Frakkar vilja rafbíla: Kjósa að lækka kostnað

C-Zero rafbílar frá hinum franska bílsmið, Citroen.
C-Zero rafbílar frá hinum franska bílsmið, Citroen. mbl.is/afp

Meirihluti Frakka er reiðubúinn að gefa sig rafbílnum á hönd og tilbúinn að kaupa slíka. Ástæðan er þó ekki umhyggjusemi fyrir vistkerfinu heldur löngunin til að ná rekstrarkostnaði vegna heimilisbíls niður.

Þetta kemur fram í könnun Ifop-stofnunarinnar fyrir blaðið Dimanche Ouest-France, sem út er gefið í borginni Rennes á Bretaníuskaga. Má segja að landsmenn skiptist nokkuð í tvennt í afstöðunni til rafbíla því 53% sögðust reiðubúin að taka slaginn og kaupa slíkan bíl en 47% voru því fjarhuga.

Aðeins þriðjungur þeirra sem sögðust klárlega tilbúin að kaupa rafknúinn bíl sagðist vilja það með náttúruvernd í huga. Hins vegar sögðust 48% rafbílakaupenda eingöngu gera það til að ná kostnaði niður en 36% sögðu niðurgreiðslur og ýmis hlunnindi ráða sínum kaupum.

Þurfa að sannfæra neytendur

Þeir sem sögðu kaup á rafbíl ekki koma til greina sögðu þá of dýra, rekstrarkostnaður hefði aukist og notkunargildi væri enn of takmarkað, að sögn Ifop. Í sambærilegri könnun fyrir tveimur árum kom rafbíllinn betur út en nú, þ.e. þeim hefur fjölgað til muna sem segja kaup á rafbíl ekki koma til greina á sinni hálfu í bráð.

„Bílaframleiðenda bíður það mikla verk að sýna og sannfæra neytendur um að rafbíllinn sé skynsamleg fjárfesting,“ segir framkvæmdastjóri hjá Ifop.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: