Fiat eykur hlut sinn í Chrysler

Það er einkennileg staðreynd að Fiat sem á í vandræðum …
Það er einkennileg staðreynd að Fiat sem á í vandræðum við sölu eigin bíla í Evrópu skuli vera hægt og rólega að eignast Chrysler

Hægt og rólega er Fiat að eignast hið stóra bandaríska bílafyrirtæki Chrysler. Nú stefnir Fiat að því að auka hlut sinn í Chrysler í 62% og eignast 3,3% til viðbótar fyrri eign. Fiat hefur kauprétt á þessum bréfum og getur bætt við sig 3,3% á sex mánaða fresti. Það hyggst Fiat nýta sér, enda hagnast Fiat mjög á eign sinni á Chrysler.

Þetta fornfræga bandaríska merki var komið á hnén fyrir örfáum árum og gjaldþrot blasti við, en með fjárstuðningi Bandaríkjastjórnar og loforði um að það myndi hverfa af braut sinni að framleiða eyðslufreka bíla og fara að dæmi evrópskra bílaframleiðenda hefur fyrirtækið tekið vinkilbeygju. Að tilstuðlan Bandaríkjastjórnar var 20% hlutur Chrysler seldur Fiat fyrir þremur árum í því augnamiði að Fiat hjálpaði Chrysler að breyta bílum sínum. Það hefur lukkast svona blessunarlega.

Aukin sala á bílum í Bandaríkjunum í ár hefur aldeilis hjálpað Fiat, sem stendur frammi fyrir mjög minnkaðri sölu bíla á Ítalíu, eins og reyndar í flestum löndum Evrópu. Fiat áætlar 1,2 milljarða evra hagnað á árinu og er það að mestu að þakka velgengni Chrysler.

mbl.is

Bloggað um fréttina