði rifið í handfangið vorum við lögð af stað upp í bústað og þrátt fyrir að hafa ekki ætlað mér að orða þetta jafnafdráttarlaust og hún, áttaði ég mig alveg á því hvað hún átti við með því að kalla Rubiconinn „karlabíl“. Meðan ný átta þrepa sjálfskiptingin og 2,2 lítra díselvélin malaði á leiðinni austur fyrir fjall hrönnuðust upp hlutirnir sem mér líkaði við bílinn og á meðan óx nýtilkominn jeppaáhugi minn.

Ekkert óþarfa vesen

Það sem vitanlega vekur fyrst eftirtekt þegar maður sér nýja Rubiconinn er útlitið á honum. Eins og við mátti búast réðst Jeep ekki í neinar heildarútlitsbreytingar frá fyrri módelum, og skín tímalaus hönnunin á fyrsta Wranglernum, frá 1986, óneitanlega í gegn. Eins og annað við bílinn er ytra byrði hans hannað til að minna mann á það að maður sé að aka jeppa. Ekkert óþarfa vesen. Festingarnar fyrir hjarirnar á hurðum bílsins grófar og eldsneytislokið sömuleiðis. Öngvar óþarfa sveifar til að opna það, og sömu sögu að segja um vélarhlífina, sem er læst með tveimur utanáliggjandi festingum.

Upplifunin má þó að mínu mati ekki líða fyrir útlitið, en gerir það í einu tilfelli í Rubiconinum.

Á ég þar við fernhyrnda hliðarspeglana, sem eru í sérstaklega góðum takti við aðra hönnun bílsins, en eru aðeins of litlir. Stóð ég mig meðal annars að því að þurfa að athuga „blinda blettinn“ oftar en vanalega þegar ég skipti á milli akreina í höfuðborginni. Þrátt fyrir að hafa ekki prófað það sjálfur get ég ímyndað mér að þeir sem færu á Rubicon í ferðalag með hjólhýsi eða annan orlofsvagn í eftirdragi yrðu fljótir að fá sér auka hliðarspegla utan á þá sem fyrir eru. En kannski er það einfaldlega gjaldið sem maður greiðir fyrir glæsilegt útlit bílsins.

Ólíkur að stórkostlegu leyti

Því verður ekki neitað að Jeep hagnast á því að geta byggt á arfleifð hins ódauðlega Willys jeppa. Eins og áður segir fara þeir hjá Jeep ekki leynt með þetta og sýna stoltir litla teikningu af jeppanum gamla í gírstönginni, og minna ökumanninn á hvurslags bifreið hann er að aka. Þótti sextugum föður mínum þetta sérstaklega skemmtilegt og var þar með unninn á band Rubiconsins. Hann sjálfur, eins og margir af sinni kynslóð, búinn að skakast margan sveitaveginn í aftursætinu á Willys-jeppa.

Þrátt fyrir að vera líkur forföður sínum að ýmsu leyti er nýi Rubiconinn þó ólíkur gamla Willys-inum að stórkostlegu leyti líka. Sérstaklega kom Rubiconinn á óvart þegar ég fór að reyna græjurnar í bílnum. Þrátt fyrir að allir alvöru bílar í sama verðflokki séu í dag komnir með háklassa tölvukerfi hafði ég ekki gert mér miklar vonir um að ég yrði sérstaklega heillaður af græjunum í Rubiconinum. Það kom svo á daginn að græjurnar voru á meðal þess sem heillaði hvað mest, mögulega höfðu hófstilltar væntingar mínar þar áhrif, en stór snertiskjárinn í miðju ökurýmisins og samspil hans við skjáinn milli snúnings- og hraðamælisins í mælaborðinu kom einstaklega vel út. Hljómgræjurnar voru einnig frábærar. Kröftug bassakeilan í skottinu gaf Stuðmönnum góða innspýtingu þegar ég skrúfaði upp í þeim á Miklubrautinni. Þægilegt og auðskiljanlegt viðmót stýrikerfisins í skjánum heillaði líka, enda hefur maður lent í því að viðlíka stýrikerfi í meiri lúxusbifreiðum séu að reyna of mikið, og líði því fyrir það. Sömuleiðis var ég fljótur að ná tökunum á skjánum á milli mælanna, sem maður fletti og stillti með hnöppunum í stýrinu.

Jeppaandinn hverfur ekki

Ánægjustunu má heyra koma frá Rubicon þegar honum er hleypt á grófara undirlag. Ég náði því miður ekki að fara með hann í almennilega fjallaferð en ímynda mér að hann sé einstaklega traustur þar. Auðvelt er að skipta á milli háa og lága drifsins, en eins og áður segir er drifinu læst með einum rofa og ef maður er í þeim mun torfærari ferð er jafnvægisstöngin aftengd með öðrum rofa.

Í innanbæjarakstri er Rubicon lipur og þægilegur, og þrátt fyrir að ná aldrei að hrista almennilega af sér jeppafílinginn (enda langar hann ekkert að gera það) þá tekst honum merkilega vel að vera ekki of stór þegar maður leggur honum í þröngt stæði. Þótti mér hann standa sig betur í þeirri prófun en margir stærri jeppar sem þó eiga að heita meiri lúxusjeppar.

Nokkur munur er á dísilútgáfunni og bensínbílnum í akstri, en frá engu sérstöku að segja í þeim efnum. Meiri snerpa er í bensínbílnum en meira tog og minni eyðsla í dísilútgáfunni. Segja mínir menn hjá Ísbandi, umboðsaðila Jeep, að báðar tegundir séu keyptar nokkuð jafnt.

Sjálfum fannst mér bensínbíllinn skemmtilegri, sem skilar með 2,0 lítra vél heilum 270 hestöflum, 70 fleiri en dísilbíllinn. Eins og við var að búast var hann því snarpur og þó maður þrykktist ekki aftur í sætið eins og í lágum sportbíl þótti mér hann standa sig býsna vel borið saman við eigin upplifun af akstri þekktra sportjeppa. Með bæði græjurnar og inngjöfina í botni gleymdist fljótt að maður væri að aka barnabarni gamla Willys.

Frábært útlit og fílingur

Enginn bíll er fullkominn, og áður nefndi ég hliðarspeglana sem mér þóttu heldur litlir. Annað sem mér fannst ekki nógu vel útfært í nýja Rubiconinum er nokkuð minniháttar, en vert að minnast á.

Eins og þekkt er, er veltigrindin á Wranglernum „inni í“ bílnum, ef svo má að orði komast, enda er hann víða seldur án þaks og jafnvel notaður án hurða. Þýðir þetta því að grindin kemur niður úr loftinu svo að segja og veldur því að maður sér verr út þegar setið er í aftursæti bílsins. Myndi rýmiskvíðnum kannski líða eins og þrengt væri að þeim. Ekkert þessu tengt truflaði mig þó í akstri, en eftir þessu var tekið þegar sest var í aftursætið.

Annað sem mér líkaði ekki nógu vel, af sömu rót sprottið, var hurðin á skottinu sem skiljanlega er í tveimur hlutum, vegna þess að þakið er, í heitari löndum en Íslandi, oft valmöguleiki frekar en nauðsyn. Veldur þetta því að tvær hreyfingar þarf til að komast í skottið; opna hurðina til hliðar og hlerann með afturrúðunni upp á við. Vitanlega er hægt að henda einhverju í skottið án þess að færa til hlerann en það gerir maður einungis í undantekningartilvikum.

Eins og áður segir þótti mér þessi atriði þó nokkuð minniháttar í samanburði við annað sem Rubicon býður upp á. Frábært útlit og kröftugur fílingur í sambland við nútímatækni og lipran innanbæjarakstur er það sem einkennir hinn nýja Rubicon, og mega Jeep menn vera stoltir af honum, og má Willy sömuleiðis vera stoltur af arftakanum.

Jeep Wrangler Rubicon 2019

» 4 strokka 2,0 l bensínvél með forþjöppu og 4 strokka 2,2 l dísilvél með forþjöppu.

» 273 ha/400 Nm bensínvél og 200 ha/450 Nm dísilvél.

» 8 þrepa sjálfskipting.

» Eyðsla í blönduðum akstri: 10l/100 km (bensín) 7.7l/100 km (dísil)

» Fjórhjóladrifinn

» 4:10 drifhlutföll

» Hásingar að framan og aftan. 100% læsingar að framan og aftan.

» 32“ BF Goodrich Mudtrack-dekk.

» Farangursrými: 548 lítrar.

» Dráttargeta: 2.370 kg.

» Þyngd: 2.080 kg.

» Sótspor: Dísil 197 g og bensín

219 g.

» Umboð: ÍsBand

Verð frá: 10.890.000 kr.

Jeep hefur sent frá sér nýjan Wrangler Rubicon, sem er …
Jeep hefur sent frá sér nýjan Wrangler Rubicon, sem er eins og við var að búast, jeppi með stóru joði.
Jeep Wrangler Rubicon 2019
Jeep Wrangler Rubicon 2019
Jeep Wrangler Rubicon 2019
Jeep Wrangler Rubicon 2019 mbl.is/Kristinn Magnússon
Jeep Wrangler Rubicon 2019
Jeep Wrangler Rubicon 2019 mbl.is/Kristinn Magnússon
Jeep Wrangler Rubicon 2019
Jeep Wrangler Rubicon 2019
Jeep Wrangler Rubicon 2019
Jeep Wrangler Rubicon 2019
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina