127 ár frá fæðingu bílsins

Hjónakornin í bíltúr.
Hjónakornin í bíltúr. Wikipedia.org

Hinn 29. janúar 1886 sótti Karl Benz um einkaleyfi fyrir „Benz Patent-Motorwagen“, sem í dag er almennt litið á sem fyrsta bílinn. Fyrsta eintakið var sýnt opinberlega í Mannheim í júlí sama ár, en aðeins voru um 25 slíkir smíðaðir frá 1886 til 1893.

Þrátt fyrir að fólk hafi áður verið búið að setja vélar á gamla hestvagna og fleira í þeim dúr var bíll Benz sá fyrsti sem var smíðaður frá grunni sem slíkur. Hann var þriggja hjóla, en Benz hannaði sjálfur stálfelgur með teinum og fékk þá hugmynd að nota gúmmíhjólbarða.

Mótorinn var aftan á bílnum, 0,954 lítra fjórgengisvél sem skilaði 2/3 úr hestafli við 250 snúninga á mínútu. Við 400 snúninga jókst aflið upp í 0,9 hestöfl, eftir því sem nýlegar prófanir hafa sýnt.

Það var eiginkona Karls, Bertha, sem lagði til fjármagnið sem þurfti til að hanna bílinn, og væri því einkaleyfishafinn samkvæmt núríkjandi lögum. Árið 1886 máttu þýskar konur hinsvegar ekki sækja um einkaleyfi, ef þær voru giftar.

Bertha fór líka í fyrstu langferðina á bíl, en hún lagði að baki 194 kílómetra í ágúst árið 1888, með sonum þeirra hjóna. Tilgangurinn var að kynna bílinn fyrir almenningi og sýna fram á notagildi hans. Hún kom við hjá lyfsölum og fékk eter til að setja á eldsneytistank bílsins, svo þeir urðu í reynd fyrstu bensínstöðvar sögunnar.

Sagan segir að Karl hafi ekki vitað af ferðalaginu fyrirfram, en Bertha sá sjálf um hverskyns viðgerðir sem þurfti að sinna á leiðinni. Hún hreinsaði blöndunginn með hárprjóni og einangraði rafmagnsvír með sokkabandi. Þegar bremsurnar voru farnar að slitnar fékk hún skósmið til að þekja þær með leðri, og fann þannig upp bremsuborða.

Leið Berthu lá frá Mannheim, í gegnum Heidelberg og Wiesloch til Pforzheim í Svartaskógi, hvar hún sjálf hafði fæðst. Enn þann dag í dag fara fornbílaeigendur í viðhafnarakstur þessa sömu leið, og hver sem er getur fylgt merkingum eftir þessari þýðingarmiklu leið Berthu Benz.

Fyrsti bíllinn - Benz Patent-Motorwagen.
Fyrsti bíllinn - Benz Patent-Motorwagen. Wikipedia.org
Karl Benz
Karl Benz Wikipedia.org
Bertha Benz.
Bertha Benz. Wikipedia.org
„Mótorvagn númer þrjú“ var bíllinn sem Bertha fór í langferðina …
„Mótorvagn númer þrjú“ var bíllinn sem Bertha fór í langferðina á. Wikipedia.org
mbl.is