Hærra bensínverð hefur breytt akstursmenningu til hins betra

Menn hafa róast undir stýri við verðhækkunina.
Menn hafa róast undir stýri við verðhækkunina.

Þau fleygu orð, að fátt sé svo með öllu illt að eigi boði gott, eiga vel við um niðurstöður nýrrar erlendrar rannsóknar á afleiðingum hækkunar bensínverðs undanfarin misseri. Þær leiða í ljós, að ökumenn hafa batnað eftir því sem dropinn verður dýrari.

Samkvæmt rannsókninni hefur ríflega þriðjungur bílstjóra, eða fjórir af hverjum tíu, dregið úr ökuhraða og hefur hann hóflegan í þeim tilgangi að draga úr bensínnotkun sinni. Þá kvaðst helmingur þeirra sem þátt tóku í könnuninni ekki lengur hraða bílnum jafngrimmt og hann gerði fyrir áratug eða svo.

Af konum sem þátt tóku sögðust 42% nota fimmta gír bílsins eins mikið og frekast væri kostur til að auka skilvirkni eldsneytisnotkunarinnar.

Vilja ferðast einir

Könnunin, sem var gerð fyrir framrúðufyrirtækið Autoglass, leiðir sem sagt í ljós að hækkandi bensínverð hefur haft í för með sér hugarfarsbreytingu hjá velflestum bílstjórum.

Sagðist rúmlega helmingur þátttakenda myndu vilja eiga sparneytnari bíl ef hann ætti möguleika á því. En þrátt fyrir minni fjárráð kvaðst rúmlega þriðjungur ekki vilja hefja samstarf við vini eða vandamenn um að deila saman ökutæki til ferðalaga.

Aukinheldur kemur fram, að þriðjungur ökumanna segir að þægilegra hafi verið að keyra í umferðinni um þær mundir sem hann tók próf en nú til dags. Fjórir af tíu sögðust með engu móti upplifa akstur sem afslappandi viðfangsefni og 24% sögðu að sér mislíkaði meira en áður að þurfa að fara ferða sinna á bíl.

Þrennt er svekkjandi

Það sem svekkt hefur breska ökumenn mest á undanförnum misserum er hátt eldsneytisverð (76%) en það heldur áfram að hækka á þeim tíma sem það venjulega lækkar. Í öðru sæti eru hraðamyndavélar (42%) og takmarkað viðhald vega er í þriðja sæti á listanum yfir það sem ergir ökumenn.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: